Olíudraumurinn við Grænland fjarlægist meir og meir
4.8.2014 | 04:35
Skoska olíufélagið Cairn Energy er fyrsta og eina félagið, sem hefur gert alvarlega olíuleit umhverfis Grænland. Eftir miklar mælingar á hafsbotninum í nokkur ár, þá tóku þeir það afdrifaríka og kostnaðarsama skref að hefja djúpborun árið 2010 og héldu áfram 2011. Við borun notuðu þeir risaborpallinn Leiv Eiriksson, sem sést á myndinni hér. Kostnaðurinn er mikill, þegar slík stór tæki eru tekin á leigu. Áður en varir var kostnaður við borun kominn upp í $1,9 milljarða. En engin olía fannst í 5 holum, sem boraðar voru í Baffinflóa, vestan Grænlands. Nú hefur Cairn tilkynnt að þeir séu hættir í bili. Nú segjast þeir vera of uppteknir annarstaðar í heiminum. Sumir halda að Cairn, eins og mörg önnur félög með áhuga á Grænlandi, séu að bíða og sjá hvað setur með þróun stjórnmála á Grænlandi. Stjórnarandstaðan hefur lýst vantrausti á stjórnina og sumir erlendir fjárfestar telja að nú sé ekki gott ástand innanlands fyrir miklar erlendar fjárfestingar. En hvað sem stjórnmálunum líður, þá er greinilegt að olíuleit við Grænland hefur ekki heppnast. Hugsanlega er Grænlandssvæðið, eins og Drekasvæðið, dottið út úr olíuglugganum, eins og ég hef áður bloggað um hér:
http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1286368/
og einnig hér:
http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1285658/
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Grænland, Hafið, Jarðefni | Facebook
Athugasemdir
Fyrir 15 árum uppgötvaði ég, mér til mikillar hrellingar, í ferðum erlendis að við Íslendingar værum 40 árum á eftir Bandaríkjammönnum og 20 árum á eftir Norðmönnum í umhverfis- og náttúruverndarmálum.
Mér sýnist á ýmsu að ráðandi öfl í Grænlandi sé enn aftar á merinni ef marka má það sem þeir gerðu í fögrum skjólsælum dal fyrir innan Kangerlussuaq (Syðri-Straumfjörð) þar sem gríðarmikill skriðjökull fellur niður í dalbotninn úr hinu mikla jökulhveli Grænlandsjökuls, jökulsá beljar niður dalinn með fallegum fossum og flúðum og hreindýr dreifast um múla og dalverpi.
Neðst í dalnum taka sandar við af grónu landi, og þegar komið er vestur undir botn hins 185 kílómetra langa fjarðar, blasir skyndilega við stór alþjóðaflugvöllur með allar tegundir af flugvélum, frá Boeing 747 og niður úr.
Ég og ferðafélagar mínir heilluðumst af ósnortinni náttúru þessa magnaða dals eftir ferð þvert yfir Grænlandsjökul.
Þarna verður afar heitt á sumrin, meðalhitinn að degi til í júlí er 16 stig!
Því miður vorum við meðal hinna síðustu af þeim örfáu, sem fengu að upplifa þessar slóðir ósnortnar árið 1999.
Nokkrum árum síðar seldu Grænlendingar Volkswagenverksmiðjunum dalinn og skriðjökulinn fyrir slikk til þess að hægt væri að gera það að tilrauna- og æfingasvæði fyrir bíla verksmiðjanna.
Ef þeir haga sér svona enn varðandi þetta yfirgengilega stórbrotna land og náttúru þess bið ég Guð að hjálpa þeim.
Ómar Ragnarsson, 4.8.2014 kl. 21:51
Sæll.
Eða öndverðan, segja einfaldlega ekki frá því. Samt heldur ótrúlegt, frá mínum pósti séð.
Það verður fróðlegt að fylgjast með næstu árin og það má heldur ekki gleyma því að þessar rannsóknir skila jarðfræðingum miklum gögnum sem þeir hefðu annars ekki undir höndum...
Persónulega finnst mér ótrúlegt að stór hluti heimshafanna (og botn þeirra) skuli vera ó kannaður, á meðan verið er að spá í "líf á öðrum hnöttum...."
Hvernig væri að færa áherslurnar úr ljósárum í fáeinar mínútur með búnaði sem segir PING ?
Sindri Karl Sigurðsson, 4.8.2014 kl. 22:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.