Hvað er að gerast undir Krýsuvík?

KrýsuvíkEf til vill er ykkur farið eins og mér, að þið hafið heyrt nýlega um jarðhræringar undir Krýsuvík í fjölmiðlum, en verið engu nær. Hér er sumt af því sem ég hef rekist á varðandi þetta merkilega svæði á Reykjanesskaganum. Krýsuvík er megineldstöð, með sprungukerfi eða sprungurein sem teygir sig frá Selatöngum í suðri til Heiðmerkur í norðaustri, eins og fyrsta myndin sýnir. Græna línan á myndinni sýnir mörk háhitasvæðisins. Krísuvíkurkerfið liggur því næst höfuðborgarsvæðinu af öllum virkum eldfjallakerfum landsins. Sprungugos í norðurhluta Krísuvíkurkerfisins geta því hugsanlega komið upp í Heiðmörk eða í grennd við Elliðavatn. Það er því full ástæða til að kynna sér og fylgjast náið með því sem gerist í Krýsuvík. Krýsuvíkureldar geisuðu á 12. öld, en þá rann Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun sennilega í sömu goshrinu, sennilega árið 1151 og voru eldsupptökin í um 25 km langri sprungu í Móhálsadal. Um þetta svæði má til dæmis fræðast frekar á vef ISOR, þar sem frábært jarðfræðikort er að finna, hér: http://isor.is/efni/ahugaverdir-stadir-jardfraedikort-af-sudvesturlandi    Þær Sigrun Hreinsdottir og Karolina Michalczewska við Háskóla Íslands hafa fjallað um niðurstöður frá fimm GPS mælistöðvum á Krýsuvíkursvæðinu undanfarin ár. Snemma árið 2009 byrjaði landris í Krýsuvík og hélt því áfram til hausts, en þá byrjaði land að síga til vorsins 2010. Í apríl 2010 hófst landris á ný. Þessar skorpuhreyfingar, sem einnig hafa veið mældar með radar, virðast eiga uppruna sinn að rekja niður á um 4 til 5 km dýpi í jarðskorpunni, en landris hefur á tímum verið yfir 5 cm á ári, mest í grennd við Seltún. Samtímis landrisinu hafa jarðskjálftar verið tíðir, en færri þegar landsig verður. Stærsta hrinan var í febrúar árið 2011, þegar átta skjálftar voru af stærðargráðunni 3 og sá stærsti var 4.2.  GPS gögnin varðandi landris má sjá hér:http://strokkur.raunvis.hi.is/~sigrun/KRIV.html   Myndin til hliðar sýnir lóðréttu hreyfinguna í Krýsuvík frá árinu 2007 til þessa árs, eins og fram kemur í GPS mælingum Háskóla Íslands. GPS Sveiflurnar í landrisi koma vel í ljós, en svo virðist sem í heildina sé land að rísa um eða yfir 2 cm í Krýsuvík undanfarin fimm ár. Hver er orsökin? Líklegast er að hreyfingin eða þenslan sé vegna hreyfingar á einhverjum vökva, annað hvort tengdum jarðhita eða hraunkviku, eða þá myndun á gaspúða, eins og þegar suða myndast í jarðhitakerfinu. Einn möguleikinn er því að basaltkvika sé að safnast fyrir undir Krýsuvík. Það væri þá líklegast kvika sem streymir upp frá möttli jarðar, sem til dæmis getur myndað bergganga, eða innskotslög undir Krýsuvíkursvæðinu. Ekki er útilokað að slík kvika geti ratað inn í sprungusveim Krýsuvikurkerfisins, og þannig fundið sér leið í norðaustur átt, eins og gerðist árið 1151, þegar sprungan gaus fyrir ofan Hafnarfjörð og Kapelluhraun rann.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Haraldur. Takk fyrir þennan nauðsynlega fróðleik.

Það er ekki að ástæðulausu, sem ekki hefur verið byggt í Elliðaárdal. Margir vita um hættuna sem er í aðsigi, en segja ekki opinberlega frá staðreyndum.

Það vantar mikið upp á að heiðarlega upplýstur fréttaflutningur um staðreyndir komi fram í ríkisfjölmiðlunum "ábyrgu" og skattborgara-reknu.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 25.5.2012 kl. 22:40

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Þakkir fyrir þínar upplýsingar sem ættu að verða hvati að því að menn hefðu í farteski fyrirhyggju gagnvart mögulegum þáttum um náttúruvá á þessu fjölmenna svæði sem þvi miður eru ekki fyrir hendi enn í dag.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 26.5.2012 kl. 01:28

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Orð í tíma töluð. Flóttaleiðir eru fáar úr henni Reykjavík

Júlíus Valsson, 26.5.2012 kl. 11:57

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Mér finnst fólk gjarnan ofmeta hættuna þegar það talar flóttaleiðir út úr borginni. Viss hverfi eru í mögulegri hættu vegna hraunrennslis en hvað þurfa borgarbúar annars að flýja í snarhasti vegna eldsumbota? Þetta er ekki Napólí. Hættan snýst kannski frekar um truflanir á veitustofnunum svo sem vatni og rafmagni.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.5.2012 kl. 12:27

5 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég er sammála Emil hér. Reykjavík getur orðið einangruð af hraunstraumum, og raflínur og vatnslagnir brostið, en ekki bein hætta af hraunrennsli inn í sjálfa borgina. En slík áhrif á veitustofnana væru í sjálfu sér óskapleg fyrir borgarbúa.

Haraldur Sigurðsson, 26.5.2012 kl. 12:38

6 identicon

Voru jarðskjálftarnir óvenjulegu 1 mars 2012 aðvörun ? http://www.eldgos.is/archives/1064. Það eru engar raunverulegar áætlanir til hvernig á að bregðast við eldgosum eða öðrum jarðvám hér á bak við hús á stór Reykjarvíkursvæðinu.

Guðlaugur Ævar Hilmarsson (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 11:50

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég setti eftirfarandi athugasemd inn á bloggið hennar Vigdísar Hauksdóttur um daginn vegna fyrirspurnar hennar til Ögmundar Jónassonar um flóttaleiðir og viðlagaáætlanir vegna eldgosa við höfuðborgarsvæðið:

Hefur þú [Vigdís] kynnt þér þessa skýrslu?
http://www.almannavarnir.is/upload/files/Uppsett_%C3%81h%C3%A6ttumat%20fyrir%20h%C3%B6fu%C3%B0borgarsv%C3%A6%C3%B0i%C3%B0.pdf
Í skýrslunni segir um eldgos:
"Höfuðborgarsvæðinu stafar helst hætta af þremur eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga, Trölladyngjukerfi, Brennisteinsfjallakerfi (með Bláfjöllum) og Hengilskerfi.
Trölladyngjukerfi liggur að hluta til innan höfuðborgarsvæðisins og eru sprungur og misgengi víða í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Reykjavík og Mosfellsbæ. Stutt er að hraunum inni á rek- og gosreinum Reykjanesskagans frá höfuðborgarsvæðinu. Hverfandi líkur eru þó á því að hraun nái að renna að borginni. Eldgos í nágrenni við svæðið geta þó valdið margs konar hættu fyrir íbúa þess svo sem vegna öskufalls og annarrar loftmengunar. Gosmökkur getur ógnað og haft mikil áhrif á flugumferð. Óbein hætta getur einnig stafað af eldsumbrotum við aðfærsluæðar til og frá svæðinu. Afleiðingar eldsumbrota í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eru háðar staðsetningu og eðli umbrotanna, veðurfari á umbrotatímanum og árstíma."

Vissulega ekki ítarlegur texti, en staðreyndin er að aðeins frá einu eldstöðvakerfi stafar hætta sem leitt getur til slíkrar skyndirýmingar, sem þú [Vigdís] spyrð um, þ.e. ef stórgos hefst í Hengli. Fyrirvari á slíku gosi væri talsverður, en þegar gosið fer af stað, þá skiptir rýming engu máli...Önnur gos yrðu meira til óþæginda en nokkurs annars. Sést það best á því að öll kerfin hafa gosið frá landnámi án þess að skráðar séu heimildir um dauðsföll vegna þeirra. Jú, þau myndu valda truflun í nokkra daga, vikur eða mánuði, en lítið meira. Reykjanesbrautin myndi lokast, þannig að hugsanlega þyrfti að koma á ferjusiglingum milli Reykjavikur og Suðurnesja eða nota Suðurstrandaveginn. Rýming myndi helst þurfa eiga sér stað á Völlunum í Hafnarfirði, þó vissulega gætu sprungur opnast nálægt Heiðmörk og Elliðavatni. Þetta síðasta er ólíklegt, en ekki útilokað.

..Mesta ógnin hvað varðar höfuðborgarsvæðið er frá sjónum, þ.e. fljóðbylgja, t.d. vegna hamfaragoss í Snæfellsjökli eða vegna lofsteins. Minni líkur eru á flóðbylgju vegna jarðskjálfta, þar sem flekarnir eru að færast í sundur og auk þess ver Reykjanesskagi höfuðborgarsvæðið.

Mér finnst spurningar þínar [Vigdíar] vera a.m.k. sumar byggðar á misskilningi og jafnvel fáfræði um þær ógnir sem þú einblínir á.

Mér finnst þessi umræða um sprungugos á Heiðmerkursvæðinu snúast um hvað menn telja til Heiðmerkur.  Ljóst er af landsiginu í Hjöllunum, að hraun er ekki að renna inn í sprungurnar sem koma af gliðnun landsins.  Annars væri landið vart að síga.  Vissulega eru bara um 7.200 ár frá gosinu í Búrfelli og kvika getur hvenær sem er ratað aftur upp á yfirborðið þarna.

Sjálfur bý ég í Þingahverfi og um 50 - 100 m fyrir aftan húsið mitt er sprunga sem ekki hefur hreyfst mjög lengi.  Landið er jökulsvorfið að hluta og því líklegast að sprungan hafi ekki hreyfst eftir að ísöldinni síðustu lauk.  Það væri því ótrúleg tilviljun og óheppni, ef hún tæki upp á því að hreyfast þessi 20-30 ár sem ég ætla að búa þarna.

Þetta er einmitt megin punkturinn.  Líkurnar á því að eitthvað hræðilegt gerist á okkar líftíma eru svo litlar að meiri líkur eru á því að hvert og eitt okkar deyi í bílslysi, en að stórt hraungos á SV-horninu trufli tilveru okkar.  Þar með er ekki sagt að slíkt geti ekki gerst.

Marinó G. Njálsson, 27.5.2012 kl. 12:11

8 identicon

Hengill Hengill herm þú mér, hver á landi mestur er?

Þú minn kæri Hengill mikill ert, en Búrfellsgjá meiri er.

Múhahahahaha, svartur á leik.

Krímer (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 12:21

9 identicon

Þetta átti auðvitað að vera Krímer Krímer.  Silly me

Krímer (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 12:24

10 identicon

Sæl...

Þetta er allrar athyglivert...ég velti því fyrir mér hvort það sé til plan B þegar kemur að Gvendarbrunnum og öðrum vatnsforða höfuðborgarinnar ef eitthvað skyldi opnast á svæðinu Heiðmörk - Elliðaárdalur þó ekki kæmi til goss en líkt og í Kleifarvatni þá lækkaði yfirborð þar um á annan meter svo slíkt hlýtur að vera möguleiki....

 Með kveðju Gunnar

Gunnar B Hrafnsson (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 12:57

11 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég vil benda á mynd 5.1 á bls. 50 í skýrslu Almannavarna, sem Marinó vitnar í. Þessi mynd sýnir vel útbreiðslu hrauna, þar á meðal sögulegra hrauna, á höfuðborgarsvæðinu. Slíkt hraunrennsli í dag hefði mjög víðtæk áhrif á allt mannlíf og athafnir í og umhverfis höfuðborgina.

Haraldur Sigurðsson, 27.5.2012 kl. 13:27

12 identicon

Það eru til lýsingar frá mér og fleirum um hamfarir á Reykjanesinu og viðtal við mig þess vegna og grein í pressunni sem fletti upp alls konar rugli.Það sem haraldur er að lýsa kemur heim og saman við mína sýnir sem byrjuðu fyrir 3 árum en gat opnaðist í gamalli sprungu 100km beins suður af Reykjanesi á um 20km dýpi þaða sem hraunstraumur frá inn ínnri Mettli Jarðarinnar streymir til NA og skiptist í tvö rennsli annað fer um Krísuvík og áfram austur en hitt fer rétt austan við álverið í Keilir og nægar sprungur eru þaðan að Kömbunum af mannavöldum sumar hverjar.Þetta rennsli fer um gömlu sprunguna og stefnir til NA milli fjalla áleiðis til Húsavíkur en margir hafa séð toppinn af Kötlu fara af í heilu lagi. Krisuvík lifnar skart við og ég hafði séð Reykjanessbrautina stórskemmda og Elliðaárbrýr vegna jarðskjálfta og ónothæfar og Suðurstrandarvegur því bjargvættur að hluta.

Þór Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 15:20

13 identicon

Kunnugir telja að jarðhiti hafi heldur aukist við Sog að undanförnu. Og í september s.l. veitti ég athygli gufustreymi á nokkru svæði syðst við Vesturháls þar sem vinkilbeygja kemur á veginn frá Vigdísarvöllum í átt að Latfjalli. þarna er engin ummyndun eða önnur merki um jarðhita. Virtist mér streymið lítt í rénun um tuttugasta október en hef ekki orðið var við það síðan.

Jón Benjamínsson (IP-tala skráð) 27.5.2012 kl. 19:12

14 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Góða kvöldið, það er talað um fyrirvara að eldgosum á þessu svæði, hann getur verið minni en ekki neinn minnumst Vestmannaeyja 1973 þá opnaðist sprunga skindilega það getur gerst líka frá þessum eldstöðvum! Ég hef séð stórgos í Vatnajökli Bárðabúngukerfinu sem mun koma af stað smá gosum á brotabeltinu sem hér um ræðir og þá er Stór-Reykjavíkursvæðið í mikilli hættu! þegar jarðskjálftar hafa komið þá hef ég bloggað og spurt er þetta eðlilegt miðað við það sem er að gerast á sprunguni núna þessi árin það er Fimmvörðuháls, Eyjafjallajökull og Grímsvötn ásmat smá gosum undir Mýrdalsjökli og Vatnajökli eru hættumerkin sem við ættum að taka af fullri alvöru hvað framhaldið varðar!

Sigurður Haraldsson, 27.5.2012 kl. 22:39

15 identicon

Ja hérna, hér eru bara helstu eldfjallasérfræðingar landsins samankomnir.

Krímer (IP-tala skráð) 28.5.2012 kl. 08:06

16 identicon

Sæll Haraldur.

Það er ekki alltaf auðvelt að setja gögn á netið þannig að þau séu auðskiljanleg og mér sýnist mér hafa tekist að rugla menn í ríminu með því að setja gögnin á netið án ýtarlegra útskýringa.  GPS gögn eru alltaf miðað við eitthvað og í þessu tilviki var viðmiðunin kannski ekki valin vel.  Þar sem viðmiðunin var að síga kemur það fram sem landris á KRIV.  Ég hef nú lagfært tímaraðir á netinu fyrir Krísvík svo að þær valdi minni ruglingi en vil benda á að á heimasíðunni sem hér er vísað í er einnig að finna tölvupóstfangið mitt og það má alveg leita sér frekari upplýsinga um gögnin áður en farið er að túlka þau á opnum vefsíðum.  Athugasemdir um framsetningu eru auðvitað alltaf vel þegnar en fyrst og síðast eru þær settar á netið til að auðvelda eftirlit með svæðinu.

Kær kveðja

Sigrún Hreinsdóttir (IP-tala skráð) 30.5.2012 kl. 16:14

17 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Sigrún: Kærar þakkir fyrir þessa nauðsynlegu ábendingu og leiðréttingu á misskilningi mínum. Ég mun athuga það frekar.

Haraldur

Haraldur Sigurðsson, 2.6.2012 kl. 08:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband