Kolmónoxíð í eldgosum
8.2.2013 | 15:16
Kolmónoxíð gas er eitrað. Það berst sem útblástur úr bifreiðum og öðrum vélum, sem brenna benzíni eða olíu og einnig við bruna á kolum. Kolmónoxíð (CO) var komið í hættulega hátt magn við sumar aðalumferðaæðar í Reykjavík í lok tuttugustu aldar, en þá komu lög og reglugerðir varðandi lögleiðingu hvarfakúta á bíla eftir 1995, og síðan hefur dregið verulega úr kolmónoxíð mengun. Heilsuverndarmörk á kolmónoxíð eru nú 10 mg/m3. Hátt magn af kolmónóxíði brýtur niður hemóglóbín blóðsins og veldur dauða.
Kolmónoxíð berst einnig upp á yfirborð jarðar í eldgosum. Það er töluvert magn af bæði CO2 og CO í eldfjallagasi og sennilega er miklu meira af CO en menn gerður sér grein fyrir. Hættulegt CO breytist hratt í tiltölulega meinlaust CO2 í andrúmsloftinu við oxun.
Nú hefur CO í eldgosum verið mælt í fyrsta sinn úr gervihnetti. Það gerðu Martínez-Alonso og félagar í sprengigosunum í Eyjafjallajökli árið 2010 og Grímsvötnum árið 2011. Þeir beittu Terra gervihnettinum frá NASA við þessar mælingar.
Fyrsta myndin sýnir dreifina af ösku og gasi sem barst suður frá Íslandi í gosinu í Eyjafjallajökli hinn 11. maí 2010. Gosmökkurinn er greinilegt brúnt strik, sem stefnir til suðurs. Önnur myndin sýnir hins vegar mælingar á kolmónoxíði frá gervihnetti hinn 19. apríl 2010. Gulu og rauðu svæðin eru hæstu gildin af CO í mekkinum. Enda þótt kolmónoxíð sé sjáanlegt og mælanlegt í gosmekkinum, þá er það samt langt undir hættumörkum. En niðurstöðurnar sýna hvernig tæknin er að valda stórkostlegri byltingu í eftirliti með eldgosum og áhrifum þeirra.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eldfjallagas, Eldgos, Eyjafjallajökull | Facebook
Athugasemdir
Við erum alin upp við heilbrigðan ótta við CO en á sama tíma höfum við lengst af umgengist H2S sem "saklausa hveralykt".
-Það góða við lyktina er að við verðum vör við H2S í litlu magni á meðan CO er lyktarlaust.
Brennisteinsvetnið er þó í raun eitraðra en kolmónoxíð, það hvarfast hraðar við hemóglóbín en CO og er þar að auki virkt taugaeitur sem CO er ekki.
Margföldun á losun H2S í Bjarnarflagi, -í 3 Km fjarlægð frá grunnskóla!, er ein groddalegasta framkvæmd sem áætuð hefur verið á Íslandi síðan hætt var við að veita Skjálfandafljóti í Mývatn.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 8.2.2013 kl. 16:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.