Bólstraberg


Bólstraberg á hafsbotniAlgengasta hraun tegund á jörðinni er bólstraberg, en samt sjáum við þessa bergtegund mjög sjaldan.  Enda er hún nær eingöngu sjáanleg á hafsbotni.  Það má segja að bólstraberg myndi meiri hluta hafsbotns heimshafanna.  Bólstraberg myndast þegar basalt hraun rennur neðansjávar, eða í vatni á miklu dýpi.  Bólstraberg nefnist  Kissenlava á þýsku,  pillow lava á ensku,  og lave en coussin á frönsku.  Þetta er mjög skrítinn steinn, þar sem hnöttóttir eða pylsulaga bólstrar af basalti, um einn til hálfur meter í þvermál,  eru í stórum stöflum.  Bólstraberg SeljafelliÁstæðan fyrir því að basalt hraun myndar bólstra, hnetti eða pylsur neðansjávar er sú, að snögg kólnun kvikunnar gerir glerkennda og nokkuð sterka húð utan um kvikuna, og hún þenst út til að mynda bólstra. Bólstrinn rifnar vegna innri þrýstings, og kvika kreistist út eins og út úr tannkremstúbu, og annar bólstri myndast, og svo koll af kolli.  Ísland er einn af þeim fáu stöðum þar sem bólstraberg sést ofansjávar, og hér er betra að rannsaka þetta merka fyrirbæri en nokkur staðar á jörðu. Það stafar af því, að þegar gos urðu undir jökli á ísöld hér á landi myndaðist mikið magn af bólstrabergi, sem er nú sjáanlegt í sökklinum á mörgum móbergsfjöllum lands vors.  Hér er til dæmis mynd af bólstrabergi við rætur fjallsins Seljafells á norðanverðu Snæfellsnesi.  Hin myndin fyrir neðan er af bólstrabegi í Miðfelli við Þingvallavatn.  Bólstraberg Miðfelli

Það var jarðfræðingurinn Guðmundur Kjartansson sem fyrstur áttaði sig á því um 1960 að bólstraberg myndaðist undir jökli á Íslandi á ísöld. Hann sá einnig að bólstrabergið var neðst í móbergsfjöllunum, en þar fyrir ofan kom móberg.  Við vitum nú að bólstraberg myndast aðallega á töluverðu dýpi í sjó eða vatni, og sennilega þar sem dýpi er um eða yfir 300 metrar.  Þar er þrýstingur nægur til að koma í veg fyrir gufusprengingar.  Á minna dýpi er þrýstingur svo lágur, að vatn sem kemur í snertingu við bólstrana sýður og þenst út mikið við suðu.  Þenslan er svo mikil og snögg að gufusprengingar  tæta í sundur  heita bólstrana  og mynda salla og sand sem síðar rennur saman í stein sem við nefnum móberg. 

Myndun bólstrabergs er bein afleiðing af snöggri kólnun kvikunnar. Sambærilegt er fyrirbærið ef þú lætur kertavax leka út í vatn. Þá myndar það hnöttóttar kúlur.  Einnig gerist þetta ef bráðið bý lekur út í vatn. Þá myndast einnig hnöttóttar kúlur, enda er sú aðferð notuð til að búa til byssuhögl af blýi.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Haraldur

ég vil byrja á því að þakka þer fyrir fræðsluerindið sem þu hélst í húsakynnum Ferðafélags Islands nú á dögunum.

Mig langar að nota tækifærið og bera upp spurningu sem ég gleymdi að bera upp þá;

Nú þegar gosi er lokið að því er virðist, hvenær má reikna með að hægt verði að ganga yfir hið nýja hraun ?

 Með fyrir fram þökkum,

Rósa Sigrún

Rósa Sigrún Jónsdóttir (IP-tala skráð) 13.4.2010 kl. 16:12

2 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Að mínu áliti er strax hægt að ganga á hrauninu. Það er rétt að benda á að eðlisþyngd hrauns er um 2700 gk á rúmmeter. Eðlisþyngd mannsins er um 1000 kg á rúmmeter;  við fljótum flest í sundlaug, og því er klárt að eðlisþyngd okkar er minni en hraunkviku.  Auk þess er kvikan að mestu leyti storknuð.  Ég vil samt benda á að það er ekki ráðlegt að stoppa úti í hrauni, heldur bst að halda vel áfram.  Hitinn er enn töluverður, og því hætta á að bræða skósóla ef stoppað er.  Í Surtseyjargosinu gengum við oft yfir rennandi hraun, án vandræða. Góða ferð!

Haraldur Sigurðsson, 13.4.2010 kl. 19:36

3 identicon

er ekki fínt að senda nokkra ofurhuga yfir til að móta nýjan göngustíg fyrir sumarið, svona á meðan hraunið er enn heitt - hamra járnið á meðan það er heitt ;)

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 13.4.2010 kl. 21:39

4 Smámynd: Njörður Helgason

Er að spá hvort það sé ekki rétt munað að ég hafi séð bólstraberg í gili Hólmsár, rétt ofan brúnnar hjá Hrífunesi í Skaftártungu?

Njörður Helgason, 13.4.2010 kl. 23:45

5 identicon

Það er rétt að fara varlega.  Það var nú jarðskjálftahrina rétt í þessu í Eyjafjallajökli

jonas (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 00:45

6 Smámynd: Haraldur Sigurðsson

Ég hef ekki skoðað gil Hólmsár, en hlakka til að kíkja á þetta í næstu ferð austur.

Haraldur Sigurðsson, 14.4.2010 kl. 07:28

7 identicon

Það er rosa flott bólstraberg efst á Þorbjarnarfelli hjá Grindavík, hjá Þjófagjá.

Magnús Axelsson (IP-tala skráð) 14.4.2010 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband