Tilfinningin um eldgos

 

 Rax

Það er eitt ágætt orð til á enskri tungu, sem lýsir vel upplifunni þegar maður stendur fyrir framan gjósandi eldfjall: sublime.    Það þýðir eitthvað sem er mikilifenglegt eða ægifagurt og er atburður eða sýn, sem neyðir okkur til að horfast í augu við ógnardjúp tilverunnar.  Írski átjándu aldar heimspekingurinn Edward Burke (1729-1796) kom fyrst fram með kenninguna um sublime, en Gunnar J. Árnason hefur fjallað á íslensku um hugmyndir Burkes. Þegar maðurinn stendur frammi fyrir slíku ógnarafli, þá kemur best fram smæð okkar en samkvæmt Burke þá hljótum við sjálfstraust, hugrekki og sýnin af eldgosinu neyði okkur til að standa á eigin fótum og vera sjálfum sér trúr.   Væri það ekki einmitt gott nú fyrir Íslensku þjóðina?  Þannig þvingar gosið okkur til að standa á eigin fótum gagnvart náttúrunni.  Ég veit ekki hvort ég hef mikið pælt í slíkum bollaleggingum, þegar ég  kemst í návígi við eldgos, eins og í Holuhrauni í dag, en allavega er augnablikið mikilfenglegt og ægifagurt.  Myndina tók Ragnar Axelsson. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér margt ágætt Haraldur Sigurðsson og þar með trúverðugar upplýsingar til okkar venjulegra að það sé í raun eldgos í Holuhrauni.  

Ég öfunda þig af því að vera þeirrar náðar aðnjótandi að fá að sjá þetta , sennilega hættulausasta og fallegasta eldgos sem hér hefur upp staðið síðan við gamlir menn fæddumst.

Ég hef ekki ætlað mér hlut að þessari ævintýr nú um mundir , en skil vel óánægju þeirra sem þetta allt kosta en fá ekki að njóta.

Hrólfur Þ Hraundal, 12.9.2014 kl. 22:56

2 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Kvikukantata

Seiðandi eldur logar í hrauni,
brennur iðra berg.
Steypist logafoss í straumi,
brotnar af gráum merg.

Í brennandi boga
standa gígar og loga.
Tröllastjakar,
við dyngjur og sporða,
heilt tónverk
leikið án orða.

Er líður að kveldi
hljómar kantata úr eldi.

Tónlist Jarðar,
í öllu sínu veldi.

Höfundur IEB (2014).

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 13.9.2014 kl. 08:11

3 identicon

Geri ráð fyrir að þessi tilfinning hverfi aldrei, jafnvel þótt maður hafi staðið við tugi eldgosa eins og þú hefur gert. Ég hef aðeins staðið við eitt. Saga hugtaksins "sublime" nær aftur fyrir Edmund Burke, þótt hann hafi verið sá fyrsti sem analýseraði það. Þannig voru það t.d. nokkrir breskir landkönnuðir á 17. öld sem notuðu hugtakið til að lýsa upplifun sinni af ölpunum. Síðari greining Immanuels Kants hafði hins vegar mun meiri áhrif og hugtakið eins og það er notað í dag byggir yfirleitt á þeirri greiningu.

Óskar (IP-tala skráð) 13.9.2014 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband