Hvers vegna eru stærstu eldfjöll sólkerfisins á Mars?

Mars og jörðNú er amerískur jeppi á ferðinni á yfirborði plánetunnar Mars og hann er með nægilegt eldsneyti innanborðs til að keyra og kanna í fjórtán ár. Við munum því fá mikið flóð af jarðfræðilegum (marsfræðilegum?) upplýsingum um þessa merkilegu plánetu næstu árin.  Ég bíð spenntur eftir því að þeir senda jeppann upp á Olympus Mons, sem er hæsta og stærsta eldfjall í sólkerfi okkar, um 22 km á hæð.  Já, og flatarmál eldfjallsins er meir en þrisvar sinnum flatarmál Íslands.  Hvernig getur þessi litla pláneta myndað stærstu  og hæstu eldfjöll sólkerfisins?  Mars er að mörgu leyti  allt öðru vísi en jörðin, eins og fyrsta myndin sýnir. Hér er Mars til vinstri og jörðin til hægri.   Ekki er Mars öðru vísi einungis á yfirborði, heldur einnig að innri gerð.  Eðlisþyngd rauðu plánetunnar er aðeins 3,94 g/cm3,  en jörðin er með miklu hærri eðlisþyngd:  5.52 g/cm3.  En Mars er miklu minni en jörðin. Skorpuþykkt MarsÞannig er þvermál Mars aðeins helmingur af þvermáli jarðar og Mars er því aðeins með um 10% af massa jarðar. Lægri eðlisþyngd bendir til að kjarninn í Mars sé annað hvort lítill eða innihaldi lítið járn.  Veikt segulsvið plánetunnar bendir einnig til að kjarninn sé ekki lengur fljótandi og því sennilega orðinn fremur kaldur.  

Flekahreyfingar jarðskorpunnar er eitt af höfuðeinkennum jarðarinnar.  Hins vegar eru flekahreyfingar litlar eða nær óþekktar á Mars.  Ef til vill er risastóra gilið Valles Marineris á Mars myndað við flekahreyfingar, en umdeilt.  Það má skifta plánetunni í tvennt.  Suður helmingurinn hefur helmingi þykkari skorpu (80 km, rauðu svæðin á kortinu fyrir ofan) og meira hálendi eins og myndin fyrir ofan sýnir, en norður helmingurinn er með tiltölulega þunna skorpu (ca. 30 til 40 km, bláu svæðin).  Olympus MonsSkopran á Mars er að mestu gerð úr basalti og hefur eldvirkni því verið mjög mikilvæg á plánetunni áður fyrr.   Það er vísbending um að einhver eldgos hafi orðið síðustu milljón árin, en eldvirkni er nú mjög lítil.   Þar sem flekahreyfingar eru ekki til staðar, þá hafa eldgosin verið mjög staðbundin og mjög há eldfjöll hlaðist upp, eins og Olympus Mons.  Ef til vill eru þá tveir þættir, sem gera Mars kleift að mynda hæstu eldfjöll sólkerfisins:  óvenju þykk skorpa og staðbundin eldvirkni. Talið er, að mikið hafi dregið úr eldgosum á Mars en þó eru mjög ung hraun sjáanleg. Aftur beinist athyglin að Olymus Mons fjallinu, þar sem  askjan í toppnum er engin smásmíði, eins og síðasta myndin sýnir.  Askjan á Olympus MonsÞessi 2 km djúpa askja er um 90 km í þvermál eða heldur stærri en allur Faxaflói.  Það er augljóst að hún hefur ekki myndast við einn atburð, heldur er askjan stóra á Olympus Mons afleiðing af fimm misgömlum öskjumyndunum, sem hver hefur skilið eftir sinn hring.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Eldfjöllin á Mars eru ótrúlega heillandi. Því miður er Curiosity samt of langt frá Ólympusfjalli til að aka þangað og upp á fjallið. Og eins og staðan er í dag er ekki hægt að lenda þar svo auðveldlega.

Hvað um það, ég setti eitt sinn saman mynd sem sýnir fjallið í samanburði við Ísland sem sjá má hér http://www.stjornufraedi.is/solkerfid/mars#eldfjoll

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 16.10.2012 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband