Áhrif hnattrænnar hlýnunar á fiskveiðar
12.2.2013 | 20:39
Hvaða áhrif mun hnattræn hlýnun hafa á fiskveiðar í norðri? Þetta er stór spurning fyrir íslendinga, en fátt er um svör. Nýlega var haldin ráðstefna í Tromsö, sem var helguð þessu mikla vandamáli, en um fimmti partur af öllum fiskafla heims kemur frá norðurslóðum.
Það eru margar hliðar á þessu vandamáli. Hnattræn hlýnun orsakar mildara loftslag, hitar sjóinn, kann að hafa áhrif á hafstrauma og mun minnka súrefnismagn í hafinu. Hnattræn hlýnun er töluvert meiri á norðurslóðum en annarsstaðar á jörðu. Árin 1951 til 1980 hækkaði til dæmis meðal hiti jarðar um 0,5 stig en 2 stig á norðurheimskautssvæðinu. Það sem við sjáum strax gerast í dag er að hafís dregst saman ár frá ári og hnattræn hlýnun er að svifta íshellunni ofan af Íshafinu. Þá kemur fram í dagsljósið mikið nýtt hafsvæði. Er það vænlegt til fiskveiða? Margir halda að svo sé ekki. Íshafið er mjög djúpt, um 4000 metrar víða, og virðist vera dautt. Lítið um svif og átu og lítill fiskur, helst pólarþorskur.
Hlýnunin hefur mikilvæg áhrif á efnafræði hafsins. Þegar sjór hlýnar, þá minnkar súrefnismagn hafsins, eins og fyrsta myndin sýnir. Sama er að segja um koltvíoxíð, en uppleysanleiki þess minnkar í heitari sjó. Báðir þessir þættir geta haft neikvæð áhrif á lífríkið í hafinu. En málið er ekki alveg svo einfalt, því að hækkandi magn af koltvíoxíð í andrúmslofti getur orsakað hærra magn í hafinu einnig. Það er talið að hafið taki við um fjórða parti af öllum útblæstri okkar mannkynsins af koltvíoxíði og þess vegna er mjög mikilvægt að rannsaka örlög koltvíoxíðs í hafinu. Vaxandi koltvíoxíð gerir hafið súrara og það hefur áhrif á lífríkið, einkum á skeldýr þar sem skelin getur bókstaflega leyst upp í súrari sjó. En sjórinn virðist nú taka við stöðugt minnkandi magni af koltvíoxíði, eins og bláa línan á senni myndinni sýnir.
Hvaða áhrif hafa þessar breytingar á fiskistofna? William W. L. Cheung og félagar hafa gert líkön af þróun um 600 fisktegunda í hafinu við hlýnandi loftslag, þar sem sjávarhiti, minnkandi súrefni og breytingar á koldíoxíð eru teknar til greina. Þeir telja að árið 2050 muni stærð einstaklinga í flestum fisktegundum hafa minnkað um 14 til 24% miðað við árið 2000. Það er minnkandi súrefnisinnihald hafsins sem hefur hér sennilega mest áhrif.
Samt sem áður telja Cheung og félagar að fiskaflinn í norðurhöfum muni vaxa í framtíðinni, eins og sýnt er á síðustu myndinni. Þar er gert ráð fyrir meiri afla á svæðum sem nú eru undir hafís, en það verður smærri fiskur. Þeir spá um 10 til 15% meiri afla fyrir Ísland næstu árin vegna hnattrænnar hlúynunar. Stærra veiðisvæði, smærri fiskar en ef til vill fleiri. Annað sem veldur áhyggjum er að því er spáð, að fisktegundir muni flytja sig norðar í leit að kaldari sjó, og jafnvel um 30 til 40 km norðar á hverjum áratug. Það mun því gjörbreyta fiskstofnunum á Íslandsmiðum, ef sú spá rætist.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hafið, Loftslag | Facebook
Athugasemdir
Hafið er bara of stór lífmassi til að hægt sé að setja hann í eitthvert reikni-líkan
= það eru of margir óvissu þættir sem geta haft áhrif á allar niðurstöður frá degi til dags.
Jón Þórhallsson, 13.2.2013 kl. 14:19
Ég er alls ekki jafn svartsýnn og Jón á notagildi líkana. Við höfum líkön af jörðinni, af sólkerfinu og ýmsum fyrirbærum náttúrunnar, sem virðast virka nokkuð vel. Nú er fylgst með öllum höfum heimsins úr gervihnöttum daglega, og ýmsar mælingar gera kleift að mynda líkön, sem vit er í. Ekki afgreiða mikilvægt mál með afneitun.
Haraldur Sigurðsson, 13.2.2013 kl. 17:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.