Fer fyrir Gígjökli eins og Steinsholtsjökli árið 1967?
7.5.2010 | 06:19
Hinn 2. maí, síðastliðinn sunnudag, tók NASA þessa mynd af Eyjafjallajökli úr EO-1 gerfihnetti. Um borð er The Advanced Land Imager tæki, sem gerði myndina. Myndina má sjá í upprunalegu formi hér
Takið eftir sprengigígnum þar sem brúna öskuskýið kemur upp. Takið einnig eftir Gígjökli (sem var einnig oft nefndur Falljökull) fyrir norðan gíginn. Smellið einu sinni eða tvisvar á myndirnar til að fá stækkaða útgáfu. Hvítir gufubólstrar rísa upp um göt í Gígjökli, en jökullinn er vel afmarkaður af þverbröttum hömrum. Næsta mynd hér fyrir neðan er einnig úr EO-1 gervihnetti, og sýnir hún aurana fyrir framan Gígjökul lengst til vinstri. Til hægri á myndinni er blágrænt jökullón Steinsholtsjökuls. Norður eru upp á báðum myndum. Jökull sá er nú svartur af ösku. Hinn 15. janúar árið 1967 varð mjög stórt framhlaup úr 400 metra háum hamrinum Innstahaus fyrir ofan Steinsholtsjökul. Guðmundur Kjartansson skrifaði góða grein um þetta framhlaup í Náttúrufræðingnum. Um 15 miljón rúmmetrar af móbergi féllu niður á jökulinn og orsakaði það mikið flóð í Markarfljóti. Skellurinn var svo mikill að hann kom fram á jarðskjálftamælinum á Kirkjubæjarklaustri. Nú eru móbergshamrar umhverfis og undir Gígjökli sennilega orðnir mjög veikburða og kunna að koma úr þeim fljótlega stórar fyllur og framhlaup þegar jökullinn heldur áfram að minnka. Bretinn Martin P. Kirkbride gerði kort af svæðinu umhverfis Steinsholtsjökul fyrir um tíu árum, sem er sýnt hér fyrir neðan. Þar kemur vel fram hvernig jökullinn hefur hopað, en jökulgarðar frá ýmum tímum hafa verið aldursgreindir. Einnig er sýnt á kortinu setið sem myndaðist í hlaupinu mikla árið 1967. Grein Kirkbridge má nálgast hér
Nú þegar gosið er búið að rústa Gígjökli er ekki óhugsandi að stór framhlaup myndist úr hömrum umhverfis hann.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Eyjafjallajökull | Breytt s.d. kl. 06:22 | Facebook
Athugasemdir
Er þetta ekki ágætis tilefni til þess að halda fólki frá jöklinum á meðan aðstæður eru ótryggar?
"
Nú þegar gosið er búið að rústa Gígjökli er ekki óhugsandi að stór framhlaup myndist úr hömrum umhverfis hann.
"
Grettir (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 12:18
Fór þarna hjá um daginn (fyrir seinna gos) og dáðist að hrikalegum ummerkjunum um framhlaupið úr Steinholtsjökli. Það vekur vissulega hjá manni ugg að hugsa til þess að slíkar hamfarir geti mögulega orðið á Gígjökulsvæðinu. Sérstaklega í ljósi þess hrein heppni með tímasetningu olli því að engir slösuðust eða fórust í framhlaupinu '67.
Hversu fljótlega sérðu fyrir þér að móbergið molni og hlaupi fram?
Helga (IP-tala skráð) 10.5.2010 kl. 13:35
Það er gott ráð að fara varlega umhverfis Gígjökul, en spurningin er: í hvað mikilli fjarlægð? Ég tel að engin hætta sé á ferðum ef menn eru uppi á háu jökulöldunni sem er nú nokkuð langt fyrir framan Gígjökul.
Haraldur Sigurðsson, 10.5.2010 kl. 14:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.