Kopar og Gull á Bougainville eyju
10.4.2012 | 18:31
Ég hef áður fjallað um kvikmyndina Avatar eftir James Cameron hér í þessu bloggi http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/998231/ Þetta er eiginlega dæmisaga um baráttu milli gráðugra vesturlandabúa og friðsælla frumbyggja. Í kvikmyndinni Avatar ræðst vel vopnað lið námugrafara inn í friðsælt og fagurt land, til að hefja námugröft. Græðgi, rányrkju og grófustu náttúruspjöllum er hér stillt upp andspænis innfæddum þjóðflokki, en þeir lifa í sátt og samlyndi við náttúruna. Myndin er listaverk og er mjög áhrifamikið áróðurstól sem mun marka tímamót, að mínu áliti. Boðskapur hennar er hreinn og tær, einmitt nú þegar almenningur um allan heim er að vakna af vondum draumi varðandi spillingu á umhverfi okkar af gráðugum útrásavíkingum. Ég er nú á leið til eyjarinnar þaðan sem James Cameron fékk hugmyndina fyrir kvikmyndina Avatar, en það er eyjan Bougainville, sem er sú nyrsta af Sólomonseyjum. Rio Tinto Zinc hóf námurekstur hér árið 1972, og á örstuttum tíma var Panguna náman orðin ein af þemur stærstu koparnámum á Jörðu. Innan skamms voru opnu námupyttirnir orðnir 600 til 800 metrar á dýpt. Á sautján árum skilaði námugröfturinn 3 milljón tonnum af kopar, 306 tonnum af gulli og 784 tonnum af silfri. En náman gat einungis verið rekin með vernd vel vopnaðs herliðs málaliða, sem Rio Tinto fékk frá heimalandi sínu, Ástralíu. Innfæddum íbúum eyjarinnar Bougainville varð strax ljóst að námurekstrinum fylgdi stórfelld spilling á umhverfi og náttúru eyjarinnar, og að námufyrirtækið var að ræna þá miklum auðæfum án þess að stuðla á nokkurn hátt að þróun og velferð eyjarskeggja. Þeir stofnuðu því byltingarsamtök undir forystu Francis Ona, og hófu skæruhernað á hendur Rio Tinto. Árið 1989 tókst byltingarsinnum að loka námunni eftir mikinn hernað, með því að sprengja upp möstur og turna sem báru raflínur til námunnar. Talið er að meir en tíu þúsund innfæddra hafi fallið í þessum hernaði. Þar með dró Rio Tinto sig til baka frá Bougainville og náman hefur staðið auð og óvirk síðan. En á meðan hefur verð á kopar og gulli margfaldast á heimsmarkaðinum. Bougainville er því á leið með að verða eitt auðugasta landsvæði jarðar -- strax og þeir hefja námureksturinn aftur. Nú er Ona fallin frá vegna malaríuveiki og miklar líkur eru á að námurekstur hefjist nú aftur að nýju.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðefni, Mannfræði, Rabaul | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.