Kvikurennslið

GosÞað er nú greinilegt að sig öskjunnar undir Bárðarbungu er tengt kvikurennsli út úr kvikuþró undir öskjunni og út í ganginn til norðurs og að hluta til upp á yfirborð í Holuhrauni hinu nýja.   Hvert er samspil kvikurennslis upp á yfirborð og sigs á botni öskjunnar í Bárðarbungu?  Við höfum ekki nákvæmar tölur til að vinna með, en getum samt fengið nokkra hugmynd um kvikurennslið.  Síðan gosið hófst hefur  hraun um 20 ferkílómetrar á stærð gosið í Holuhrauni hinu nýja. Það lætur nærri að meðal þykkt hraunsins sé um 3 til 4 m. Þá eru komnir upp um það bil 60 til 80 milljón rúmmetrar af hrauni.  Þetta er framleiðslan á tólf dögum, eða um  5 til 7 milljón rúmmetrar á dag.  Þetta er að sjálfsögðu mikið magn, en reyndar sáralítið kvikurennsli í samanburði við til dæmis Lakagosið (Skaftárelda 1783), þegar framleiðslan var um 100 til 200 milljón rúmmetrar á dag.  Enda var gossprungan undir Lakagígum um 25 km löng.   Hvað er nýja hraunið stórt í samanburði við sig öskjunnar undir Bárðarbungu?  Öskjusigið í Bárðarbungu er nú talið um 0,8 metrar á dag. Lauslega áætlað er flatarmál öskjunnar um 130 ferkílómetrar.   Reyndar sígur ekki allur öskjubotninn, heldur miðja hans mest, en samkvæmt þessu er sigið lauslega áætlað um 50 til 100 milljón rúmmetrar á dag.   Ef það er nærri lagi, þá kemur aðeins um 5 til 10% af kvikunni upp á yfirborðið, en mikill meirihluti kvikunnar fer í að stækka ganginn.  Ég held að þetta minni okkur enn einu sinni á þá staðreynd að  er það aðeins lítill hluti af kviku sem er á hreyfingu í jarðskorpunni  kemur upp á yfirborðið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér Haraldur Sigurðsson greinargóðar skýringar á mannamáli. 

Eins og nú lítur út fyrir okkur einföldum, þá er í  Bárðarbungu stærsta bulla sem vitað er um í gangi nú á Íslandi. 

Aflgjafi bullunnar er aðdráttar afl jarðar og landrek er losun hömlu.  Eða hvað?

Vegna landreks þá þarf uppfyllingar efni sem jafnar þrýsting í jarðskorpunni og gos er bara leki vegna yfirþrýsings eða galla í rörinnu. Eða hvað?

Hrólfur Þ Hraundal, 14.9.2014 kl. 04:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband