Skjálftar í Eyjafjarðarál

EyjafjarðarállÞað er mjög stórt misgengi rétt undan norðurlandi, sem er kennt við Húsavík og Flatey.  Nú kemur það fram í fréttum vegna mikilla jarðskjálfta þar í nótt og einnig í september mánuði.  Misgengið liggur  frá Húsavík, rétt milli Flateyjar og lands, og inn í Eyjafjarðarál og inn á landgrunnið fyrir norðan Tröllaskaga, eins og fyrsta mynd sýnir.  Á henni eru sýndir skjálftarnir sem urðu í hrynunni frá 14. til 21. september í ár, en myndin er frá Veðurstofu Íslands.  Mér virðist að hrinan sem nú stendur yfir sé á svipuðum slóðum, en þó nokkuð sunnar.  Hreyfingar á þessu misgengi eru þannig að landgrunnið norðan misgengisins færist til suðausturs, miðað við jarðskopruna fyrir sunnan misgengið, eins og örvarnar á fyrstu mynd sýna.  EyjafjarðarállHér erum við þá að fjalla um sniðmisgengi.  Vestur endi sniðmisgengisins virðist enda í vestur brún Eyjafjarðaráls.  Skjálftarnir eru ef til vill tengdir gliðnun Eyjafjarðaráls, eins og hinar örvarnar á fyrstu myndinni sýna.  Þessi áll er stórmerkilegt fyrirbæri. Önnur myndin (frá Orkustofnun) sýnir að það er mikill búnki af setlögum í Eyjafjarðarál.  Svörtu brotalínurnar á myndinni sýna að setlögin í Eyjafjarðarál erum 2 til 3 km á þykkt. Állinn er mikill sigdalur, sem hefur verið virkur í nokkrar milljónir ára, og hér hefur dalurinn sigið stöðugt og set safnast hér fyrir. Setið er það þykkt, að í því gætu verið gas eða olíumyndanir, ef hitastigullinn er ekki of hár til að leyfa olíu að þrífast.  Sigið gerist hér á flekamótum, en það eru flekamót án eldvirkni.  Þeyndar kemur eldvirknin fram nokkuð norðar, þar sem Eyjafjarðaráll grynnist og kemur í ljós sem eldeyjan Kolbeinsey. Þar mun hafa síðast gosið árið 1372. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Þetta er líklega upphafið af nýju virknistímabili á þessu svæði. Enda er langt síðan þarna varð jarðskjálftavirkni með svona miklum krafti. Þá varð síðasti stóri jarðskjálfti á aðliggjandi sniðgengi árið 1934 í Dalvíkurskjálftanum. Síðan varð jarðskjálfti upp á Mw7.0 fyrir utan Skagarfjörð. 

Þarna hefur verið minni jarðskjálftahrinur undanfarna áratugi. Það jafngildir þó ekki því þarna hafi átt sér mikil jarðskjálftavirkni þegar umræddar jarðskjáftahrinur hafa átt sér stað.

Það sem ég tel líklegast sé að gerast núna er að þarna er farin af stað tímabil stórra jarðskjálftahrina, með hléum líklega. Þarna má því búast við að verði jarðskjálftar alveg upp á 5 til 6.5, hugsanlega upp á Mw7.0 (þó ólíklegast en ekki útilokað).

Hérna er síðan greinargerð Veðurstofu Íslands um þetta svæði.

Jón Frímann Jónsson, 21.10.2012 kl. 14:23

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég vildi að ég væri svo klár eða kaldur að geta spáð um framtíð í jarðskjálftamálum á þessu svæði. Við sjáum nú til hvað gerist.  Mér finnst þó líklegar að skjálftahrynan í september sé upphafið, frekar en þessir októberskjálftar.

Haraldur Sigurðsson, 21.10.2012 kl. 14:34

3 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Ég ætla nú ekki að spá nákvæmlega fyrir um atburðina þarna. Þetta er þó líklegast það sem er að gerast á þessu svæði núna. Hvert framhaldið síðan verður á eftir að koma í ljós.

Líklega er upptök þessar atburðarrásar að finna eitthvað fyrir jarðskjálftana í September. Þó svo að það sé augljósasta upphafið eins og þú bendir á. Ég þarf að skoða betur virkni síðustu vikna til þess að átta mig betur á þessu. Svona eftir að núverandi jarðskjálftavirkni hættir eða dregur úr henni.

Þessir jarðskjálftar koma vel fram á mælanetinu mínu.

Jón Frímann Jónsson, 21.10.2012 kl. 15:08

4 identicon

Jón Frímann - hefurðu nokkuð spáð í söguna varðandi hrinur á þessum misgengjum fyrir Norðurlandi? Einhver var að tala um x áratuga fasa í þessu, en sá vildi meina að þessi sprungubelti væru mis virk og fasarnir þar af leiðandi mislangir. Þori ekki að fara nánar út í þetta vegna þekkingarleysis míns. Þessi einstaklingur benti mér að "hlykkinn" á Eyjafirði og um Fljótin til NV og til ASA um Dalsmynni o.s.frv., þetta væri syðsta beltið nú um stundir, svo komi önnur norðar.

Forvitinn (IP-tala skráð) 21.10.2012 kl. 20:25

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Húsavíkur-Flateyjar misgengið er syðsta misgengið í Tjörnes brotabeltinu. Það eru önnu og samhlíða misgengi norðar, sem eru virk öðru hvoru, eins og oft kemur fram í skjálftavikrni rétt hjá Grímsey. Það er ekkert sem bendir til að það sé einhver viss tíðni í þessum hrinum, og því engar ástæður til að reyna að spá um síka atburði í framtíðinni.

Haraldur Sigurðsson, 21.10.2012 kl. 21:54

6 identicon

Vita menn nákvæma staðsetningu á gosinu 1372?

jón (IP-tala skráð) 24.10.2012 kl. 19:59

7 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Nei, þar er ágizkun að staðsetja það í Kolbeinsey, en líkurnar eru miklar að svo sé.

Haraldur Sigurðsson, 24.10.2012 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband