Efst á Eyjafjallajökli
2.5.2010 | 17:44
Ég hef flogið í nokkur skifti yfir toppgíg Eyjafjallajökuls í þyrlum og flugvélum, og einnig lent á Skerjunum fyrir vestan gíginn, en í gær, 1. maí, tókst mér loks að komast að gígnum og stíga upp á Goðastein, vestan við gígbarminn. Það var stórkostleg og alveg ógleymanleg sýn sem blasti við mér. Ég var í för með bandaríska sjónvarpsliðinu frá 60 Minutes, en Gunnar Egilsson kom okkur upp á ótrúlega skömmum tíma. Myndin til hliðar er af okkur Scott Pelley með sprengigosið í baksýn. Við fórum vestari leiðina á fjallið, upp frá Seljalandsfossi, og upp Hamragarðaheiði. Við ókum námuveginn upp í grjótnámuna fyrir Bakkafjöruhöfn. Hér með fylgir jarðfræðikort sem Jón Jónsson (1988) gerði af Hamragarðaheiði og sýnir hinar fjölmörgu eldstöðvar þar á leiðinni. Fljótlega var komið upp á jökulinn, en um leið og við komum upp í um 1000 metra hæð, þá ókum við uppúr þokunni og inn í glimmrandi fínt sólskin og hið besta veður. Fjallasýn var stórkostleg til Tindfjallajökuls og Heklu, en aðeins fjallatopparnir stóðu uppúr skýjum. Við gengum strax upp á Goðastein og nutum útsýnisins, beint yfir gosstöðvarnar. Við höfum sennilega verið í um 400 metra fjarlægð frá virka sprengigígnum. Það er talið að nafngiftin Goðasteinn hafi komið til við Kristnitöku á Alþingi þegar trúfrelsi var afnumið árið 1000. Þá fór Runólfur goði með sínar skurðmyndir af goðunum upp á Eyjafjallajökul og mun hafa varpað goðamyndunum í gíginn í grenndi við Goðastein. Þá hefur gígurinn sennilega verið íslaus og opinn, eftir gosið árið 920, aðeins áttatíu árum fyrr. Þegar litið er yfir toppgíg, þá kemur strax í ljós að mikill gufumökkur stígur upp af efri hluta gígjökulsins. Hann er allur brotinn og siginn hér, en gufumökkurinn er vafalaust vegna hraunrennslis undir jöklinum. Sennilega er þetta andesít hraun sem er að troða sér leið undir jökli, svipað að efnasamsetningu og askan sem berst upp í sprengingunum. Mér virtist að gufan, og þar með hraunið undir jöklinum, væri komin um það bil hálfa leið niður Gígjökulinn, og kæmi því fljótlega fram niður á láglendi, framúr Gígjökli. Myndin til hliðar sýnir gufumökkinn upp af Gígjökli, en sprengigígurinn er lengst til hægri á myndinni. Ekkert lát var á sprengingum og öskuframleiðslu á meðan við dvöldumst á Goðasteini. Gosið virðist vera blandað gos, og er nú á millistigi milli hraun rennslis og sprengigoss. Sennilega mun draga úr sprengingum enn frekar, enda eru öskuskýin lægri en áður. Eftir 25 mínútur steig skýjaþykknið og kaffærði okkur sýn. Okkar verki var lokið hvað varðar upptöku á sjónvarpsefni á toppnum, en við vorum ótrúlega heppnir að það birti til í þessar fáu og dýrmætu mínútur. Við snérum því til baka en ókum síðan inn í áttina að Þórsmörk þegar niður kom. Næst gengum við inn að sporði Gígjökuls niðri á láglendinu. Hér geysti fram mikill straumur af brúnu og leðjukenndu vatni út um gljúfur í móberginu við rætur jökulsins. Í flóðvatninu var ógrynni af ísmolum og mikið af sandi og ösku. Þetta er auðvitað hlaupvatn sem myndast vegna bráðnunar jökulsins í snertingu við hraunkviku í grennd við gíginn. Nú verður spennandi að sjá hraunið koma framúr sporði Gígjökuls einhvern næstu daga. Starfi okkar var lokið við þetta Ginnungagap í rótum Gígjökuls, þegar lögreglan kom og skipaði okkur að halda strax á braut frá hættusvæðinu, enda getur koltvíoxíð og önnur gös komið hér fram og safnast fyrir í hættulegu magni.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Eyjafjallajökull | Breytt s.d. kl. 18:11 | Facebook
Athugasemdir
Nú færir Míla okkur í mynd frá Þórólfsfelli mynd frá mikilli gufu í sporði Gígjökuls. Líklega er hraunið að nálgast neðstu brún jökulsins.
Gott að sjá þetta í beinni. Ég horfði á Eyjagosið úr vélinni á Klifinu 1973. Nú eru þær þrjár Míluvélarnar sem færa manni myndir að austan.
Njörður Helgason, 2.5.2010 kl. 20:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.