Surtarbrandurinn og Hlýnun Jarðar
21.7.2012 | 16:18
Íslendingar hafa fagnað góða veðrinu í allt sumar, og svo virðist sem þjóðin líti á hlýnun jarðar aðeins með ánægu og eftirvæntingu. Dreymir okkur ekki um hlýrri framtíð, þar sem við getum synt í volgum og tærum sjó undan hvítum skeljasandsströndum á Löngufjörum á Snæfellsnesi og Rauðasandi á Barðaströnd? En við verðum að gera okkur ljóst að samfara þessari velkomnu hlýjun hér á norður slóðum er að gerast ógnvekjandi og mjög skaðvænleg hlýjun sunnar á jörðinni, í heittempraða beltinu og í hitabeltinu. Einu sinni fyrir ævarlöngu var Ísland heitt land. Það var á því skeiði jarðsögunnar sem við köllum Míósen, fyrir um 12 milljón árum. Þá var blágrýtismyndunin sem nú myndar Vestfirði og Austfirði að verða til. Fyrir tólf milljón árum var til dæmis heitt á Bjánslæk á Barðaströnd. Þar óx upp þéttur skógur af rauðviðartrjám og öðrum gróðri, sem nú þrífst í loftslagi eins og suður Frakklandi eða í Kalíforníu. Meðal trjágróðursins var elrir (sjá mynd af laufi til vinstri), víðir, ösp, hindartré og alls um 65 tegundir, sem gera kleift að áætla hitastig og loftslag. Meðalhiti ársins var þá um 11 til 15oC á Íslandi, en í dag er meðalárshitinn um 4oC. Þá var aldrei frost á Íslandi og landbrú tengdi okkur sennilega við Norður Ameríku í vestri. Þetta er vitneskja sem við fáum í dag með því að rannsaka surtarbrandslögin á Brjánslæk og víðar á Vestfjörðum, en þau eru leifar af fornum skógum, sem nú eru að breytast í kol eða surtarbrand. Kortið hér til hliðar sýnir útbreiðslu 8 til 20 metra þykka setlagsins í blágrýtismynduninni á Vestfjörðum, sem innheldur surtarbrandinn. En hvernig stendur á þessum mikla hita þegar surtarbrandurinn var að myndast á Míósen? Af hverju var meðal árshiti á Íslandi þá meir en tíu stigum hærri en í dag? Þá var hiti sjávar í Kyrrahafinu einnig um 5 til 8 stigum hærri en hann er í dag. Skýringin er enn ekki ljós, en nokkur mikilvæg atriði koma til greina. Um tíma voru margir jarðfræðingar á þeirri skoðun, að CO2 hefði verið mun hærra í andrúmslofti á Míósen. Þá hefðu gróðurhúsáhrif valdið hitanum. Nýjustu rannsóknir sýna hinsvegar að CO2 var nokkurn veginn það sama þá og er í dag. Orsök hlýnuninnar er því að leita annars staðar. Sennilega er mikilvægast að heimurinn var töluvert annar þá, og þar á ég við stærð og dreifingu meginlandanna og strtauma heimshafanna. Kortið sem fylgir (þriðja mynd) sýnir Norður og Suður Ameríku á Míósen. Þá hafði Mið Ameríka ekki enn myndast, en hún reis síðar úr hafi vegna eldgosa og flekahreyfinga fyrir um 5 milljón árum. Á Míósen voru því sterkir hafstraumar sem léku til austurs og vesturs milli Kyrrahafsins og Atlantshafsins. Margir jarðfræðingar telja þetta lýkilatriði í að skýra hitann á Míósen. Einnig var Beringssund á milli Alaska og Síberíu lokað á þeim tíma. Hafstraumar voru því allt aðrir og staða meginlandanna einnig. Enn vantar sönnun á slíkum kenningum, en vísindin majakast í rétta átt á leit að svari við ráðgátunni um hitann á Míósen.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Hafið, Loftslag | Facebook
Athugasemdir
Frábært innlegg
En hvað meðumpólunarkenninguna þ.e. að jörðin hafi snúist um öxul sinn þannig að norðurpóll lenti í miðju Kyrrahafi og Ísland því á svipuðum stað og Miðjarðarhaf er nú ? Pólarskipti kallst þetta - en þessi voru ekki aðeins segulleg heldur raunveruleg hreyfing jarðar.
Sigurjón Benediktsson, 21.7.2012 kl. 22:23
Gott innlegg Haraldur.
Ein spurning, þegar þú segir að CO2 hafi verið nokkurn veginn það sama þá og er í dag, ertu þá að tala um núverandi ca. 390 ppm af CO2 í lofthjúpnum eða þá 280 ppm sem var fyrir iðnvæðingu? Það er nú allt eins líklegt að einhver hækkun hitastigs sé enn í pípunum miðað við núverandi stöðu CO2 í lofthjúpnum, ekki að það geti þó útskýrt 10°C hækkun hitastigs - það þarf væntanlega fleiri þætti til, eins og þú réttilega nefnir.
En allavega fróðlegur pistill.
Sveinn Atli Gunnarsson, 21.7.2012 kl. 22:31
Jonathan P. LaRiviere og félagar sýna fram á að CO2 var á bilinu 200 til 350 ppm á Míósen, eða nokkuð lægra en í dag.
Ég hef aldrei heyrt fyrr um umpólunarkenningu Sigurjóns.
Haraldur Sigurðsson, 21.7.2012 kl. 22:54
Athyglisverð skrif Haraldur, hafðu þökk fyrir. Eg vek athygli á lauf steingervingum í fjöllum á Pris Christian Sundi á suður Grænlandi. Þþeir eru taldir merki um að Grænland hafi verið tengt, eða þannig, Afríku. Sel það ekki dýrara en ég keypti. Gaman væri að heyra frá þér um þetta. Einnig, umpólun er nokkuð sem menn telja aðð geti orðið, vegna breytinga á segulsviði jarðar.
Björn Emilsson, 22.7.2012 kl. 11:40
Það væri fróðlegt að vita aldur á þessum steingerfu leifum á Grænlandi. Varðandi umpólun segulsviðs, þá er það nokkuð algengur atburður á jörðu, sem hefur engin áhrif á stærri þætti jarðsögunnar og lítil eða engin áhrif á lífríki eða loftslag. Segulsvið jarðar snérist síðast við fyrir um 700 þúsund árum, og það gerist að meðaltali á um hlafrar milljón ára fresti.
Haraldur Sigurðsson, 22.7.2012 kl. 12:45
Eg veitt ekkert frekar um þessar steingerfur í sundinu. Þetta var til umræðu fyrir löngu síðan þegar ég var loftskeytamaður á Prins Christian Sund Radio 1972. Kannske vert að grennslast fyrir um fyrirbærið.
Björn Emilsson, 22.7.2012 kl. 13:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.