Skálin í Hrossatungum

Hrossatungur gígurÞað hefur aldrei fundist gígur eftir loftstein á Íslandi - ekki enn.  Ég var því spenntur fyrir að kanna skálina sem er sunnan til í Hafnarfjalli, í Hrossatungum.  Skálin er sýnd á fyrstu myndinni, með Skarðsheiði á bak við. Myndirnar tók Ragnar Axelsson einnig í dag.   Hér er greinileg skál eða gígur, á svæði, þar sem ekki hefur gosið eftir ísöld.  Auðvitað hafa loftsteinar fallið á Íslandi, en rof jökla hafa þurrkað út öll vegsummerki eftir þá. Var hér góður kandídat? Ég fór þvi upp í Hafnarfjall í dag, ásamt Birgi Jóhannessyni og fjölskyldu hans. Skálin er mjög falleg og vel þess virði að skoða.  Hún er um 200 m löng frá SV til NA og um 150 m á vídd. Mesta dýpi hennar er um 50 m.  Botninn er sléttur og klæddur mjúkum og þykkum mosa.  Ekkert gil skerst niður í skálina og er hún því mjög regluleg í laginu og reyndar ungleg.  Brúnir skálarinnar eru úr basalti.  Þetta er fremur þykkt basaltlag, og víða með stóra stuðla, sem liggja láréttir, eins og sjést oft í berggöngum. Eystri brún skálarinnar er hæst og þar hefur basaltið verið rofið töluvert, sennilega af yfirgangs skriðjökuls. Það er ekkert að finna hér, sem bendir til loftsteinsáreksturs.  HrossatungurLoftsteinsgígar sýna viss einkenni sem greina þá frá gosgígum. Þar á meðal má nefna sérkennilega sprungumyndun í berginu umhverfis, myndun af tinnu-líku gleri sem verður til vegna bráðnunar, og einnig lag af urð og grjóti, sem hefur kastast upp úr gígnum.  Hér er ekki slíkt að finna.  Skálin er því gosgígur, en hvað er hann gamall? Eldstöðin sem myndaði Hafnarfjall er um 4 milljón ára gömul og hefur Hjalti Franzson meðal annara kannað hana. Gígurinn er því mun yngri en virkni í Hafnarfjallseldstöðinni.  Hann er sennilega tengdur myndun af móbergi og þursabergi, sem finnst her í grennd. Þá er aldur hans sennielga frá lokum ísaldar eða innan við  eitt hundrað þúsund ára.  Á seinni myndinni má sjá hópinn á gígbrúninni,  inni í rauða hringnum. Leitin af loftsteinsgíg á Íslandi heldur því áfram.......

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Frábært veður sem þú fékkst í gönguferðinni í dag að þessum merkilega gíg og afar fróðlegur pistill.

Fann hann á loftmynd hjá mér sem ég tók fyrir þrjátíu árum. Gekk þangað í sumar gagngert til að skoða hann. Sá þó lítið vegna þoku en hafði það alls ekki á tilfinningunni að þetta væri gígur eftir loftsteina. Sjá þennan link: http://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1248608,

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.10.2012 kl. 20:52

2 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Haraldur

Já þetta er skemmtilegur gígur þarna og stuðlabergið kringum hann bendir auðvitað til að þetta sé gosgígur eða gosrás (kannski eitthvað í ætt við Þríhnjúkagíg?).

Að hann sé "sunnan til í Hafnarfjalli" er hins vegar mjög illa staðsett þar sem Hafnarfjallið er í um 3 km fjarlægð frá gígnum. Kannski mætti tala um "Hafnarfjallssvæðið", þ.e. fjalllendið sem afmarkast af Hafnarfjalli í vestri, Svörtutindum í austri, Bláhnúki í suðri og Tungukolli í norðri. Innan þessa svæiðis má svo finna marga skemmtilega tinda á borð við Gildalshnjúk, Katlaþúfu, Hróarstind ofl.

Gígurinn er í hryggnum sem tengir Blákoll og Ytri Svartatind. Rétt norðan gígsins er lítill tindur á hryggnum sem nefnist víst Hrossatungur eins og þú bendir á, þó á ég bágt með að trúa að nafnið eigi við þennan litla tind og ekki tungurnar neðan hans, niður að Leirá. Nafnið er reyndar ekki merkt á sveitarfélagauppdrátt Hvalfjarðarsveitar (http://www.landlinur.is/attach/Hvalfjar%C3%B0arsveit%20-%20sveitarf%C3%A9lagsuppdr%C3%A1ttur.pdf).

Megineldstöðin þarna er eins og þú bendir á um 4 milljón ára gömul og hlóðst upp talsvert miklu hærri en það sem við sjáum í dag. Hafnarfjallsvæðið umrædda er væntanlega miðja eldstöðvarinnar á meðan Skarðsheiðin eru einu verulegu leifar goslagastaflans eftir 3 milljón ára sarg ísaldarjökulsins.

Ef ég man rétt þá sýna holufyllingar í Skarðsheiði að þar vanti um kílómetra ofaná. Það sem við sjáum í dag eru því aðeins litlar leifar þeirrar miklu eldstöðvar sem var. Gígurinn sem hér um ræðir er í um 500 metra hæð þannig að yfir honum hefur legið, þegar mest var, um 1500 metrar af goslögum.

Ég hef gengið talsvert um þetta svæði og mér sýnist nokkuð ljóst að í miðri eldstöðinni hafi verið stór askja og móbergið sem er áberandi í Hróarstindi og Gildalshnjúki og fleiri tindum hafi myndast í þessari öskju. Móbergið er því hluti af uppbyggingu megineldstöðvarinnar, og einnig um 4 milljón ára gamalt.

Nú sýnist mér þú vera að segja að gígurinn umræddi sé miklu yngri en megineldstöðin og tengist einhvern veginn þessari miklu móbergsmyndun sem er bæði talsvert frá gígnum og nær mun lengra niður en gígurinn.

Af hverju heldur þú því fram að gígurinn sé "mun yngri" en Hafnarfjallseldstöðin? Gæti hann ekki allt eins verið einn af þeim þúsundum gíga sem hljóta að hafa myndast við upphleðslu eldstöðvarinnar, einmitt í öskjubrúninni, sem síðan hafi grafist undir hraunlög. Ísaldarjökullinn hefur grafið ofan af gígnum aftur og vegna tilviljunar hefur hann stoppað gröftinn þannig að gígurinn liggur nú aftur á yfirborði?

"Sennilega" sé gígurinn tengdur móbergsmyndunum í nágrenninu? Hvaða móbergsmyndun? Hróarstindi? "Sennilega" sé gígurinn frá "lokum ísaldar" eða "innan við hundrað þúsund ára". Einhver rök fyrir því?

Brynjólfur Þorvarðsson, 15.10.2012 kl. 06:53

3 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Takk fyrir athugasemdir. skamm fyrir suðvestan gíginn er móbergsmyndun og þursaberg, sem er unglegt og hefur ekki orðið fyrir neinni ummyndun. Sama er að segja með balsatið sem umlykur gíginn.  Af þeim sökum tel ég hann mun yngri en Hafnarfjallseldstöðina. Það hefur verið mikið rof hér á milli, nægilegt til að gabbró innskot hefur komið í ljós. Það er því greinilega mjög langt hlé mill virkni í fornu eldstöðinni, fyrir um 4 milljón árum, og myndun gígsins, sennilega seint á ísöldinni.

Haraldur Sigurðsson, 15.10.2012 kl. 10:44

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það hlýtur að vera mjög merkilegt ef þarna hefur gosið fyrir svona stuttu síðan því þá erum við að tala um gos utan við virka gosbeltið bæði þá og nú. Það gæti líka þýtt að svæðið sé jafnvel ekki alveg óvirkt í dag og líka að gosið getur mun víðar en venjulega er talið.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.10.2012 kl. 12:58

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Nei, ég held að það sé gos á ísöld, á svæði sem nú er útdautt.

Haraldur Sigurðsson, 15.10.2012 kl. 13:13

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég meinti nú eiginlega að gos á þessu svæði á seint á ísöld hljóti einnig að hafa verið utan gosbeltanna á þeim tíma.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.10.2012 kl. 15:25

7 identicon

Heill og sæll HaraldurMér þykir myndin sem birtist af fyrirbærinu í Hrossatungum hin fegursta og ekki undravert að hún hljóti forsíðuathygli. Mér fannst þó skýringarnar á fyrirbærinu e.t.v.  ekki nægilega ítarlegar né í alla staði sannverðugar, og langar mig að gefa ítarlegri skýringar en fram hafa komið.Allt Hafnarfjallssvæðið og allt austur að Draghálsi tilheyrir mikilli megineldstöð sem virk var frá um 5,5 milljónum þar til fyrir um 4 milljónum árum síðan,  og var, í þeirri ritgerð sem ég skrifaði um svæðið, kölluð megineldstöðin í Hafnarfjalli og Skarðsheiði.  Eldstöðinni er skipt upp í ein fjögur tímasskeið, þar sem það elsta tengist  Brekkufjalli, en síðan taka við skeið sem taka mið af miðju virkninnar, þ.e. Hafnarfjalls-, Skarðsheiðar- og Heiðarhornsskeið. Það skeið, sem hér er fjallað um og fyrirbærið finnst innan, er kennt við Hafnarfjall. Á því tímaskeiði framleiðir eldstöðin þunn basalthraunlög og síðan myndast mikil askja, sem jafnvel má skipta upp í þrjár samvaxnar og samtíma sigdældir. Þvermál öskjunnar er um sjö kílómetrar.  Þykkt öskjufyllingarinnar er um eða yfir 800 m. þessi  öskjufylling er samsett úr brotabergi sem er allt frá þursabergi yfir í túff og augljóst að gosefnin hafa orðið til í vatnsumhverfi. Þótt við séum hér staðsett í miðri megineldstöð og með háhitakerfi í grenndinni, þá er það kalt grunnvatnskerfi sem ræður ríkjum í öskjufyllingunni og stjórnað af öskjuvatninu, ekki ósvipað og við sjáum í Öskju í dag. Móbergið er því tiltölulega ferskt að sjá, en er þrátt fyrir það um eða yfir 4 milljóna ára gamalt.  Þetta er það umhverfi sem fyrirbærið skýst inn í. Ég held að flestir geti verið sammála um að þetta er innskot. Rofið á þessu svæði gæti  ég giskað á að sé vart meira en 2-400 m frá því yfirborði sem þá ríkti í megineldstöðinni.   Innskotið er sérstætt að því leyti að það er hringlaga kragi af þéttu lárétt stuðluðu basalti. Innan kragans sést ekki í berggrunn og þakið lausum jarðlögum, og því ekki með öllu ljóst hvaða berg er um að ræða þar. Það er þó augljóslega linara í sér en í kraganum þar sem það hefur rofist niður af jöklinum.  Mér sýnist helst að um grunnstæðan gígtappa sé að ræða, með vel kristallað ytra byrði en þar innan við er bergið sundurlausara og linara, eins og menn gætu gert sér í hugarlund ofarlega í gígrás.   Ég vona að þetta skýri að nokkru tilurð þessarar fallegu skálar í Hrossatungunum. Með kveðjuHjalti Franzson

Hjalti Franzson (IP-tala skráð) 15.10.2012 kl. 17:30

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Komdu sæll, Helgi: Þú hefur kannað þetta svæði mun meir en aðrir jarðfræðingar og hefur gert sína doktorsritgerð um það. Álit hans er því þungt á vogarskálum.  Ég benti á í bloggi mínu hér fyrir ofan að svæðið hefði verið mikið rofið og að núvernadi yfirborð væri því töluvert undir hinu upprunalega.  Einnig benti  ég á að brúnir skálarinnar hefðu sum einkenni bergganga, það er að segja berginnskota.  Ef til vill er þá best að lýsa fyrirbærinu sem millistigs milli gígs og innskots og er ég sáttur við það.  Eitthvað auðveldlega rofið jarðefni, til dæmis gjall, hefur verið inni í skálinni og hefur verið fjarlægt á þess að mikið sjái á basaltinu umhverfis.  Ef ég man rétt,  þá sýnir Helgi fyrirbærið sem gíg á jarðfræðikorti sínu, með rauðum geislum umhverfis.  Varðandi aldur móbergsins, þá er ég hissa á að heyra frá Helga að það kunni að vera milljóna ára gamalt. Það er fremur unglegt, miðað við annað ummyndað berg í nágrenninu og gabbro innskot rétt hjá. Það væri fróðlegt að vita hvernig móbergið hefur verið aldursgreint.

Haraldur Sigurðsson, 15.10.2012 kl. 18:33

9 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Hjalti: Fyrirgefðu prentvilluna fyrir ofan. Ég skrifaði Helgi.....

Haraldur Sigurðsson, 15.10.2012 kl. 18:52

10 identicon

Það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu fyrir mig og örugglega marga aðra er að Haraldi tekst að gera jarðfræðina áhugaverða fyrir leikmann með skemmtilegum tilvitnunum. Hvort bergið er 100 eða 200 milljón ára kemur seinna í ljós. :)

Símon (IP-tala skráð) 16.10.2012 kl. 07:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband