Kvikan úr Bárðarbungu rennur eins og hunang og er um 1175 stiga heit

hitastigEin helstu einkenni hraunkviku er hitastigið og seigjan. Þessi atriði ráða miklu um hegðun kvikuhreyfinga í jarðskorpunni og eldgosa.  Það er hægt að reikna út bæði seigju og hita út frá efnasamsetningu kvikunnar.  Ég hef notfært mér efnagreiningar Jarðvísindastofnunar Háskólans af Holuhrauni hinu nýja til að ákvarða þessa eðlisþætti kvikunnar. Fyrri myndin sýnir að hitinn á nýja hrauninu er um 1175 til 1180 oC (púnktarnir innan rauða hringsins).  Til samanburðar sýnir myndin hita á kvikum, sem komu upp á Fimmvörðuhálsi (basalt) og úr toppgíg Eyjafjallajökuls (trakí-andesít) í gosinu árið 2010.  Brotna örin sýnir að kvikan úr Eyjafjallajökli var fjölbreytt hvað varðar efnasamsetningu og flókin.   Í samanburði er Holuhraun einfalt dæmi.    seigjaÖnnur myndin sýnir seigju kvikunnar.  Hún er reiknuð í einingunni Pascal-second eða Pas fyrir seigju.   Önnur eining fyrir seigju er Poise, en ein Pas er jafnt og 10 Poise. Kvikan sem kemur upp í Holuhrauni nú er með seigju um 1.54 Ln Pa Second = 15.4 poise eða 1540 centipoise.  Hvað þýðir það?   Hér á eftir fylgja  nokkur dæmi um seigju, í Pascal-second.   Hunang 2-10 Pas, tómatsósa 50-100 Pas, hnetusmjör um 250 Pas. Sem sagt:  kvikan sem kemur upp í Holuhrauni er nálægt seigjunni á hunangi eða jafnvel enn meira fljótandi.  Þetta er seigjan á kvikunni þegar hún kemur út úr kvikuþrónni og rennur í ganginum.  Strax og hún kemur upp á yfirborðið þá kólnar hún og verður mun seigari, eins og bláa örin á  línuritiinu til hægri sýnir.   Ég hef bloggað um seigju í kvikunni á Fimmvörðuhálsi og úr Eyjafjallajökli hér, til samanburðar: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/category/2670/

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

Hverning er hitasigið, bæði fyrir Fimmvörðuháls og Holuhraun fengið? Ég hef ekki séð þessar mælingar fyrr, finnst þær frekar háar.

Gísli Guðmundsson (IP-tala skráð) 14.9.2014 kl. 08:44

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Hitastig fyrir basaltið á Fimmvörðuhálsi og andesítið frá Eyjafjallajökli er ákvarðað með efnagreiningu á kvikunni og steindum eða kristöllum í henni.  Það er vel þekkt meðal bergfræðinga að efnasamsetning kviku og kristalla er háð hitastigi.  Þetta hitastig er nokkurn veginn eins og maður býst við.

Haraldur Sigurðsson, 14.9.2014 kl. 11:17

3 identicon

Volgt hunang eða kalt ?

Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 14.9.2014 kl. 12:18

4 identicon

Sæll aftur

Ok, man ekki eftir svona hitamælum fyrir bráðið berg. Ég, ásamt fleirum, mældum hitan í hrauninu sem kom upp um hliðarsprunguna á Fimmv.hálsi þann 31-4-2010 (?), hitinn var 1012 °C. Þetta á að vera nokkuð góð mæling. Hver er solidus fyrir svona kviku?

Gísli Guðmundsson (IP-tala skráð) 14.9.2014 kl. 13:18

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Hunang við stofuhita.  Ekta hunang, en ekki þetta gervihunang, sem fæst í Bónus og er þynnt út með vatni.

Haraldur Sigurðsson, 14.9.2014 kl. 13:32

6 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Gísli: Þetta er liquidus, en ekki solidus, fyrir basalt. Hiti hrauns á yfirborði er töluvert lægri vegna hraðrar kólnunar. Talan 1012 oC gæti vel passað fyrir hraun sem er að kóna.  Hraun er glóandi allt nipur í 700oC.  Hitinn sem ég gef er hitinn í kvikunni áður en hún gýs og í kvikustróknum yfir gígnum.

Haraldur Sigurðsson, 14.9.2014 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband