Hvað klikkaði í Japan?

SpáRaunveruleikiÞað var rétt eftir klukkan 2:46 eftir hádegi að síminn hjá prófessor Kensuke Watanabe í borginni Sendai sendi út neyðarkall. Hann skipaði öllum nemundunum í bekknum að skríða undir borð. Skömmu síðar lögðu þau á flótta út úr byggingunni.  Japan hefur fullkomnasta jarðskjálftakerfi á jörðu, sem kostar um einn milljarð dollara, og er með meir en eitt þúsund jarðskjálftastöðvar.  Upptök skjálftans voru klukkan 2:46:45 en neyðarkallið fór út klukkan 2:46:48.  Það eru tvær tegundir af bylgjum sem myndast í jarðskjálfta. P bylgjan fer hraðar, en S bylgjan fylgir á eftir og veldur mestum usla. S bylgjan fer á um 4 km hraða á sekúndu í gegnum jarðskorpuna.  Nemendur Watanabe höfðu því þar til klukkan 2:47:17 eða 32 sekúndur til að koma sér á öruggari stað.  S bylgjan náði til Tókíó eftir um 90 sekúndur.  Samt sem áður verður að telja að kerfið hafi ekki virkað í Japan í þetta sinn. Í fyrsta lagi var flóðbylgjan miklu hærri en nokkur hafði gert ráð fyrir og flóðgarðar voru að mestu gagnlausir.  Í öðru lagi höfðu jarðskjálftafræðingar áætlað aðeins 30 til 40% hættu á að sigbeltið undan austur strönd norður Japan myndi rifna næstu tíu árin, og 60 til 70% næstu tuttugu árin.  Þetta voru  helstu niðurstöður á jarðskjálftahættukorti sem var gefið út í marz 2009.  Myndin til hliðar sýnir tvö kort af norður hluta Japan. Kortið til vinstri er spá um hreyfingu jarðskorpunnar vegna jarðskjálfta í sigbeltinu.  Hreyfing eða hristingur er að sjálfsögðu mest í grennd við upptökin en minnkar hratt með fjarlægð.  Hreyfingarskalinn er sýndur lengst til hægri, frá 1 til 7.  Kortið til hægri er hreyfingin sem var mæld í kjölfar skjálftans 11. marz.  Hér er notaður sami skalinn og sömu litir til að sýna hreyfinguna. Það er greinilegt að spáin var röng og hreyfing miklu víðtækari og meiri.  En stærstu mistökin voru tengd flóðbylgjuhættunni.  Stærsti varnargarður heims var vígður þvert fyrir Kamaishi flóa árið 2009, eftir framkvæmdir í þrjátíu ár sem kostað hafa um 1,4 milljarðar dollara.  Garðurinn er 20 metrar á þykkt,  nær frá hafsbotni á 63 metra dýpi og stendur 8 metra upp úr sjó.  Almenningur og sérfræðingar  héldu að garðurinn væri svo stór að hann mundi örugglega verja byggðina.  Hann reyndist gagnlaus þegar meir en 20 metra há flóðbylgjan skall á. Þegar Fukushima kjarnorkuverið var reist árið 1965 var gert ráð fyrir að flóðbylgjuhættan væri minni en 6 metrar. Niðurstöður eru þær, að enginn hafði gert ráð fyrir versta tilfelli.  Nú verðum við því miður að endurskoða allar spár um náttúruhamfarir á jörðu og taka sík verstu tilfelli inn í reikninginn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mjög athyglisverðar upplýsingar og vekja upp margar spurningar fyrir okkur hér á Íslandi, þótt eðli jarðskjálftavirkninnar hér sé annað en við Japanseyjar. Um skeið hafa menn vitað að gera megi ráð fyrir virkni á einhverju af þeim brotabeltum, sem liggja NV-SA hér norðan við landið og um annes á Mið-Norðurlandi. Á brotabeltinu, sem liggur nærri Dalvík og vestur um Fljót varð skjálfti 1934 og aftur 1963 að því manni skilst. Á beltum þar fyrir norðan urðu miklir skjálftar á 19. öldinni og raunar einnig fyrr í sögunni. Maður veltir fyrir sér ýmiskonar "scenarios" varðandi mögulega skjálfta á svæðinu, t.d. hvort þeir geti valdið skriðuföllum á hafsbotni, sem aftur gætu valdið "hafnarbylgjum" (tsunamis), hvar slíkt gæti mögulega gerst og hvaða svæði væru þá í hættu. Að óathuguðu máli gæti maður óttast um lægstu byggð í Ólafsfirði og á Siglufirði við slíkar aðstæður?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 20:20

2 identicon

Ég held að skrá okkar um jarðskjálftavirkni á Íslandi sé allt of stutt. til að við getum dæmt um versta tilfelli.  Að sjálfsögðu eru það brotabeltin norðan og sunnan lands sem ber að hafa áhyggjur fyrir. Það eru tiltölulega ný vísindi sem nefnast paleoseismology eða fornskjálftafræði, þar sem áhrif fornra stórskjálfta eru rannsökuð í setlögum.  Það hefur enn ekki verið framkvæmt á Íslandi.

Haraldur (IP-tala skráð) 4.4.2011 kl. 22:02

3 identicon

Hvert er þitt álit á auknum jarðskiltum,við Reykjanes og í Kötlu.

Albert Ríkarðsson (IP-tala skráð) 5.4.2011 kl. 00:17

4 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ef þú átt við skilti, sem veita upplýsingar um jarðfræði svæðisins, þá er ég hlynntur slíku, ef gert er af viti og smekklega.  Það eykur virðingu ferðamannsins fyrir svæðinu og bendir á að hér er eitthvað merkilegt fyrirbæri, sem þörf er á að varðveita.

Haraldur Sigurðsson, 5.4.2011 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband