Sjaldgæfu jarðmálmarnir eru gulls ígildi
19.3.2011 | 00:42
Kína er með nær algjöra einokun á sjaldgæfu jarðmálmunum, og nú eru gömul móðurborð og önnur rafeindaborð allt í einu orðin gulls ígildi. Sjaldgæfu jarðmálmarnir eru sautján frumefni í töflu lotukerfisins, frá númer 57 til 71, og þar á meðal efnin skandíum, yttríum, samaríum og fimmtán lantaníð efnin. Sjaldgæfu jarðmálmarnir haga sér allir líkt. Þeir hafa meðal annars mjög góða leiðni. Þessir málmar eru ómissandi í rafeindaiðnaðinum, og nauðsynlegir við gerð á tækjum sem við reiðum okkur mikið á í daglegu lífi. Þeir eru til dæmis mikilvægir málmar í tölvum, rafhlöðum, farsímum, bifreiðum, seglum, flúrósent ljósum, videódiskum og yfirleitt í öllum tækjum með rafeindaborðum. Framleiðslan af sjaldgæfu málmunum árið 2009 var 124 þúsund tonn, en eftirspurnin var um 134 þúsund tonn. Um 97% af öllum sjaldgæfu málmunum eru grafnir úr jörðu í Kína, eins og myndin fyrir ofan sýnir, og það er eiginlega engin samkeppni á þessu sviði. Verð á öllum sjaldgæfu málmunum hefur rokið upp úr öllu valdi, eins og myndin til hliðar sýnir. Verð á samaríum hefur til dæmis hækkað úr um $20 á kíló í fyrrasumar, upp í um $120 á kíló nú í febrúar 2011. Viðbrögð rafiðnaðarins í Japan og á vesturlöndum er urban mining eða námugröftur í borgum. Nú er byrjað að endurvinna í stórum stíl gamlar og úreltar tölvur, farsíma og annan rafbúnað, til að ná úr þeim sjaldgæfu málmunum. Það er hægt að vinna sjaldgæfu jarðmálmana úr jörðu í öðrum löndum heims, en talið er að það taki um tíu ár að koma því til leiðar, og á meðan stjórna Kínverjar algjörlega markaðnum. Kínverjar hafa verið skynsamir í þessu máli og stýrt því vel með sínu volduga efnahagskerfi. Hvað er eiginlega að hinum kapítaliska heimi, að átta sig ekki á slíkum fremur einföldum atriðum, fyrr en allt er komið í strand? Það getur orðið dýrt fyrir þjóðfélagið til lengdar að láta berast undan vindi með illa upplýsta kapítalista undir stýri. Einokun Kínverja á sjaldgæfu jarðmálmunum er sláandi. Ég held að það komi ef til vill best í ljós ef við skoðum verð á samaríum undanfarið. Eins og myndin fyrir ofan sýunir, þá hækkaði kílóið af samaríum úr $20 upp í $120 á sex mánuðum frá marz 2010 til febrúar 2011. Nú eru iðnríkin að byrja að bregðast við. Námugröftur mun hefjast í Mountain Pass námunni í Kaliforníu á næstunni og gert er ráð fyrir að hún geti framleitt um 20 þúsund tonn á ári. En framtíðarnáman fyrir sjaldgæfu jarðmálmana er sennilega á hafsbotni. Víðs vegar um heimsins höf finnast hnefastórar kúlur af mángan, sem liggja á hafsbotni og bíða eftir því að vélmenni komi til að tína þær upp í körfu, sem er hífð upp og um borð í námuskipið. Mángankúlur eru útfellingar af ýmsum efnum úr sjónum. Mynd til hliðar sýnir eina slíka. Þær innihalda töluvert magn af dýrum málmum (gulli og platínu) og einnig eru þær ríkar af sjaldgæfu jarðmálmunum. Ef til vill er verð á þessum málmum nú orðið það hátt að námugröftur á hafsbotni borgar sig. Þá er einokun Kína sprungin.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Jarðefni, Jarðskorpan | Breytt s.d. kl. 14:41 | Facebook
Athugasemdir
Þetta sýnist mér nú mjög undarlegar útskýringar eins og svo oft á íslensku bloggi, er þetta mjög í ætt við blogg um orkublogg hér á íslandi.
Þú segir:
Um 97% af öllum sjaldgæfu málmunum eru grafnir úr jörðu í Kína, eins og myndin fyrir ofan sýnir, og það er eiginlega engin samkeppni á þessu sviði
Þú ert með þrjár myndir hérna. Enginn af þeim sýnir neitt af þessu, ekkert í líkingu af þessu sem þú ert að segja. Ein myndin sýnir hinsvegar að Kínverjar eru að FRAMLEIÐA rosalega mikið af þessu miðað við aðrar þjóðir, það þýðir auðvitað ekki að 97% af þessu efni er "grafið" hjá kínverjum. 95% af koli jarðar gæti þess vegna verið "grafið" í danmörku en þeir mundu einfaldlega ekki grafa eftir því þar sem upplýsingatækniiðnaður gefur meira af sér, þar sem að senda hátæknimenntað fólk að pikka kol sé ekki hagstætt.
Urban mining á vesturlöndum mun alltaf vera til, einfaldlega út af því að það er hagstætt. Þá er verið að henda þessum "sjaldgjæfu" málmum í tonnatali á haugana. Þar er spurningin, hvor er að græða meira, vesturlönd að endurvinna málminn, eða þróunarlöndin að vinna hann. Svolítið eins og Hollendingar að fullvinna álið okkar, en við að frumvinna það.
Jón Gunnar Bjarkan, 19.3.2011 kl. 02:04
Fyrirgefðu vinur. Verð að biðjast afsökunar á þessu.
Ég las sem þú skrifaðir að þessir málmar væru grafnir í Kína en ekki:
Um 97% af öllum sjaldgæfu málmunum eru grafnir úr jörðu í Kína
ÚR JÖRÐU KÍNA.
Svo það má vera rétt að þeir eru grafnir úr jörðu kína núna, en auðvitað eru þeir út um allan heim, Kínverjar eru einfaldlega að framleiða þá núna í svona miklu magni.
Jón Gunnar Bjarkan, 19.3.2011 kl. 02:14
"Hvað er eiginlega að hinum kapítaliska heimi, að átta sig ekki á slíkum fremur einföldum atriðum, fyrr en allt er komið í strand? "
Segir þú, Haraldur.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég les kjánalega staðhæfingu hjá þér, á blogginu þínu. Kapitalistar eru meistarar í því að þefa uppi gróðavon. Ef það væri hagstætt fyrir þá að leita og grafa eftir þessu sjálfir, þá myndu þeir örugglega gera það. Þeim er nefnilega best treystandi til að finna hagkvæmustu leiðina, þó ekki sé hún alltaf sú skynsamasta.
Greinilegt er að hagkvæmast fyrir þá er að nota ódýra ríkisþræla í Kína til að moldvarpast í þessu og næst hagkvæmast að endurvinna úr gömlu drasli.
Svo einfalt er það.
Gunnar Th. Gunnarsson, 19.3.2011 kl. 04:36
Þarna hefurðu dæmi um erkitýpíska Íslenska bloggara, sem því miður er offramboð af. Hvor miskilur mál þitt eftir sínum smekk til að geta verið ósammála um eitthvað, sem er alls ekki rætt.
Þessir tveir eru þó með svarta beltið í þessu.
Fróðleg grein og umhugsunarverð og ég tek undir það að kapítalíski fattarinn er ansi langur, ef hann þá er fyrir hendi. Hann hefur t.d. ekki enn fattað að hann dó fyrir þrem árum.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.3.2011 kl. 06:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.