Tindfjallajökull - Stærsta gosið á Íslandi?
2.5.2012 | 06:49
Ég gekk á Tindfjallajökul í blíðu veðri nú í vikunni og naut mikillar náttúrufegurðar þar. Þótt Tindfjallajökull sé sennilega eitt óþekktasta og minnst kannaða eldfjallið á Íslandi, þá er það einmitt sú eldstöð sem hefur fætt af sér stærsta gosið sem við vitum um hér á landi. Það voru reyndar ekki jarðfræðiathuganir á landi, heldur rannsóknir á setlögum á hafsbotni suður í Atlantshafi árið 1941 sem gáfu fyrstu vísbendingar um mikið sprengigos á Atlantshafssvæðinu á ísöld. Frekari kannanir sýndu að það má rekja mikla öskudreif á hafsbotni allt frá svæðinu fyrir norðan Azoreyjar og til Íslands og hlaut hún nafnið Ash Zone-2. Síðan sýndum við fram á árið 1998 að efnasamseting á gleri eða tinnu í öskunni er sú sama og í gjóskuflóðsmyndun sem finnst í Þórsmörk, en hún er komin úr Tindfjallajökli. Þá aldursgreindum við bergið í Þórsmörk sem er komið úr Tindfjallajökli og reyndist það vera frá sprengigosi sem varðfyrir um 54 þúsund árum síðan. Askan frá þessu gosi finnst einnig í Grænlandsjökli, og hefur aldur gossins verið áætlaður um 57þúsund ár samkvæmt því. Við áætlum að heildarmagn gjósku frá þessu gosi, bæði í sjó og á landi, sé ekki innan við 20 km3. Þegar Tindfjallajökull gaus, þá var Ísland að mestu hulið jöklum. Gjóskan streymdi sem gjóskuflóð yfir jökla og yfir láglendi, á haf út. Gjóskufall var mikið á hafísinn umhverfis landið. Ísinn rak til vesturs og suðurs, út í Atlantshafið, og bar á yfirborðinu gjóskuna frá Tindfjallajöklis em töluvert öskulag. Ísinn rak sunnar þar til hann bráðnaði nokkuð fyrir norðan Azoreyjar og askan féll til botns, og blandaðist venjulegu sjávarseti. Í dag eru mestu vegsummerkin eftir gosið form og lögun Tindfjalla. Eins og sést á myndinni eftir Odd Sigurðsson, er greinileg hringlaga askja í fjallinu, og hefur hún sennilega myndast við þetta stórgos. Tindfjallajökull er alls ekki dauður í öllum æðum. Hér varð til dæmis jarðskjálftahrina árið 2000 og sumarið 2001. Jökullinn er um 15 ferkílómetrar og er talinn vera um 50 til 150 m á þykkt, en hann þynnist og minnkar stöðugt.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eldgos, Tindfjallajökull | Facebook
Athugasemdir
Var ekki annað sprengigos, pýróklastískt, úr Tindfjallajökli eða er þetta sama gosið? Mig minnir að hafa heyrt að hægt sé að finna pýroklastisk jarðlög eftir það gos ... varla myndast svoleiðis á jökulskeiði?
Svo er talsvert umfangsmikið pýróklastískt jarðlag á Norðfirði (sem ég kynntist aðeins við prufuboranir vegna hugsanlegra jarðgangna), sjálfsagt er það aðeins eitt af mörgum víðs vegar í jarðlagastaflanum.
Er eitthvað vitað um slík gos á Íslandi, t.d. tíðni þeirra eða hugsanlega staðsetningu? Venjuleg flæðigos eru jú lang algengust og sjálfsagt þarf sérstakar kringumstæður til að pýróklastískt gos verði.
Brynjólfur Þorvarðsson, 2.5.2012 kl. 07:55
Stóra gosið sem ég fjalla um hér fyrir ofan var sprengigos -- pyroclastískt -- þe.a.s. það framleiddi mikioð magn af ösku og vikri og mynduðu þessi efni gjóskuflóð mikið. Lög af slíku efni finnat inni í blágrytismynduninni á Austfjörðum og á nokkrum öðrum svæðum. Til dæmis er eitt slíkt frá Kötlu fyrir um ellefu þúsund árum. Slík sprengigos myndast af mjög gas-ríkri og kísil-ríkri kviku, eins og líparít kviku, og einnig þarf mjög hratt rennsli upp úr gosrásinni. Slík gos eru því mjög sjaldgæf hérlendis.
Haraldur Sigurðsson, 2.5.2012 kl. 13:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.