Golfstraumurinn hægir á sér?
18.2.2013 | 16:00
Ég ólst upp í þeirri trú, að Golfstraumurinn væri lífæð íslensku þjóðarinnar. Hann færir okkur yl úr suðri, rakt loft og tiltölulega milt loftslag og gerir landið byggilegt hér á nyrstu mörkum norrænnar byggðar. Hnattræn hlýnun sem nú er í gangi ætti að gera loftslag enn mildara, en getur svo farið að hnattræn hlýnun dragi úr Golfstraumnum og orsaki staðbundna kólnun á norðurslóðum í kjölfarið? Hingað til hafa flestir ekki tekið þennan möguleika alvarlega, en þetta er mikið alvörumál, sem þarf að kanna frekar.
Nú eru að koma í ljós ný gögn, sem benda til þess að Golfstraumurinn sé að hægja á sér. Þessar upplýsingar koma frá austur strönd Bandaríkjanna og hafa valdið mikilli umræðu, þar sem hækkandi sjávarborð kann að vera bein afleiðing af hægari Golfstraumi. Málið er svo viðkvæmt, að efri deildin í Norður Karólínu fylki reyndi að banna vísindamönnum að birta gögn um hækkun sjávarborðs. Á sama tíma hafa tveir íhaldssamir sjóðir í Bandaríkjunum, Donors Trust og Donors Capital Fund, veitt $120 milljónir til áróðurshópa sem afneita hnattrænni hlýnun. Það er ekki einungis Norður Karólína, sem verður fyrir áhrifum, heldur hækkar sjávarborð nú þrisvar sinnum hraðar meðfram allri austurströnd Bandaríkjanna heldur en meðal hækkun í heimshöfunum. Flóðin miklu í New York og New Jersey, sem fylgdu fellibylnum Sandy í október 2012 eru tengd þessari hækkun.
En hvernig tengist Golfstrumurinn breytingum sjávarborðs meðfram austurstönd Ameríku? Í sterkum straum er sjávarborð hærra í miðjum straumnum en á jöðrunum. Þannig er miðjan á Golfstraumnum meir en meter hærri en sjávarborð við austurströnd Bandaríkjanna. Þetta sést til dæmis á fyrstu myndinni. En takið eftir að árið 2000 var sjávarborð lægra og straumurinn nær landi og sterkari, en árið 2011 var sjavarborð við ströndina hærra og straumurinn veikari. Hið sama er sýnt á skematískan hátt á næstu mynd. Þegar straumurinn hægir á sér þá rís sjávarborð við ströndina.
En það er ekki aðeins sjávarborð, sem er mælikvarði á straumhraðann, heldur er rennsli Golfstraumsins undan ströndum Flórida mælt á ýmsan hátt. Ein aðferðin er að fylgjast með breytingum á rafstraum í rafmagnsköplum á hafsbotni. Þeir liggja milli Bandaríkjanna og Bahamaeyja.
Til að mæla Golfstraumin og aðra strauma hafsins beita haffræðingar einingunni sverdrup. Mælieiningin sverdrup (Sv) er ein milljón rúmmetrar á sekúndu (0.001 km3/s), en þetta er sennilega stærsta mælieining fyrir rúmmál sem vísindin beita. Hingað til hefur Golfstraumurinn verið að meðaltali um 32 Sv undan ströndum Flórida, en nýlega hefur dregið úr straumnum um 36%, niður í um 20 Sv í nóvember 2012. Þetta er ekki einstakt fyrirbæri og gerðist til dæmis einnig árið 1994.
Þessar mælingar á breytingum á rennsli og magni Golfstraumsins eru gerðar undan austur strönd Bandaríkjanna. Hvað gerist norðar, í Norður Atlantshafsstraumnum, sem umlykur Ísland? Hvaða áhrif hefur það á Ísland? Hvað er það sem veldur þessum breytingum á Golfstraumnum? Sumir segja að það kunni að vera vegna þess að djúpi og kaldi suður straumurinn meðfram hafsbotni milli Íslands og Grænlands sé að hægja á sér.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hafið, Loftslag | Breytt s.d. kl. 16:04 | Facebook
Athugasemdir
Fyrir 15 árum notaði ég danskan þátt um hægingu Golfstraumsins sem uppistöðu í sjónvarpsþætti og nefndi þáttinn "Hið kalda hjarta hafanna".
Hann fjallaði um hættuna á því að hringekjustraumi sem liggur eins og ormur frá Florida norður fyrir Ísland suður um Atlantshaf og austur um Indlandshaf og gæti hægt á sér að jafnvel næstum því stöðvast vegna nýs samspils fersks vatns og salts nyrst í Atlantshafi.
Þá gæti komið upp sú mótsögn að hnattræn hlýnun ylli kólnun á veðurfari á Norður-Atlantshafi sem gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland, Bretlandseyjar og Skandinavíu.
Hugsanlega sá forseti Íslands þennan þátt, því að í næsta nýjársávarpi sínu minntist hann á þetta. En daginn áður hafði þáverandi forsætisráðherra gert lítið úr þessu og sagt: "Skrattinn er leiðinlegt veggskraut".
Ómar Ragnarsson, 18.2.2013 kl. 19:14
(Athugasemd með auglýsingatengli fjarlægð af umsjónarmönnum.)
Maria Ýr (IP-tala skráð) 19.2.2013 kl. 03:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.