Hafís í lágmarki

Hafís 2012Það var stórfrétt í síðustu viku að hafísinn á norður skauti jarðar væri nú í algjöru sögulegu lágmarki, eða aðeins 4,1 milljón ferkílómetrar. Þessi tala á eftir að lækka eitthvað, því bráðnun heldur áfram fram á haust. Bráðnunin er alveg ótrúlega hröð, eða frá 40 til 75 þúsund ferkílómetrar á dag! Línuritið til vinstri sýnir hvernig hafísinn á norðurskauti hefur bráðnað undanfarin ár. En eins og oftast, þá er nauðsynlegt að setja þetta efni í lengra samhengi tímalega en einungis þessi síðustu ár. Það gerum við í annari mynd, sem sýnir útbreiðslu hafíss á norðurhveli síðustu 1450 ár, eða frá því um 600 e.Kr. Hafís hefur fyrst myndast á jörðu fyrir um 47 milljón árum, en breiddist þó fyrst út um heimsskautin bæði aðallega þegar ísöld hófst fyrir um 2,6 milljón árum. Sveiflan á útbreiðslu hafíss hefur verið lítil til þessa, nema árssveiflan. Nú er annað upp á teningnum, eins og önnur myndin sýnir. En það skal tekið fram, að línuritið á annari mynd er byggt á 40 ára meðaltali, og því hverfur stóra breytingin í ár að mestu inn í meðaltöluna, en sveiflan síðustu árin er samt stórkostleg.  Hafís KinnardÞessi hraða breyting á hafís norðursins getur bent til að hann verði allur horfinn um 2030 (sumir segja jafnvel árið 2016), en ekki í lok aldarinnar, eins og fyrri spár sögðu. Minnkandi hafís er alvarlegt mál, sem snertir þróun loftslags og hafsins umhverfis Ísland. Þegar hafís myndast, þá fer saltfrítt vatn í að gera ísinn en mjög saltur sjór með háa eðlisþyngd verður eftir. Þessi salti og þungi sjór sekkur til botns í Íshafinu. Síðan streymir hann suður með hafsbotninum, um, sundið milli Grænlands og Íslands og virkar eins og mótorinn í hringrás heimshafanna. Ef hafís minnkar eða hverfur, þá mun draga úr þessum kalda straumi. Getur það valdið því að Golfstraumurinn hægi á sér? Getur það valdið staðbundinni kólnun á Norður Atlanshafssvæðinu, á Íslandi og á Bretlandseyjum? Það eru engar samfelldar rannsóknir eða mælingar í gangi til að fylgja þessum breytingum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Engin veit hvernig hafís var á öldum áður. Allt tal um slíkt eru ágiskanir.

Kenning um að ferskvatn á norðurslóðum gæti hugsanlega hægt á eða jafnvel stöðvað Golfstrauminn var sett fram fyrir margt löngu. Sú kenning hefur verið slegin af borðinu, eftir að í ljós kom að forsendur kenningarinnar voru byggðar á ágiskun og tilfinningu "vísindamanna" sem vilja koma þeim skilaboðum áleiðis að allt fari fjandans til við hnatthlýnun.

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.9.2012 kl. 20:33

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Það er hreinlega barnalegt að halda því fram, að enginn viti um dreifingu hafíss fyrr á öldum. Við höfum til dæmis beinar athuganir aftur til 1870. Jarðfræðingar hafa þróað margar aðferðir til að ákvarða útbreiðslu á hafís á jörðu í gegnum jarðsöguna. Sumar þeirra eru byggðar á því að bora niður í setið á hafsbotni víða á norðurheimskautinu og rannsaka botnkjarna. Í botnkjörnum er mæld tiol dæmis dreifing og magn af kísilþörungum. Þeir og margar aðrar tegundir í setinu þurfa ljós og opið haf til að þrífast. Magn þeirra er því góð vísbending um það hvort hafís var fyrir eða ekki.

Haraldur Sigurðsson, 1.9.2012 kl. 21:06

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Gunnar: Vísindi - ekki ágiskanir. Hér er tilvitnun í greinina eftir Kinnard o.fl

Here we use a network of high-resolution terrestrial proxies from the circum-Arctic region to reconstruct past extents of summer sea ice, and show that—although extensive uncertainties remain, especially before the sixteenth century—both the duration and magnitude of the current decline in sea ice seem to be unprecedented for the past 1,450 years. 

Þrátt fyrir óvissu (sem gefin er til kynna á myndinni með bleiku), þá er augljóst að um er að ræða eitthvað óvenjulegt Hafís Norðurskautsins síðastliðin 1450 ár). Reyndar hafa menn að gamni bætt við mynd þeirra:

http://2.bp.blogspot.com/-G3p3-AWgoVw/UD0kCTKEL7I/AAAAAAAABEk/pH8l37zOo0E/s1600/kinnard2.gif

Varðandi ferskvatnskenningar og stöðvun golfstraumsins, þá hafa menn eitthvað dregið í land með þær. Þær kenningar eru þó ekki alveg dauðar, kenningar um ástæður framrásarskeiðs á Yngra Dryas - treysta einmitt sumar á að slíkt hafi gerst og það sem hefur gerst, getur gerst aftur ef sambærilegar aðstæður skapast (sjá t.d.Gátan um Yngra Dryas).

Höskuldur Búi Jónsson, 1.9.2012 kl. 21:10

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Gunnar er við sama heigarðshornið varðandi loftslagsvísindinn...afneitun, afneitun, afneitun.

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.9.2012 kl. 23:07

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Höskuldur: Þetta er ekki rétt. Öll gögnin á línuritinu, nema fyrir árið 2012, eru 40 ára meðaltöl. En sveiflan er svo sláandi, eins og fyrsta myndin sýnir, að það er óþarfi að birta þessa mynd, sem þú sýnir.

Haraldur

Haraldur Sigurðsson, 2.9.2012 kl. 09:27

6 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Haraldur, enda sagði ég að þetta hefði verið sett svona upp í gamni

Höskuldur Búi Jónsson, 2.9.2012 kl. 10:41

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Svona "vísbendingar" eru ekki mæligögn, Haraldur. Rúmlega 1000 ára gamlar ritaðar heimildir segja að jöklar hafi verið minni á Íslandi en í dag. Engar heimildir eru til um nákvæma stöðu hafíssins á þeim tíma.

Að sýna útbreiðslu hafíss sl. 1450 ár á línuriti og fullyrða að útbreiðslan hafi aldrei verið minni en í dag, er afar óvísindalegt en þó í fullu samræmi við aðrar fullyrðingar loftslagsalarmista.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.9.2012 kl. 11:57

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég nenni ekki að þrasa við menn sem eru í einhverri afneitun.

Haraldur Sigurðsson, 2.9.2012 kl. 13:03

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú mátt kalla það afneitun að ég gagnrýni svona framsetningu hjá þér, en það er auðvitað ekkert annað en dónaskapur. Þetta hefur verið aðalsmerki alarmistanna, að þagga niður í gagnrýnisröddum.

Þú ert ágætur í jarðfræðinni.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.9.2012 kl. 14:06

10 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það eru til ágætis gögn um stöðu hafíss áður fyrr (eins og Haraldur bendir réttilega á), en þau gögn eru að sjálfsögðu ekki betri en þau eru á núverandi tímapunkti - við náðum jú fyrst að senda upp gervihnetti til að mæla ástandið upp úr 1979 (nánast stanslaus niðursveifla síðan þá).

Það breytir því þó ekki að það eru til alls kyns heimildir um hafíssinn fyrr á öldum - bæði beinar heimildir og óbeinar (eins og t.d. mælingar (beinar og óbeinr), frásagnir og fleira). Annað sem þarf að huga að í þessu efni er til að mynda hvers vegna jöklar voru hugsanlega minni við landnám hér á landi (sem er þó ekki alveg víst) - t.d. var búið að vera tiltölulega heitara tímabil í langan tíma á undan (þó væntanlega ekki jafn hlýtt og í dag) - þau hlýindi gerðu jöklana minni á löngum tíma, en þeir eru  reyndar taldir hafa verið farnir að stækka um landnám (frá því sem talið er hafa verið fyrir 3-5 þúsund árum síðan - s.s. tímabil fyrir landnám). Þeir stækkuðu svo almennt allt fram á þessa öld...það eru til mjög góðar heimildir um það líka (Gunnar viðurkennir það meira að segja).

En kannski aðalmálið sé að við núverandi hlýnun (sem er staðreynd og af manna völdum að miklu leiti - ef maður rýnir í vísindi en ekki afneitun) er bráðnun bæði jökla og hafís staðreynd sem blasir við okkur hvort sem okkur líkar betur eða ver og hvort sem við eigum "nákvæm" gögn síðustu árþúsundin eður ei. Það er ekki gagnrýni sem vert er að svara þegar menn í bullandi afneitun varðandi loftslagsvísindin (eins og Gunnar er alltaf með) - enda byggir sú "gagnrýni" ekki á neinu nema kannski útúrsnúningum.

Sveinn Atli Gunnarsson, 2.9.2012 kl. 15:44

11 identicon

...og þú ert ágætur á leigubílnum, Gunnar.

.

Leiðinlegt annars hvað hægt er að skemma fróðleg og uppbyggileg blogg með órökstuddu fjasi.

.

Gunnar, þú hlýtur að hafa eitthvað merkilegra fram að færa en þetta, eða hvað?

Jói (IP-tala skráð) 2.9.2012 kl. 17:11

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er ekki blogg, þetta er athugasemdakerfið.

Um daginn fjallaði Haraldur um snjóleysi í Þúfunum í Snæfellsjökli,. Talað var um "geigvænlegar breytingar" í fjölmiðlum og vitnaði í blogg Haraldar, þar sem sagði að um einstakan viðburð væri að ræða. Það var hrakið hressilega í athugasemdarkerfinu. Það hefur e.t.v. verið fólk í "afneitun" sem gerði það.

Í helgarblaði Moggans er núna grein um athuganir jarðfræðingsins á bráðnun Grænlandsjökuls og fullyrðir Haraldur þar að annað eins af stöðuvötnum á jöklinum hafi ekki sést. Það er ekki ósennilegt að hann komist upp með þá fullyrðingu því ólíklegt er að lesendur hans geti staðfest eitthvað annað.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.9.2012 kl. 20:37

13 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þess má geta að óvenjuleg hlýindi hafa verið yfir Grænlandi í sumar og benda rannsóknir á ískjörnum úr jöklinum til að svona hlýindi komi á u.þ.b. 150 ára fresti. Sjá hér

Þess má einnig geta að hnattræn hlýnun sl. áratug er lítil sem engin, þvert á allar spár. Eins mótsagnakennt og það hljómar, þá virðist það valda loftslagsalarmistum áhyggjum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.9.2012 kl. 20:52

14 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Gunnar, hlýnun loftslags af manna völdum er staðreynd...þú mátt reyna að kalla fólk nöfnum ef þér líður betur í afneitun þinni, verði þér að góðu ;)

Sveinn Atli Gunnarsson, 2.9.2012 kl. 21:58

15 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég veit ekki hvort einhver hafi tekið eftir frétt sem birtist á vefsíðu NASA 9. ágúst síðastliðinn. Fréttin var um óvenjuöflugan storm á heimskautasvæðunum 5. ágúst.

Í greininni stendur:

An unusually strong storm formed off the coast of Alaska on August 5 and tracked into the center of the Arctic Ocean, where it slowly dissipated over the next several days.

The Moderate Resolution Imaging Spectroradiometer (MODIS) on NASA’s Aqua satellite captured this natural-color mosaic image on Aug. 6, 2012. The center of the storm at that date was located in the middle of the Arctic Ocean.

The storm had an unusually low central pressure area. Paul A. Newman, chief scientist for Atmospheric Sciences at NASA's Goddard Space Flight Center in Greenbelt, Md., estimates that there have only been about eight storms of similar strength during the month of August in the last 34 years of satellite records. “It’s an uncommon event, especially because it’s occurring in the summer. Polar lows are more usual in the winter,” Newman said.

Arctic storms such as this one can have a large impact on the sea ice, causing it to melt rapidly through many mechanisms, such as tearing off large swaths of ice and pushing them to warmer sites, churning the ice and making it slushier, or lifting warmer waters from the depths of the Arctic Ocean.

“It seems that this storm has detached a large chunk of ice from the main sea ice pack. This could lead to a more serious decay of the summertime ice cover than would have been the case otherwise, even perhaps leading to a new Arctic sea ice minimum,” said Claire Parkinson, a climate scientist with NASA Goddard. “Decades ago, a storm of the same magnitude would have been less likely to have as large an impact on the sea ice, because at that time the ice cover was thicker and more expansive.”

Aqua passes over the poles many times a day, and the MODIS Rapid Response System stitches together images from throughout each day to generate a daily mosaic view of the Arctic. This technique creates the diagonal lines that give the image its "pie slice" appearance.

In the image, the bright white ice sheet of Greenland is seen in the lower left.

Ef maður skoðar ferla sem sýna útbreiðslu hafíss á norður heimskautssvæðinu, þá sýnist mér sem hafísmagnið hafi einmitt byrjað að fallahratt um þetta leyti. Hafísferla má t.d. sjá hér.

Greinin á vefsíðu NASA er hér.

Greinin á vefsíðu NASA er skrifuð 9. ágúst og þar er spáð fyrir um möguleika á hratt minnkandi hafís vegna þessa storms, það er væntanlega áður en menn tóku eftir þessum hröðu breytingum.  

Nú er spurning hvort loftslagsfræðingurinn Clive Parkinson haf haft rétt fyrir sér þegar hann sagði: “It seems that this storm has detached a large chunk of ice from the main sea ice pack. This could lead to a more serious decay of the summertime ice cover than would have been the case otherwise, even perhaps leading to a new Arctic sea ice minimum,”

Ágúst H Bjarnason, 2.9.2012 kl. 22:07

16 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Einmitt Ágúst, þessi stormur hafði mikil áhrif og er þetta eitt af því sem hafði mikil áhrif í að metið verður slegið rækilega í ár. Hafísinn er líka með þynnra móti (til að mynda út af bráðnun síðustu ára sem er í takt við hlýnunina) og það þarf því ekki mikið til að valda mikilli bráðnun, til að mynda gerir svona stormur mikið til þess...

Sveinn Atli Gunnarsson, 2.9.2012 kl. 22:29

17 identicon

Trausti Jónsson fjallaði aðeins um þessa lægð á sínum tíma.

http://trj.blog.is/blog/trj/entry/1252096/

Nú kemur fram í greininni sem Ágúst vísar til, að svo djúp lægð sé næsta einsök að sumri til.

Sú spurning vaknar því hve mikinn þátt hið óvenjustóra íslausa svæði, sem fyrir var á þessum slóðum, átti í myndun og viðhaldi lægðarinnar.

Var styrkur hennar afleiðing aðstæðna, sem svo stuðlaði að enn frekari bráðnun?

einsi (IP-tala skráð) 2.9.2012 kl. 23:21

18 identicon

Stormur í vatnsglasi hjá Haraldi fjallafræðingi, með tilheyrandi ýkjufréttaívafi. Hugsanlega hefur bráðnun Suðurpólsins á Mars 2003 farið framhjá eldfjallasafnsverðinum í Stykkishólmi.

Það er líka hreinlega barnalegt að halda því fram að enginn viti um aukningu gróðurhúsalofttegunda á Mars af mannavöldum Haraldur minn - eða hvað?

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 2.9.2012 kl. 23:44

19 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

einsi: Góður punktur hjá þér.

Höskuldur Búi Jónsson, 3.9.2012 kl. 09:03

20 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Hér er ágætis grein (og mynd hér undi) á SkepticalScience um eitt af því sem þarf að skoða þar sem hafísmetið verður slegið svona rækilega í ár: Arctic Sea Ice Extent: We're gonna need a bigger graph

Arctic Sea Ice

Já, hlutirnir gerast hratt um þessar mundir og það er svo sem ekkert sem bendir til þess að þessi bráðnun sé á undanhaldi...

Sveinn Atli Gunnarsson, 3.9.2012 kl. 11:39

21 Smámynd: Trausti Jónsson

Það sem er umhugsunarverðast á myndinni úr grein Kinnard og félaga er að ísinn er minnstur á þeim tíma sem kenndur er við Litlu-Ísöld á norðurhveli. Ég hef nú aldrei verið neinn sérstakur Litluísaldarsinni en það kemur mér samt á óvart að ísinn hafi verið áberandi minni þá heldur en fyrir og eftir. Rannsóknir á sjávarseti hér við land gefa eindregið til kynna að ísmagn hafi einmitt aukist að mun um 1600. En vel má svosem vera að samband á milli heildarísmagns í norðurhöfum og ísmagns hér við land sé ekkert á fjölaldakvarða þótt það sé mikið og gott á því (styttra) tímabili sem greinarhöfundar hafa til viðmiðunar. Almennt má telja að lengri sveiflur séu sameiginlegar stórum svæðum meðan þær skammæju séu það síður. Samband milli heildarísmagns við Ísland og heildarísmagns á norðurslóðum í heild er ekki sérlega gott í einstökum árum en hingað til hafa menn haldið að það væri gott á aldakvarðanum. Ég get svosem hugsað mér skýringar sem gætu haldið myndinni á floti og jafnframt fallið að niðurstöðum hér við land á umræddu tímabili - en þær eru afskaplega langsóttar. Það er líka hugsanlegt að þær hugmyndir sem við höfum haft um ísmagn hér við land á fyrri öldum séu einfaldlega rangar - það væri líka umhugsunarvert.

Trausti Jónsson, 3.9.2012 kl. 19:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband