Sveipir á Mars

Yfirborð MarsÞegar ég horfi á þessa mynd, þá dettur mér fyrst í hug gólfteppi, sem ég þekkti vel einu sinni, en það er auðvitað rangt. Þessi mynd var tekin nýlega af yfirborði plánetunnar Mars, nálægt miðbaug, og sýnir hún yfirborðið miklu betur en nokkru sinni fyrr. Það sem vekur strax furðu eru sveipir, spíralar eða rúllur á myndinni, sem minna óneitanlega á það hvernig skelin á kuðung er undin upp. Hraun á HawaíiÞessir spíralar eru frá 5 til 30 metrar í þvermál. Hvernig hafa þeir myndast? Ein hugmyndin er sú, að sveipirnir eða spíralarnir myndist á yfirborði hrauna, og að hér sé komin ein sönnun um stóra hraunfláka á þessu svæði á plánetunni rauðu. Ég læt fylgja hér með tvær myndir af slíkum sveipum, sem eru teknar á yfirborði ungra hrauna á Hawaíi. Lesandinn getur svo dæmt um hvort þetta sé líkleg skýring. Hraun með sveip á HawaíiEn það er fleira merkilegt á myndinni frá Mars. Eitt eru bólur á yfirborði, sem gætu verið gasbólur í hrauni, og hitt atriðið eru tíglarnir, sem einkenna allt yfirborðið. Þeir minna óneitanlega á það mynstur sem verður til á yfirborði vegns stuðlabergsmyndunar í hrauni.  En snúum aftur af sveipunum á Mars. Takið eftir að þeir eru ALLIR með hægri snúning.  ÞAð minnig mig á þá staðreynd, að um 90% af öllum tegundum kuðunga eru einnig með hægri snúning.  Er þessi stöðuga snúningsstefna í sveipunum háð stefnu hraunrennslis?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Haraldur.

"Takið eftir að þeir eru ALLIR með hægri snúning".

Getur verið að ástæðan sé Coriolis kraftar vegna snúnings plánetunnar?  Sjást þessir spíralar bæði á norður- og suðurhveli Mars?  Er snúningsstefnan eins á báðum hvelum?

Með kveðju,

Ágúst H Bjarnason, 7.5.2012 kl. 13:48

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Vissulega getur Coriolis komið til greina, en þar sem myndin er tekin nærri miðbaug plánetunnar, þá er Coriolis sennilega í lágmarki. Það minnig mig á tilraun sem ég sá framkvæmda við miðbaug í Ekvador. Karlinn var með vask, og þegar hann hleypti úr honum rann vatnið ýmist í hringiðu niður til hægri eða vinstri, ef hann færði sig rétt yfir miðbauginn. Er það satt að þegar maður hleypir niður úr klósetti á suðurhveli jarðar snúist vatnið í skálinni í hina áttina? Mjög umdeilt mál!

Haraldur Sigurðsson, 7.5.2012 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband