Flugslóðir valda hlýnun jarðar

FlugslóðÞegar við lítum upp til himins á björtum degi má oftast sjá hátt í lofti eina eða fleiri flugvélarslóðir eftir þoturnar sem fljúga milli meginlandanna.   Flugsamgöngur hafa töluverð áhrif á andrúmsloftið og lengi hefur leikið grunur á að flugið kunni að hafa áhrif á loftslag á jörðu.  Þoturnar dæla út miklu magni af koltvíoxíði, köfnunarefnissamböndum, vatnsgufu og sóti.  Magnið af koltvíoxíði sem þotan losar á flugi er talið um það bil 100 til 200 grömm á kílómeter á farþega.   Flugslóð eða flugvélarslóð nefnist contrail á ensku, dregið af orðinu condensation, eða þétting.  Það minnir á að slóðin myndast aðallega vegna þettingar á gas útblæstri úr þotuhreyflinum, sem myndar ljósgráa eða hvíta gufu rétt fyrir aftan vélina, eins og fyrsta mynd sýnir.  Þétting í gufu verður á örsmáum sótkornum í útblæstrinum, eða á smáum ískristöllum.  Í upphafi þotualdarinnar var litið á slíkar flugslóðir sem skemmtilegt og saklaust fyrirbæri, en nú eru slóðirnar víða orðnar áberandi hluti af himninum,  sjónmengun og farnar að hafa veruleg áhrif.   Þar sem umferð er mikil mynda flugslóðirnar cirrus eða klósiga ský.  Flugslóðir2004Nýjustu ransóknir sýna að slík ský geta þakið 1 til 2% af himninum yfir Evrópu og Norður Ameríku og allt að 10% yfir mið Evrópu.   Önnur mynd er frá NASA og sýnir hvernig suðaustur hluti Norður Ameríku er þakinn af flugslóðum árið 2004. Nú kemur í ljós, samkvæmt rannsóknum Ulrike Burkhardt og Bernard Kärcher áhrifin á loftslag og hlýnun jarðar frá þessum flugslóðum og skyldum skýjum eru miklu meiri en frá  því koltvíoxíði sem þoturnar dæla frá sér.  Skýin draga í sig langbylgjugeislun sem berst frá jörðinni og orsaka með því óæskilega hlýjun.  Vandinn er þessir örsmáu ískristallar, sem myndast í útblæstrinum og skapa aðstæður fyrir myndun á klósiga skýjum.  Ef til vill verður hægt að hanna þotuhreyfla sem mynda stærri dropa eða kristalla, sem falla hratt til jarðar og mynda ekki ský.  Það er merkileg uppgötvun að átta sig á því að flugslóðirnar hafa meiri áhrif á hlýjun jarðar en útblástur koltvíoxíðs frá þotuhreyflum.  En áhrifin eru ekki beint sambærileg.  Koltvíoxíð varir í loftinu tugi eða hundruðir ára, en flugslóðin og skyld ský hverfa eftir nokkra klukkutíma. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Þetta vissi ég ekki. Merkilegt að sjá NASA myndina.

Sumarliði Einar Daðason, 5.4.2011 kl. 09:50

2 Smámynd: Arnar

Nei, ertu að segja að samsæriskenningarsinnar hafi haft rétt fyrir sér um eitthvað?

Reyndar bara það eina atriði að slóðirnar séu slæmar en ekki um alheimssamsæri um að dæla út eiturefnum til að drepa alla nema fáa útvalda og það allt.

Arnar, 5.4.2011 kl. 11:33

3 identicon

Þetta er athyglivert. Mig minnir að ég hafi séð þátt um það hvað áhrif þess að ekki var flogið efir 11 september höfðu.

Mig minnir að þau hafi verið allmikil.

Njörður (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 12:19

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Það var grerinilegt í Bandaríkjunum að himinn var hreinni strax eftir 911 í nokkra daga. Þá lagðist allt flug yfir Bandaríkin af í nokkra daga. Ég bjó í Rhode Island á þeim tíma og tók eftir því.  Hins vegar hefur ekki verið sýnt, á samfærandi hátt, að þetta hafi haft nein áhrif á hitafar.

Haraldur Sigurðsson, 5.4.2011 kl. 13:08

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þetta er athyglisvert. En ætli samsæriskenningarsmiðir hafi nú nokkuð fyrir sér fyrir því (þó víða sé komið við í þeim geira ), enda virðist þarna verið að bera saman flugslóðina sjálfa og þann útblástur af koltvíoxíði sem kemur frá flugvélunum sérstaklega. En athyglisvert engu að síður.

Sveinn Atli Gunnarsson, 5.4.2011 kl. 13:21

6 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Takk fyrir að benda á þetta.

Það vantar samt að taka það fram að samkvæmt IPCC þá ollu flugslóðir um 0,03 W á fermetra geislunarálag (reyndar 0,003-0,03 eða 0,01 að meðaltali) - nú hefur það tvöfaldast samkvæmt þessari rannsókn ef ég skil þetta rétt, þá væntanlega upp í um það bil 0,06 W á fermetra að meðaltali.

Því þyrfti að taka fram - til að fólk haldi ekki að hér sé um verulega mikla stærð að ræða að geta þess að geislunarálag vegna styrkaukningar CO2 er um 1,66 W á fermetra - sem er langtum meira en flugslóðir valda, þrátt fyrir að hlutur þess hafi aukist samkvæmt þessari rannsókn. Sjá mynd frá IPCC:

 http://loftslag.blog.is/users/e8/loftslag/img/c_documents_and_settings_hbj_my_documents_hoski_loftslag_myndir_mai_geislunarbusk.jpg

Þetta er reyndar með þeim fyrirvara að ég hef bara rétt litið á þetta, hef ekki haft tíma til að skoða greinina sjálfa.

Höskuldur Búi Jónsson, 5.4.2011 kl. 19:55

7 Smámynd: Björn Emilsson

Á áttunda tug síðustu aldar vann ég við flugumsjón á Narsassuaq flugvelli á Suður Grænlandi. A heiðbjörtum sumardögum varð oft alskýjað eftir flugvelaslóðir þeirra mörgu þotna sem flugu yfir, á leið til USA. Eg tók þátt í umræðuþætti í síma á CNN, þar sem verið var að ræða loftlagsbreytingar og mengun. Eg sagði frá þessu fyrirbæri í þættinum. Talsverð umræða varð um málið. Mönnum fannst mal mitt alger fjarstæða.

Björn Emilsson, 6.4.2011 kl. 20:34

8 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Björn: Þetta er merkileg athugun. Margt smátt gerir eitt stórt. Jafnvel smæstu verk okkar manna kunna að hafa afleiðingar, sumar góðar, aðrar óæskilegar.

Haraldur Sigurðsson, 6.4.2011 kl. 20:52

9 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Björn: Þetta er merkileg athugun. Margt smátt gerir eitt stórt. Jafnvel smæstu verk okkar manna kunna að hafa afleiðingar, sumar góðar, aðrar óæskilegar.

Haraldur Sigurðsson, 6.4.2011 kl. 20:52

10 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Er ekki oft talað um Butterfly Effect í þessu samhengi?

Sumarliði Einar Daðason, 8.4.2011 kl. 18:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband