Sjórinn hitnar
23.1.2013 | 10:40
Það eru meir en eitt hundrað ár síðan menn fóru að mæla hita heimshafanna. Nú hafa þeir
Gouretski og félagar tekið saman öll gögnin og spyrja: er hafið að hitna? Hafið er lengur að bregðast við loftslagsbreytingum en loftið, en hafið er að sjálfsögðu um eitt þúsund sinnum stærri hitageymir en andrúmsloft jarðar. Myndin hér fyrir ofan sýnir gögnin um meðal hitafar allra heimshafanna. Rauðu línurnar eru fyrir meðalhita við yfirborð sjávar (SST), þær bláu er hiti hafsins á 20 metra dýpi. Græna línan á neðri hluta myndarinnar sýnir feril fyrir hita hafsins á 400 metra dýpi. Þar kemur einnig fram hlýnun, sem sýnir að hlýnunin er ekki einungis yfirborðsfyrirbæri. Niðurstaðan er sú, að heimshöfin hafa hitnað að meðaltali um 0,5 til 0,6 oC á einni öld, frá 1900 til 2000.
Breytingar á hita heimshafanna hafa fjölmargar afleiðingar. Hér eru nokkur dæmi. Sjórinn þenst út við að hitna og sjávarborð hækkar af þeim sökum um heim allan. Áhrifin á lífríki eru mjög mikilvæg en að mörgu leyti óþekkt. Við þekkjum vel í hafinu umhverfis Ísland að sumar fisktegundir færa sig um set þegar sjór hitnar, en aðrar koma í staðinn. Hlýnunin hefur einnig bein áhrif á loftslag vegna eðliseinkenna koltvíoxíðs. Uppleysanleiki koltvíoxíðs í hafinu minnkar nefnilega þegar sjórinn hitnar. Þá streymir CO2 gas upp úr sjónum og vex í andrúmsloftinu, sem eykur þannig hlýnun jarðar. Þannig fer á stað jákvæð hringrás (positive feed-back) sem eykur árhrif hlýnunar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hafið, Loftslag | Facebook
Athugasemdir
Samkvæmt þessu sýnist mér það sé hafið og einhver atburðarás þar í djúpunum sem ræður hitasveiflum í lofthjúpnum, þ.e. loftslagsbreytingum til hlýnunar eða kólnunar eftir atvikum.
Þórhallur Birgir Jósepsson, 23.1.2013 kl. 13:21
Nei, ég held að það sé öfugt. Hafið er að hitna smátt og smátt, sem viðbrögð við hnattrænni hlýnun í andrúmslofti.
Haraldur Sigurðsson, 23.1.2013 kl. 14:12
Mér sýnist erfitt að koma því heim og saman við þá (takmörkuðu) kunnáttu sem ég hef í eðlisfræði. Hafið er jú þúsund sinnum stærri hitageymir en andrúmsloftið. Vatn leiðir hita illa, þó saltvatn leiði eitthvað skár. Þótt straumar blandi það eitthvað, er erfitt að sjá fyrir sér hitaleiðni niður á meira dýpi en öldufars og sólar nýtur.
Bráðnun íss hefur áhrif, væntanlega kælir ísvatnið fremur en hitar. Sú er amk forsenda kenningarinnar um "færibandið" mikla í hafinu.
Í djúpunum eru stöðug og mörg eldgos og hveravirkni, hefur það ekki áhrif? Og ýmis önnur efnavirkni?
Bottom line: Erfitt að sjá fyrir sér að einn þúsundasti hafi svona stór áhrif á hina 999 hlutana.
Þess vegna segi ég eins og National Geographic í sjálfskynningarauglýsingu sjónvarpsstöðvar sinnar: Question everything!
Þórhallur Birgir Jósepsson, 23.1.2013 kl. 14:23
Vatn leiðir hita mjög vel
Höskuldur Búi Jónsson, 23.1.2013 kl. 15:16
Höfin hitna ÞRÁTT FYRIR aukna bráðnun íss.
En annars, - niður á hvaða dýpi ná mælingarnar?
Og svo, muni ég rétt, - er massi lofthjúpsins u.þ.b. á við fyrstu 10 metra heimshafanna.
Jón Logi (IP-tala skráð) 23.1.2013 kl. 18:44
Hitamælingar ná alveg nipur á botn heimshafanna og sýna að hitinn streymir ekki upp frá botninum. Kaldasti sjórinn er með botninum. Eldvirkni á úthafshryggjum heimshafanna hafa mjög lítil og algjörlega staðbundin áhrif. Það er klárt og óumdelit að hafið er að hitna vegna hita sem kemur úr lofthjúp jarðar og auðvitað frá sólu.
Haraldur Sigurðsson, 23.1.2013 kl. 21:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.