Fjársjóður Grænlands
11.9.2012 | 14:43
Grænland er stærsta eyjan, um tuttugu og einum sinnum stærri en Ísland. En hér eru aðeins um 57 þúsund íbúar. Nú virðist allt að verða vitluast á Grænlandi. Forseti Suður Kóreu er í heimsókn, nýlega hefur grænlenski ráðherrann Kuupik Kleist fundað með kínverjum og Hilary Clinton. Ástæðan fyrir þessum mikla áhuga á Grænlandi eru auðlindir eða beinlínis fjársjóðir í jörðu. Hér er næstum allt til: demantar, gull, kopar, platína, úran, ál, títan, járn og hinir verðmætu sjaldgæfu málmar, sem eru ómissandi í tölvuframleiðslu. Nú eru um þrjátíu námufyrirtæki að kanna jarðlögin og undirbúa námuvinnslu, en aðeins ein gullnáma er komin í gang. Nú telja margir að námureksturinn kunni að flýta fyrir sjálfstæði Grænlands undan danskri stjórn. Þeir hafa haft heimastjórn síðan 1979 og árlega veitir danska ríkið Grænlandi styrk sem nemur um 460 milljón evrum. Þetta eru 8070 evrur á mann, eða um 1,3 milljón ísl kr. á hvern einstakling. Til að meta þennan styrk í réttu samhengi skal geta þess, að árið 2010 var útflutningsverðmæti grænlendinga um 350 milljón og innflutningur um 700 milljón. Grænlendinga eru því algjörlega háðir dönum á þessu augnabliki, en það getur allt breyst mjög hratt, ef eða þegar tekjur berast inn frá námurekstrinum. En sumir halda því fram, að Kuupik Kleist sé ekki nægilegur þungavigtarmaður til að leiða þjóðina í gegnum erfið viðskipti við slungin alþjóðafyrirtæki, sem vilja hefja námugröft, og annað hvort sneiða hjá dönum eða reyna að hafa þá góða. Það eru því mjög spennandi tímar fram undan hjá næsta nágranna okkar, en því miður virðast íslendingar ekki hafa nokkurn áhuga á Grænlandi og því sem þar er að gerast. Það er reyndar skammarlegt, að mínu áliti.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Grænland, Jarðefni | Breytt s.d. kl. 14:47 | Facebook
Athugasemdir
Það er jafnt á komið með ahuga grænlendinga á Islandi og áhuga islendinga á Grænlandi. Semsagt enginn áhugi. Af einhverjum ástæðum er grænlendingum ekki gefið um islendinga. Herraþjóðin danir, eru þeir sem grænlendingarnir virða. Þaðan koma jú peningarnir. Grænland er hluti danska ríkisins og verður það áfram, þrátt fyrir allt sjálfstæðiskjaftæði.
Björn Emilsson, 11.9.2012 kl. 18:46
Mig grunar að þetta ástand sé að breytast. Ef til vill mun grænlendingar líta til Íslands sem gott dæmi um hvernig hægt er að losna undan nýlenduböndum dana.
Haraldur Sigurðsson, 11.9.2012 kl. 19:45
Brussels menn eru farnir að stunda áróður á grænlandi. það eru þeir sem segja að Kuupik Kleist geti ekki höndlað stór þjóðirnar og þurfi því að ganga í ESB til að fá þá sem skilja svona mál til að stjórna. Ég tel að Grænlendingar ættu að varast Brussel.
Valdimar Samúelsson, 11.9.2012 kl. 21:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.