Skortur á Helíum Gasi
22.12.2012 | 11:57
Helíum (He) er annað algengasta frumefnið í veröldinni (hitt er vetni, H). Við þekkjum öll helíum, sem gasið í partý-blöðrum, enda er það léttasta frumefnið. Nú er verð á helíum gasi að rjúka upp úr öllu valdi. Gasið var uppgötvað árið 1814, þegar þýski eðlisfræðingurinn Joseph Fraunhofer fann helíum í litrófi sólarinnar. Helíum kom fyrst á markaðinn árið 1928, og varð vinsælt snemma á tuttugustu öldinni, sem staðgengill fyrir vetni í loftbelgjum og mönnuðum loftförum. Megin kostur helíums fram fyrir vetni er að helíum er alls ekki eldfimt og gengur reyndar ekki í nein efnasambönd. Meiri parturinn af helíum framleiðslu jarðar er í Amarillo í Texas. Þar er gasið unnið úr borholum með jarðgasi, en metan jarðgasið hér í Texas inniheldur allt að 7% helíum. Línuritið sýnir að verð á helíum er sífellt að hækka og spáð er mikilli hækkun næstu mánuðina. Reyndar er ekkert vit að vera að nota þetta dýrmæta frumefni til að fylla partýblöðrur, sem rísa til himins. Þar springur blaðran og helíum er svo létt að það streymir út í geiminn. Þannig minnkar helíumforði jarðarinnar smátt og smátt. Nafnið Helíum er dregið af gríska heitinu á sólinni: helios. Enda er helíum um 27% af sólinni sjálfri og um 23% af sólkerfinu er helíum. Það er reyndar dálítið furðulegt að annað algengasta efnið í veröldinni skuli vera svona dýrt og stöðugt hækka í verði. Djúpt í jörðu myndast helíum vegna geislavirkni á frumefnum í möttli og jarðskorpu, einkum geislavirku þóríum og úran. Framleiðslan heldur áfram, en birgðir minnka stöðugt. Margir vísindamenn vilja setja bann á partý-blöðrur sem eru fylltar með helíum. Gasið er ómissandi í heilsugeiranum og í iðnaði og allt of vermætt til að kasta því út í geiminn. Á Íslandi kostar ein áfylling á 10 lítra helíumhylki nú kr. 18457,- Í Bandaríkjunum kostar nú partý-blaðra fyllt með helíum $5.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðefni, Plánetur | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir að tala um helíum, en ekki helín.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 22.12.2012 kl. 13:15
Mjög athyglisverður pistill. Þarna koma fram atriði sem maður hefur ekki velt fyrir sér.
En talandi um orðalag þá finnst mér eðlilegra að skrifa Helíumgas í einu orði.
Emil Hannes Valgeirsson, 22.12.2012 kl. 15:23
Er ekki helíumgas í einu orði? Af hverju erunflestir íslendingarnhættir að gera greinarmun á samsettum og ósamsettum orðum? Vírus?
Jón Steinar Ragnarsson, 22.12.2012 kl. 17:15
Oft kemur þessi mikli listamaður og stærðfræðingur (var hann það ekki) upp í hugann þegar fjallað er um frumefnin.
http://youtu.be/DYW50F42ss8
Gleðileg jól
Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 22.12.2012 kl. 17:29
Jólaguðspjall innvígðra heimsendaspámanna og hnattsteikingartrúboða virðist vera hinn meinti ógnvænlegi skortur á helium - öðru algengasta frumefni í veröldinni!
Þessi meinti ógnvænlegi skortur á sér þó ofur einfaldar skýringar þegar nánar er gáð. Einungis 15 uppsprettur helíum eru á jörðinni, þar af 10 í USA. Framleiðslufyrirtæki helíum eru einungis sex (6) í heiminum. Árið 2006 komu upp framleiðsluvandamál í USA og boltinn fór að rúlla.
Þegar á árinu 2008 var búist við stigvaxandi verðhækkunum á helíum vegna ofannefndra framleiðsluvandamála og ekki var búist við að markaðurinn rétti úr kútnum fyrr en upp úr 2015.
Samkvæmt skýrslu Bandaríkjastjórnar um jarðefnanotkun er núverandi heimsnotkun á helíum u.þ.b. 180 milljón rúmmetrar á ári. Áætlað er að heildarbirgðir helíums (þekktar) séu u.þ.b. 50 billjón rúmmetrar, sem duga til 300 ára m.v. núverandi ársnotkun(!)
Gleðileg helíumjól!
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 22.12.2012 kl. 20:28
Dugar í 300 ár. Sem betur fóru menn ekki að bruðla svona með Helíumið árið 1700 því þá væri það að klárast í dag. Þetta er bara eitt dæmið um að sífellt er verið að ganga á óendurnýjanlegar auðlindir jarðar. En það er auðvitað vandamál annarra en okkar í dag.
Emil Hannes Valgeirsson, 22.12.2012 kl. 21:02
Sérfræðingar virðast telja að það sé að verða skortur á helíumgasi (ekki að ég þekki þetta sérstaklega) sjá t.d. Ban helium balloons this Christmas, academic warns - Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
En 30-50 ár eða jafnvel einhver 300 ár í besta falli - ekki virðist þetta vera mjög sjálfbær auðlind hvað sem öðru líður.
Sveinn Atli Gunnarsson, 23.12.2012 kl. 02:26
áhyggjuefni fyrir okkur kafaranna...ein köfun nú þegar farin að kosta tugþúsundir!!
Gisli A .Gudm (IP-tala skráð) 23.12.2012 kl. 08:50
Hvers vegna er ekki notað vetni í léttblöðrur sem er jú algangasta frumefnið?
Og eru engar helíumuppsprettur Er ekkert helíum í okkar möttulstrók sem kraumar undir okkar ástkæra?
KRISTJÁN SVEINBJÖRNSSON, 24.12.2012 kl. 21:36
Er ekki vetni léttasta frumefnið og helíum þar á eftir?
Helgi (IP-tala skráð) 30.12.2012 kl. 22:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.