Fíkn í betelhnetur, mannætur og Rockefeller
23.6.2011 | 07:12
Ég var á ferð á eynni Flores í Indónesíu árið 2010 og keypti þá fallegan dúk af þessari vingjarnlegu konu á förnum vegi. Það fór ekki á milli mála, að konan er háð þeirri fíkn, sem tengd er við betelhnetur og er mjög algeng víða í frumstæðari löndum Suðaustur Asíu, einkum í Nýju Gíneu og í Indónesíu. Betelhnetufíkn felst í því að safna hnetum af plöntunni Areca, skera hnetuna í sneiðar, strá yfir um það bil einni tekseið af brenndu kalki, og vefja síðan í lítinn böggul í laufblaði af betelplöntunni, sem er síðan tugginn duglega. Brennda kalkið veldur efnahvörfum, sem mynda blóðrauðan lit á munnvatni, og litar hann þá strax varir og góma eldrauða. Í Nýju Gíneu ganga margir karlemnn dagsdaglega með litla tösku sem er ofin úr pálmalaufblöðum og er hún ómissandi fyrir betelhnetufíkla.
Í töskunni er glerkrukka með hvítu brenndu kalki, nokkrar hnetur af Aracia, búnt af grænum laufblöðum af beteljurtinni, og hnífur til að skera hneturnar. Það er alltaf greinilegt hverjir eru fiklar í betlehnetur: eldrauður munnurinn og varir og flestar tennur eyddar niður í góm eða dottnar út. Þið getið rétt ímyndað ykkur áhrifin af því að setja brennt kalk í munninn. Tuggunni fylgir vellíðan, og verður betelhnetan fljótt leiður en mjög ódýr ávani, sem veldur ýmsum slæmum kvillum, þar á meðal krabbameini í munni. Nú er því þannig háttað að fólk á þessum svæðum hitabeltisins er bæði munnstórt og með fremur þykkar varir, og blasir rauði liturinn og miklar skemmdir strax við. Þessu fylgja miklar spýtingar af blóðrauðu munnvatni. Í sumum þorpum er nær hver einasti íbúi með beteltuggu í munni, og unglingar byrja snemma á þessum óþvera. Ég verð því að játa að ég á mjög erfitt með að horfa framan í fólk sem tyggur betelhnetur. Og það er einmitt þá sem ég minnist óþægilega á sögusagnir um mannætur á þessum slóðum.

Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Ferðalög, Mannfræði, Rabaul | Breytt s.d. kl. 14:45 | Facebook
Athugasemdir
Það er greinilegt að neysla ávanabindandi efna er ekki bara bundin við vesturlöndiin, þvert á móti og má til viðbótar við þessar hnetur nefna cocalauf sem tuggin eru.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 23.6.2011 kl. 22:03
Takk fyrir skemmtilega sögu
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.6.2011 kl. 18:43
Ég hef kynnst fólki í Ekvador og Kolumbíu sem tyggur cocalauf. Það er þrifalegt ávanaefni, gefur mikinn kraft til líkamans þegar mikið reynir á hátt í Andesfjöllunum, og hefur ekki neinar sérlega hvimleiðar aukaverkanir.
Haraldur Sigurðsson, 25.6.2011 kl. 07:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.