Fimm hundruð ára gömul eldgosamynd frá Mexíkó
24.2.2011 | 19:14
Mexíkó er mikið eldfjallaland og Mexíkanar hafa lengi gert frábærar myndir af eldgosum. Árið 1519 kom spánski hershöfðinginn Hernan Cortes til austurstrandar Mexíkó með flota sinn, 11 skip, 500 hermenn, 13 hesta, og nokkrar fallbyssur. Í ágúst sama ár skundaði hann inn í Mexókóborg, sem þá hét Tenochtitlan og var höfuðborg Aztecríkisins. Þetta voru fyrstu alvarlegu kynni Mexíkana af Evrópubúum. Spánverjar gjöreyddu menningu Aztecanna og aðeins brot af fornri frægð eru eftir. Eitt af þeim er handrit, sem er í eftirriti, og ber heitið Codex Telleriano Remensis. Í þessu handriti er merkileg mynd og texti sem varðar tímabilið frá 1507 til 1509. Myndin er hér til hliðar. Textinn sem fylgir lýsir miklu ljósi eða birtu, sem reis upp frá jörðu og til himins. Birtan varði í meir en fjörutíu daga og sást um allt Mexíkó. Sennilega er þetta lýsing á eldgosi í fjallinu Popocateptl eða Orizaba. Annað listaverk frá Mexíkó sem sýnir eldgos er frá árinu 1671, og er það í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Árið 1671 gaf Arnoldus Montanus út merka bók í Amsterdam: Die nieuwe en onbekende Weereld, eða Nýji og óþekkti heimurinn. Ameríka var þá sannarlega nýji heimurinn, enda uppgötvuð aðeins um 77 árum áður. John Ogilby stal verkinu og prentaði aðra útgáfu af bókinni sama ár undir sínu nafni. Myndin sýnir viðbrögð hinna innfæddu Mexíkana við því þegar tvö eldfjöll gjósa í einu, en Spánverjar horfa undrandi á hátterni hinna innfæddu. Þriðja myndin her frá Mexíkó er máluð á trébörk, og er hugmynd Mexíkanans í dag af eldgosi. Hún er einnig í Eldfjallasafni í Stykkishólmi.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eldfjallalist, Ferðalög, Menning og listir | Facebook
Athugasemdir
very nice blog.
goetna (IP-tala skráð) 9.3.2011 kl. 20:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.