Hornafjörður er á uppleið

 

Sjöberg ofl.Ég eignaðist mitt fyrsta GPS tæki árið 1990. Það var af Trimble gerð, kostaði yfir $4000 og var fyrsta kynslóð af GPS tækjum, sem komu á markaðinn. Ég beitti því fyrst við rannsóknir mínar á Krakatau eldfjalli í Indónesíu. Stóra byltingin með GPS tæki gerðist í Flóastríðinu, þegar Írak réðst inn í Kuwait og Bandaríkjaher svaraði með áras á  Írak.  GPS tæki voru þá komin í hendur flestra hermanna og svo strax í hendur almennings eftir það.  Nú er hægt að fá ágætis GPS tæki fyrir innan við $100 og notkun þessarar tækni hefur valdið byltingu í siglingum, ferðum og vísindum.

Höfn landrisJarðeðlisfræðingar á Íslandi hafa beitt GPS tækninni með ágætum árangri.  Á Íslandi var fyrst sett út GPS net umhverfis Vatnajökul árið 1991 og fylgst vel með því til 1999 af Lars Sjöberg og félögum.  Þeir mældu landris á bilinu 5 til 19 mm á ári umhverfis Vatnajökul yfir þetta tímabil.  Fyrsta mynd sýnir hluta af þeirra niðurstöðum. Lengdin á lóðréttu línunum er í hlutfalli við landris á þessu tímabili.  Aðrir telja að ris í grennd við Höfn í Hornafirði hafi verið um 16 til 18 mm á ári síðan 1950.  Á vef Veðurstofu Íslands er hægt að fylgjast með skorpuhreyfingum á Íslandi á rauntíma.  Þar eru til dæmis gögn um GPS mælingar í Höfn, eins og önnur mynd sýnir.  Landris er greinilega mikið og stöðugt. Fyrir tímabilið frá 1998 til 2013 er risið að meðaltali um 17,1 mm á ári, samkvæmt GPS í Höfn.  Síðasta myndin er eftir Þóru Árnadóttur og félaga. Hún sýnir lóðréttar hreyfingar á landinu öllu, fyrir tímabilið frá 1999 til 2004.  Mælikvarðinn sýnir hreyfinguna og það er augljóst að nær allt landið er á uppleið, en hreyfingin er langmest umhverfis Vatnajökul.  Á þessu svæði er hreyfingin allt að eða yfir 20 mm á ári.  Bráðnun Vatnajökuls og annara jökla hálendisins eru auðvitað skýringin á þessi risi landsins.  Það eru þó til undantekningar frá þessu lanÞóra Árnadóttirdrisi og er Öskjusvæðið ein slík, en þar hefur land sigið, eins og myndin sýnir.    Landris umhverfis Vatnajökul kann að hafa mest og alvarlegust áhrif á Hornafjarðarós, en hann er í dag talin einhver erfiðasta innsigling landsins.  Sandrifið Grynnslin liggur þvert um siglingaleiðina inn í ósinn og þar er dýpi aðeins um 6 til 7 metrar.  Þessi innsigling mun því versna stöðugt vegna bráðnunar Vatnajökuls og landrisins, sem því fylgir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sælir,

Ef ris hefur átt sér stað frá árinu 1950 getur bráðnun jökla

ekki skýrt rísið. Er ekki stór möttulstrókur þarna undir sem þrýstir landinu upp og undirbýr stórgos á borð við gosið í Laka.

Kveðja

Jóhann

Jóhann (IP-tala skráð) 26.6.2014 kl. 13:24

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Möttulstrókurinn undir Íslandi (ef hann er til...) er fyrirbæri, sem hefur verið undir Íslandi alla tíð. Það eru engar þekktar breytingar í möttlinum, sem geta skýrt landris. Hins vegar eru góð og skýr gögn um bráðnun jökla.

Haraldur Sigurðsson, 26.6.2014 kl. 13:43

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

""Þessi innsigling mun því versna stöðugt vegna bráðnunar Vatnajökuls og landrisins, sem því fylgir.""

Botnin í Hornafjarósi er sandur, dýpi ræðst því aðalega af straumum í ósnum.

Guðmundur Jónsson, 26.6.2014 kl. 22:28

4 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll Haraldur.

Ég hef gaman af því að fylgjast með breytingum, líkt og þú lýsir ágætlega, á landinu. Nú hef ég engan sérstakan áhuga á landrisi við Hornafjörð en staldra mjög við landsig við Öskju. Fyrir mér sem leikmanni þá er mér ekki vel við hluti, sem gengur ekki að útskýra almennilega og þá sérstaklega á svæðinu við Öskju.

Ekki veit ég alveg hvað það er en eflaust eru ferðalög og veiðar á Jökuldals- og Fljótsdalsheiði með tilheyrandi vikursköflum og eyðibýlum eitthvað að spila inn í.

Sindri Karl Sigurðsson, 26.6.2014 kl. 22:45

5 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Guðmundur bendir réttilega á að dýpi í Hornarfjarðarósi ræðst af straumnum. Þegar hinar miklu framkvæmdir við varnargarða var í undirbúningi snemma á 9. áratugnum kom fram í máli visindamanna að straumþunginn ræðst fyrst og fremst af flatarmáli fjarðarins fyrir innan ós.

Vatn gengur inn og út úr ósnum í takt við sjávarföll. Vatnsmagnið sem flæðir inn er í beinu samhengi við flatarmál vatnsyfirborðsins fyrir innan ósinn á flóði. Eftir því sem land rís þarna mun flatarmál fjarðarins minnka, en hvort það verður það mikið að það stefni ósnum í hættu er eflaust erfitt að meta.

Brynjólfur Þorvarðsson, 27.6.2014 kl. 05:18

6 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Rétt er það, að það er sandbotn í innsiglingu Hornafjarðar, en hvað er undir sandinum? Auðvitað berg.

Við Hornafjarðarós er Hvanney og Borgeyjarboði er skammt undan. Það er nóg af klettum hér, sem benda á að grunnt er á berggrunn.  Hér er ástandið breytilegt, en beytingin er öll í eina átt: landris.  Það mun hafa varanleg áhrif á innsiglinguna og einnig á vatnsmagn í firðinum fyrir innan.

Haraldur Sigurðsson, 27.6.2014 kl. 14:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband