Jökulgarðurinn á Látragrunni segir merka sögu
20.6.2014 | 16:44
Árið 1975 uppgötvaði Þórdís Ólafsdóttir stóran jökulgarð á Látragrunni. Garðurinn er um 120 km út af Bjargtöngum, en liggur í boga, sem umlýkur mynni Breiðafjarðar, eins og myndin sýnir (bláa svæðið). Ekki hefur garðurinn fengið formlegt nafn, en hefur ýmist verið kallaður Kattarhryggur eða brjálaði hryggurinn. Sjómenn þekkja hann vel, enda er hryggurinn eitt aðal hrygningarsvæði steinbítsins. Hryggurinn hefur myndast af risastórum skriðjökli, sem fyllti allan Breiðafjörð og skreið út til vesturs. Til að hlaða upp slíkum hrygg, þá þarf jökullinn að vera botnfastur. Kattarhryggur er um 100 km á lengd og nær allt suður af Kolluál. Þar endar hann og er það sennilega vísbending um, að þar hafi skriðjökullinn flotið í sjó, enda mikið dýpi hér. Hryggurinn er um 2030 m hár og 800-1000 m breiður. Dýpi umhverfis hrygginn er um 200 m að norðan verðu en dýpkar til suðurs í 250 m skammt frá Kolluál. Myndin sýnir þversnið af garðinum, sem er brattari að vestan en að austan.
Látragrunn og reyndar nær allt landgrunnið hefur verið myndað á einn hátt eða annan af skriði jökla til hafsins á ísöld. Garðurinn er ein skýrasta sönnun um það. En hann minnir okkur vel á hvað ísaldarjökullinn hefur verið duglegur að grafa út landið og móta það landslag, sem við köllum firði í dag. Sjálfsagt hafa verið stór fjöll og sennilega samfelld háslétta fyrir ísöld milli Vestfjarða og Snæfellsness. Stöðug hreyfing skriðjökulsins og útgröftur hans hefur fært ógrynni efnis út á brún landgrunns, þar sem því var sturtað niður í hafdjúpin. Þessi tröllvaxna jarðýta hefur unnið hægt og stöðugt, en gleymum því ekki, að hún hafði þrjár milljónir ára (alla ísöldina) til að klára verkið og moka út Breiðafjörð.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hafið, Jarðsköpun, Snæfellsnes | Facebook
Athugasemdir
Athyglisvert og takk fyrir.
Ætli það sé vitað hvað kvað jökull sem þrýstir botnlægum ís svona langt út hafi þurft að vera þykkur? Væntan lega hefur ís á þessum tíma verið verulega kaldari en á nútíma hér á Íslandi.
Hrólfur Þ Hraundal, 20.6.2014 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.