Hlýnun heldur áfram
1.8.2014 | 06:47
Þegar ég er að kenna, þá reyni ég að forðast að endurtaka efni, jafnvel þótt það sé mjög mikilvægt. Mér finnst það sýna lítilsvirðingu gagnvart nemendum, ef maður er að endurtaka. En auðvitað er það oft gert. Ég minnist til dæmis á Ríkisútvarpið. Þeir kalla endurtekið efni Útvarpsperlur og þeim fer nú mjög fjölgandi. Hér fyrir neðan fylgja nokkrar perlur varðandi hlýnun. Nú þarf ég því miður að endurtaka atriði sem ég hef fjallað um varðandi hnattræna hlýnun, reyndar nokkrum sinnum áður. Mér virðist að lesendur hafi alls ekki tekið eftir þessu. Ég sé að allmargir lesendur telja að hlýnun á jörðu hafi stöðvast fyrir um tíu til fimmtán árum. Það er rétt, ef þú velur þér viss gögn, eða notar svokallaða cherry picking aðferð, en lítur ekki á heildina. Heildin er meðalhiti í lofthjúpnum á yfirborði jarðar OG meðalhiti í yfirborði og efri hluta heimshafanna. Reyndar eru heimshöfin miklu mikilvægari mælikvarði á hitafar en lofthjúpurinn. Skoðið til dæmis efni, sem ég setti inn á bloggið hinn 1. júlí 2014: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1404256/
Þar kemur fram, að meðalhiti, bæði haf og lofthjúpur, hefur verið stígandi ár hvert. Takið einnig til dæmis færslu mína frá 25. júni 2014: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1402441/ Þar kemur fram að hafið hefur verið að hitna stöðugt, og hlýnun hafsins nær niður á meir en 400 m dýpi. Takið færslu, sem ég gerði 23. janúar 2013 einnig um hlýnun hafsins: http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1278537/
En ef til vill er samt athyglisverðast að skoða færslu mína frá 29. nóvember 2012 http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/1270732/
Þar bendi ég á þá einföldu staðreynd, að aðeins efstu 260 cm af heimshöfunum innihalda jafn mikinn hita og allur lofthjúpurinn! Sjórinn er nær þúsund sinnum eðlisþyngri en loftið (1030 kg/m3 á móti 1.20 kg/m3 við 20ºC). Eitt kíló af vatni getur innihaldið 4,18 sinnum meiri hita en sambærilegur massi af lofti. Og enn frekar: sama rúmmál af vatni getur innihaldi 3558 sinnum meiri hita en jafnt rúmmál af lofti. Þessar einföldu staðreyndir kenna okkur, að hlýnun hafsins er mörgum sinnum mikilvægari hvað varðar hnattræna hlýnun en hitafar lofthjúpsins. Við vitum ekki hvers vegna hafið hlýnar nú hraðar en lofthjúpurinn, en við vitum að þegar á heildina er litið, þá heldur hnattræn hlýnun áfram.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hafið, Loftslag | Facebook
Athugasemdir
“Hallaperlunum” fer nú mjög fjölgandi. :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 1.8.2014 kl. 08:11
"Ég sé að allmargir lesendur telja að hlýnun á jörðu hafi stöðvast fyrir um tíu til fimmtán árum. Það er rétt, ef þú velur þér viss gögn, eða notar svokallaða “cherry picking” aðferð, en lítur ekki á heildina. Heildin er meðalhiti í "Ég sé að allmargir lesendur telja að hlýnun á jörðu hafi stöðvast fyrir um tíu til fimmtán árum. Það er rétt, ef þú velur þér viss gögn, eða notar svokallaða “cherry picking” aðferð, en lítur ekki á heildina. Heildin er meðalhiti í lofthjúpnum á yfirborði jarðar OG meðalhiti í yfirborði og efri hluta heimshafanna."
Þessi ummæli er nokkuð skondin þegar skoðuð er færslan sem vísað er til og myndin sem í henni er, en myndin sýnir einmitt sérvalin gögn: Súlurit yfir hitastig í maí frá 1880-2014 eins og bent er á. Ekki eru skoðuð frávik yfir árið. Heildin er sem sagt ekki skoðuð, enda gengur sú færsla út á hitastig í maí. Því er pínulitið sérstakt að vísa í þessa færslu þegar bent er á að skoða eigi heildina. Eða er þetta ekki cherry picking?
NOAA er með athyglisverða síðu þar sem skoða má hitastig frá 1880. Slóðin er: http://www.ncdc.noaa.gov/cag/. Sjálfsagt er eitthvað búið að leiðrétta þessi gögn eins og flest önnur veðurfarsgögn fyrri ára, en hvað um það. Gögnin er þarna aðgengileg hverjum sem vill skoða og mynda sér sjálfstæða skoðun. Súluritin sem birtast sýna frávik frá meðalhitastigi 20.aldar.
"Við vitum ekki hvers vegna hafið hlýnar nú hraðar en lofthjúpurinn, en við vitum að þegar á heildina er litið, þá heldur hnattræn hlýnun áfram."
Á síðu NOAA er leitni frá 1998-2014 er gefin 0,04°C á áratug, og þar er leitni lofthita á landi gefin 0,1°C og leitni sjávarhita 0,02°C. Samt er því haldið fram hér að hafið hitni hraðar en lofthjúpurinn! Gott og vel þá.
En við vitum heldur ekki hvers vegna hnattræn hlýnun heldur ekki áfram í samræmi við aukningu CO2 af mannavöldum, og dómsdagsspáarútreikninga loftlagslíkana. Samt skal því haldið fram í umræðunni að losun manna á CO2 sé frumorsök hlýnunar, og eigi rætur að rekja aftur til ársins 1850 eða svo. Eða jafnvel lengra aftur. Líftími CO2 í andrúmslofti er talinn vera ca. 12 ár, svo ekki er fyrri tíma útblástur að drífa hlýnun sem menn telja sig finna nú. Og fyrri hluti síðustu aldar var að mestu kaldari en meðaltal aldarinnar.
Ekki skal hér deilt á þá staðreynd að síðustu 15 ár hafa sannarlega verið þau heitustu frá því mælingar hófust, og hiti hefur þar með hækkað frá fyrri tíð, en hitinn hefur hins vegar ekki verið að aukast í samræmi við aukningu á CO2 í andrúmsloftinu eins og spáð hafði verið. Það er það sem sumir lesendur hafa verið að benda á og fá bágt fyrir, eða útilokun frá athugasemdakerfum.
Erlingur (IP-tala skráð) 1.8.2014 kl. 15:18
Erlingur, hvaðan kemur þessi tala: "ca. 12 ár" varðandi líftíma CO2 í andrúmlofti?
Hefði nefnilega haldið að það sé mun lengri tími sbr.: „Líftími koltvísýrings í andrúmslofti er um 120 ár“ (http://www.mbl.is/greinasafn/grein/333213/)
Annars var það ekki bara maí sem setti nýtt hnattrænt hitamet, júní gerð það einnig samkvæmt NOAA. Þá ekki síst vegna mets fyrir yfirborðshita sjávar.:
"The combined average temperature over global land and ocean surfaces for June 2014 was the highest on record for the month, at 0.72°C (1.30°F) above the 20th century average of 15.5°C (59.9°F)."
"For the ocean, the June global sea surface temperature was 0.64°C (1.15°F) above the 20th century average of 16.4°C (61.5°F), the highest for June on record and the highest departure from average for any month."
http://www.ncdc.noaa.gov/sotc/global/2014/6
Sjáum svo til hvað júlí gerir á heimsvísu.
Emil Hannes Valgeirsson, 1.8.2014 kl. 17:50
Ég lít þannig á málið að nokkur alda hnattræn kólnum sé að ganga til baka
Hallgrímur Hrafn Gíslason, 1.8.2014 kl. 19:18
Reyndar einungis 5,4 ár félagar:
"A paper presented at the SEVENTEENTH SYMPOSIUM ON THERMOPHYSICAL PROPERTIES finds that the lifetime and residence time of man-made CO2 in the atmosphere are only about 5.4 years, far less than assumed by the IPCC. The paper corroborates prior work by Salby, Humlum et al, Frölicher et al, Cho et al, Calder et al, Francey etl, Ahlbeck, Pettersson, Spencer, Segalstad, and others which has demonstrated that man-made CO2 is not the primary driver of atmospheric CO2."
(http://thermosymposium.nist.gov/archive/symp17/)
Sannir vísindamenn vita að þeir vita ekki neitt - kjánarnir halda að einhver "vísindaleg samhygð" sé til :)
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 1.8.2014 kl. 21:07
Sæll Emil. Ég játa á mig misritun vegna líftíma CO2. 12 ára líftími á við metan.
En það virðist vera nokkuð á reiki hversu lengi CO2 staldrar við og þar ber vísindamönnum ekki saman. Greinilega takmarkaður skilningur á því ferli í vísindaheiminum. Ég hef lægst séð minnst á 5 ár, sem er náttúrulega mun styttra en 12 ár, en fyrstu skýrslur IPCC nefndu 50-200 ár, og aðrar rannsóknir fullyrða að hluti CO2 (um 20%) staldri við í 1000 ár eða lengur, jafnvel 7% í allt að 100.000 ár samkvæmt loftslagslíkani. Ansi mikil vikmörk þar.
Meira segja Skeptical science nefnir 5 ár sem líftíma CO2 í andrúmslofti, en heldur því fram í leiðinni að hverfi CO2 sameind úr andrúmsloftinu í hafið, losni önnur úr hafinu í staðinn því yfirborð hafsins sé orðið svo mettað að hafið taki ekki við meira CO2. Hér gleymist náttúrulega að minnast á að vatn geymir 50 sinnum meira CO2 en sama rúmmál af lofti. Greinilega smáatriði í huga Skeptical science. Ég held að það sé lítil hætta á að hafið taki ekki við meira CO2. En ef svo væri myndi það varla súrna meira, sem væri hið besta mál eða hvað? Þó ber líka að minnast á að heitara vatn geymir minna CO2. Er þá hafið hugsanlega að losa meira CO2 en við höldum? Hvaða áhrif hefur það á mettun CO2 í andrúmslofti?
Þetta misræmi í ætluðum líftíma CO2 í andrúmslofti, þessarar frumorsakar loftslagsbreytinga, sýnir enn og aftur hversu mikið ósamræmi er í niðurstöðum vísindamanna varðandi loftslag og áhrif CO2 þar á.
Erlingur (IP-tala skráð) 1.8.2014 kl. 21:26
Mér sýnist þetta meinta misræmi snúast annarsvegar um meðallíftíma einstakrar sameindar í lofthjúpnum og hinsvegar líftíma þess umframmagns CO2 sem bæst hefur við frá því útblástur mannsins hófst en þar er stór munur á.
CO2 í andrúmslofti endurnýjast stöðugt en þegar meira bætist við heldur en náttúran tekur til baka þá eykst magnið og það er það sem skiptir máli. Umframmagnið hverfur hinsvegar ekki á nokkrum árum þótt mannkynið hætti alveg sínum eldsneytisbruna. Það tæki líklega einhverjar aldir eða jafnvel þúsundir ára að ná fullu jafnvægi á ný.
Emil Hannes Valgeirsson, 1.8.2014 kl. 22:46
Af hverju er stór munur á líftíma náttúrulegrar CO2 sameindar annars vegar og CO2 sameindar frá úblæstri manna hins vegar? Bæði Tom Segalstad og Robert Essenhigh telja ekki að þar sé mikill munur á og líftími CO2 sé 5-15 ár eftir uppbyggingu sameindanna, og þar sé CO2 af mannavöldum aðeins snefilefni, sem hafi lítil sem engin áhrif. Þessi líftími er langt frá viðmiðum í skýrslum IPCC og hreinlega í öðru sólkerfi frá athugunum prófessors David Archer, sem tilgreindar eru í grein eftir hann sjálfan, um 100.00 ár.
"Það tæki líklega einhverjar aldir eða jafnvel þúsundir ára að ná fullu jafnvægi á ný."
Jújú Emil, en það er m.a. þetta sem vísindamönnum ber ekki saman um. Það er ekki vitað hver líftíminn er í raun og veru, og þess síður hver áhrifin eru. Framan af miðuðu skýrslur IPCC við 50-200 ára líftíma, aðrir telja líftíma vera um 30-95 ár, á meðan því er líka haldið fram að líftíminn sé 5-15 ár, eins og áður sagði. Ef líftíminn er mun styttri en loftlagslíkön nota, eru allar spár slíkra líkana um þróun loftslags og hitastigs væntanlega kolrangar.
En mér finnst líka svolítið athyglisvert að síðan byrjað var að fylgjast með loftslagi, og þar með hitastigi, með gerfihnöttum frá 1979 mælast mestu frávikin frá meðaltali 20.aldar. Eru gerfihnattamælingar svona miklu nákvæmari að hitastig mælist hærra nú en fyrir 1979? Eða er búið að eiga svo við söguleg frumgögn að þau eru illa marktæk lengur? Eða er bara heitara frá og með 1979? Veit alveg hvað svar ykkar verður við svona pælingum og óþarfi að nefna það. :-)
En til gamans get ég sagt að ég bjó í Phoenix, Arizona, við flugnám árið 1998 og það var ansi heitt skal ég segja. Heitasti dagur ársins á Deer Valley flugvelli, þaðan sem ég flaug frá, var 15. júlí, fór í 47°C. Það var ekki mikil afkastagetan á einshreyfils flugvél þann daginn.
En mesta hitastig í nýliðnum júlí á Sky harbour flugvelli í Phoenix, mældist 45,5°C þ.24.júlí, og rúmar 43 gráður Deer Valley flugvelli þ.22.júlí, sem er í norðurhluta Phoenix.
Hvert meðaltalið var á heimsvísu kemur væntanlega fljótlega í ljós.
Erlingur (IP-tala skráð) 1.8.2014 kl. 23:59
Á meðan prófessor Haraldur Sigurðsson hjakkar í sama farinu hefur engin mælanleg hnatthlýnun orðið í 17 ár og 10 mánuði, samkv. gervitunglamælingum:
https://wattsupwiththat.files.wordpress.com/2014/08/clip_image002.png
Sumarið hefur yfirgefið Íslendinga og Landsvirkjun á í vandræðum með raforkuframleiðslu vegna kulda og fannfergis á hálendinu og áfram messar prófessorinn.
Mörgæsirnar á Suður-heimskautinu skjálfa í mesta mælanlega kulda frá því að mælingar hófust og hafísútbreiðsla í norður-íshafinu er sú mesta frá aldamótum og Haraldur varar við óðahlýnuninni!
Heittrúarsinnar hafa verið hraktir úr einu víginu í annað í umræðum um meinta hnatthlýnun af manna völdum; frá meintri eyðingu jökla í Himalayafjöllum yfir í eyðingu Grænlandsjökuls, eyðingu jökla á Suður-heimskautinu, eyðingu hafís á Norður-heimskautinu - og nú síðast meinta kólnun úthafanna á 4000 metra dýpi!
Allt hefur þetta verið hrakið með vísindalegum/mælanlegum rökum en prófessor Haraldur Sigurðsson, Al Gore og John C(r)ook halda áfram að messa. Fer nú ekki að verða komið nóg?
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 3.8.2014 kl. 10:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.