Verður næsti stóri skjálftinn í Ameríku?
27.3.2011 | 20:02
Flestir einbína á suður Kaliforníu sem mesta hættusvæðið í sambandi við jarðskjálfta í Ameríku, en sennilega er rétt að líta töluvert norðar. Árið 1700, hinn 26. janúar um kl. 9 að kvöldi rifnaði eitt þúsund km löng sprunga í jarðskorpuna í sigbeltinu undir vestur hluta Norður Ameríku og jarðskjálfti af stærðargráðunni 9 skók alla Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna og Kanada. Það var Juan de Fuca flekinn sem var að síga undir Norður Ameríku flekann. Flekahreyfingin í þessu sigbelti er nokkuð erfið, því Jan de Fuca flekinn er ungur, heitur, tiltölulega eðlisléttur, og sígur því treglega undir Norður Ameríku með meðalhraða um 3 sm á ári. Af þeim sökum er halli á sigbeltinu lítill, eða um 20 gráður frá láréttu, og mikil spenna hleðst upp í skorpunni milli stórra skjálfta. Myndin fyrir ofan sýnir þversnið af sigbeltinu, þar sem skjálftinn mikli gerðist. Þá skrapp flekinn um 20 metra niður í möttul jarðar. Flóðbylgjan gjöreyddi þorp innfæddra á Vancouver eyju, og flóðbylgjan náði alla leið til Japan, hinu megin Kyrrahafsins. Það eru heimildir frá Japan sem gera okkur kleift að tímasetja þennan mikla skjálfta. Þar í landi var þetta fyrirbæri kallað munaðarlausa flóðbylgjan þar sem hún birtist án þess að nokkur jarðskjálfti gengi yfir á undan, eins og títt er. Seinni myndin er líkan af dreifingu flóðbylgjunnar yfir Kyrrahaf árið 1700. Nú telja margir skjálftafræðingar að síkur skjálfti geti gerst í þessu sigbelti á um 500 ára fresti, eða jafnvel oftar, og rifnar þá skorpan frá norður hluta Kaliforníu og allt norður til vestur strandar Kanada. Nú eftir stóra skjálftann í Japan hafa íbúar Oregon og Washington fylkja vaknað við illan draum, og áttað sig á því að strandlengja þeirra gæti ef til vill verið næsta hamfarasvæðið. Hingað til hefur áherzlan verið mest á jarðskjálftahættuna í Los Angeles og suður Kaliforníu, en nú kann það að breytast. Sigbelti sem ekki hafa rifnað lengi, og legið í dvala í nokkur hundruð ár, eru mjög líklegir vígvellir stóru skjálftanna í framtíðinni. Cascade sigbeltið og vestur strönd Oregon, Washington og Bresku Columbíu eru því í víglínu.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Bandaríkin, Jarðskjálftar, Jarðskorpan | Facebook
Athugasemdir
Ég vona að af þessu verði ekki fyrr en í fyrsta lagi á miðvikudaginn, þar sem ég er staddur í San Francisco, í þessum skrifuðu orðum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.3.2011 kl. 02:52
Til allrar hamingju ertu rétt fyrir sunnan aðal hættusvæðið. Ég held að þú sleppir heim heill á húfi.
Haraldur Sigurðsson, 28.3.2011 kl. 17:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.