Hvernig leit Ísland út á Ísöldinni?

Ísland á ÍsöldÁrið 2007 töldu Van Vliet-Lanoë og félagar að jökulþekjan hefði verið nokkuð takmörkuð yfir Íslandi þegar Ísöld stóð sem hæst. Líkan þeirra er sýnt sem svörtu svæðin á myndinni.  Ísskjöldurinn er yfir miðju landinu, annar skjöldur á Vestfjörðum og svo smærri jöklar í fjöllum á Snæfellsnesi.  Takið eftir að gráa línan markar landgrunnið í dag, eða 200 metra dýpið.   Árið 2006 lögðu þeir Hubbard og félagar til að jökulþekjan hefði verið miklu utar á landgrunninu, og þeirra Ísaldarjökull er afmarkaður af púnktalínunni á myndinni.  Þetta líkan fyrir útbreiðslu jökulsins verður að telja miklu líklegra, ef dæma skal út frá dreifingu jökulgarða eða mórena á hafsbotni. Það eru þrír jökulgarðar sýndir á myndinni, merktir með feitri svartri línu.  Einn er nokkuð langt undan Breiðafirði, annar út af Húnaflóa og sá þriðji undan Suðurlandi.  Jökulgarðar myndast þar sem skriðjökullinn nemur staðar. Samkvæmt þessu virðist Ísaldarjökullinn hafa náð yfir nær allt landgrunnið.   Olex kort

Nýlega birti norska fyrirtækið Olex ný kort af hafsbotninum, sem má nálgast hér: http://www.olex.no/dybdekart_e.html#isofiler  Kortin eru sérstök og mjög nákvæm, en þau eru byggð að miklu leiti á gögnum sem togarar og aðrir fiskibátar senda inn til Olex.  Næmi kortanna er um 5x5 metrar, sem þýðir að stór rúta eða vörubíll myndi sjást á hafsbotninum á slíku korti.  Íslandskortið frá Olex er sýnt hér til hliðar. Hér koma fjölmörg fyrirbæri fram á hafsbotninum, sem við höfðum ekki hugmynd um áður, og þar á meðal margir jökulgarðar sem sýna fyrri stöðu stóra jökulsins yfir Íslandi á Ísöldinni.  Þessi nýju gögn styrkja mjög þá mynd af Íslandi sem ser sýnd af púnktalínunni í fyrri myndinni hér fyrir ofan.  Ískjöldurinn var svo stór að hann náði út á ystu mörk landgrunnsins víðast hvar. En takið eftir að á Ísöldinni var sjávarstaða miklu lægri en hún er í dag og landgrunnið var því um 100 metrum grynnra en í dag, vegna þess að mikið af vatnsforða hafsins var  geymt í jöklum heimsskautanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru tveir bloggarar sem bera af með fræðandi og áhugavert efni, það er hér og hjá Stjörnufræðisíðunni.

Takk fyrir.

Bragi (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 23:27

2 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Ég held að svarið við þessu sé: Ísland var í köldum klaka líkt og landið verður ef menn setja já við Icesave lögin á laugardag.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 6.4.2011 kl. 09:28

3 Smámynd: Jón Ragnarsson

ER HVERGI FRIÐUR FYRIR ÞESSU HELV. ICESAVE?

Biðst velvirðingar, er bara kominn með upp í kok af þessu. Maður getur ekki einu sinni lesið svona vísindablogg fyrir þessu helvíti. 

Jón Ragnarsson, 6.4.2011 kl. 10:14

4 identicon

Vekur athygli að framburður jökulhlaupa frá Kötlu virðist meira áberandi sunnan landgrunnsbrúnarinnar en frá Skeiðarárhlaupunum.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 6.4.2011 kl. 11:13

5 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Jón Ragnarsson, það skiptir landið og þjóðina kannski meira máli hvað kosið verður um þetta helvítis Icesave, en hvað þykkur ís getur lagst ofan á Ísland. En ég las færslu Haralds af miklum áhuga eins og oft áður.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 6.4.2011 kl. 11:41

6 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Já, ég held að það sé rétt hjá þér, Jón. Mýrdalsjökull og n´sta nágrenni hefur dælt miklu í hafið, og mest af því hefur farið suður landgrunnsbrúnina um mikinn dal neðansjávar, sem kenndur er við Kötlu. Þaðan besrt aurinn langt suður eftir botni Norður Atlantshafsins, langleiðina til Azoreyja.

Haraldur Sigurðsson, 6.4.2011 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband