Maðurinn sem uppgötvaði íslandít
5.5.2012 | 11:05
Hinar ýmsu bergtegundir sem myndast á Jörðu bera hver sitt nafn, og fjallar bergfræðin m.a. um þá nafngift. Þannig höfum við nöfn eins og basalt, líparít, gabbró, granít ofl. Það er ekki oft að nafn bætist við í þessa mikilvægu nafnaröð vísindanna, en árið 1958 kom út doktorsriterð í Bretlandi með nýtt nafn, icelandite eða íslandít. Það var jarðfræðingurinn Ian Carmichael sem gaf bergtegundinni þetta nafn, en hann uppgötvaði íslandít auðvitað á Íslandi, í fjallinu Þingmúla uppaf Reyðarfirði. Ian starfaði við jarðfræðirannsóknir á Þingmúla og nágrenni undir handleiðslu George Walker´s, sem kenndi þá við Imperial College í London. Ian tók eftir því að í Þingmúla voru forn hraun, sem höfðu marga eiginleika andesíts (hraunkvika með um 55 til 65% kísil), en bergið í Þingmúla hafði aðra efnafræðilega eiginleika, svo sem mjög hátt járn innihald, og hann lagði til að það væri svo sérstakt að bergið þyrfti nýtt nafn. Þessi bergtegund er reyndar nokkuð algeng á Íslandi, til dæmis í Grundarmön á Snæfellsnesi, og hana má einnig finna á nokkrum öðrum eldfjallsvæðum Jörðu, einkum á Galapagos eyjum. Íslandít er mjög dökkt berg, oftast fínkornótt, næstum eins og gler, og mjög stökkt. En þetta var aðeins ein af mörgum uppgötvunum Ians Carmichael. Hann átti mjög glæsilegan feril sem vísindamaður, og starfaði í fjölda ára sem prófessor við Berkeley Háskóla í Kalíforníu. Hann gaf út kennslubækur og grundvallarrit í bergfræði, ól upp mikinn hóp af frábærum stúdentum sem nú skipa veglegar stöður bergfræðinga í mörgum háskólum heims. Ian skifti sér ekki mikið meir af jarðfræði Íslands eftir doktorsritgerðina, heldur rannsakaði lengi eldfjöll í Mexíkó, Nýju Gíneu og víðar. Hann lést árið 2011, og þar með féll frá einn merkasti jarðvísindamaður tuttugustu aldarinnar ... sem kom nafni Íslands inn í kennslubækurnar á sínu sviði. Eintök af íslandíti frá Grundarmön má meðal annars skoða í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bergfræði, Jarðefni | Facebook
Athugasemdir
...er það samt ekki borið fram "ælandít" í fræðasamfélaginu?
Þ.e. eyjuberg...
Jóhann (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 18:57
Nei, meðal fræðimanna er það nefnt icelandite, sem sagt enska útgáfan.
Haraldur Sigurðsson, 5.5.2012 kl. 22:06
Þú nefnir liparít. Einhversstaðar las ég eða heyrði að þetta væri séríslenskt fyrirbæri, þ.e. að liparit væri einungis skilgreint hér á landi. Eitthvað hæft í því?
pj (IP-tala skráð) 5.5.2012 kl. 23:50
Líparít er dregið af eynni Lipari í grennd við Ítalíu. Í flestum löndum er nafnið rhyolite notað í stað líparíts, nema á Íslandi, Rússlandi og nokkrum öðrum, þar sem líparít er heitið yfir gosberg sem hefur mjög hátt kísilmagn. Það er því ekki séríslenskt, en rhyolite er miklu algengara nafn í veröldinni fyrir þessa bergtegund. Smat engin þörf fyrir okkur að skifta um nafn.
Haraldur Sigurðsson, 6.5.2012 kl. 05:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.