Þrjú Eldgos mynda þrjú Stöðuvötn
18.3.2010 | 23:04
Eitt heimsmet í viðbót á Íslandi og þetta er ekki miðað við fólksfjölda! Hvergi á jörðu er landmótun hraðari en hér, en það orsakast vegna hraðrar upphleðslu lands af völdum eldfjalla og niðurrifs lands af völdum skriðjökla. Ég tek hér sem dæmi eitt fyrirbæri landmótunar á Snæfellsnesi, en það er tengt myndun stöðuvatnanna Baulárvallavatns, Hraunsfjarðarvatns og Selvallavatns. Eftir að þjóðvegurinn var færður til frá Kerlingarskarði yfir á Vatnaheiði, þá hefur þetta landsvæði orðið vel aðgengilegt ferðamönnum. Í næstu ferð þinni yfir heiðina er því upplagt að velta fyrir sér myndunarsögu veiðivatnanna og fjallanna sem skilja þau að: Vatnafells og Horns. Vötnin og fellin á milli þeirra eru tiltölulega ung. Um miðja ísöld lá mikill dalur þvert í gegnum Snæfellsnes fjallgarðinn, og var hann opinn til norðurs, til Hraunsfjarðar í norðvestri og Breiðafjarðar í norðaustri. Dalurinn hefur verið skorinn af verkan skriðjökla á ísöld. Vatnaskil í dalnum voru þar sem nú er útrennslið eða ósinn í Baulárvallavatni, upptök Straumfjarðarár. Nú í dag myndar Horn vatnaskilin, langt fyrir norðan. Sennilega hefur Bjarnarhafnarfjall verið eyja á þeim tíma, en síðari eldsumbrot á nútíma áttu eftir að tengja þessa háu og myndarlegu eyju við meginlandið. Á síðasta hlýskeiði ísaldarinnar, fyrir um það bil eitt hundrað og tuttugu þúsund árum, hófst mikið eldgos í suður hluta dalsins. Hér gaus grágrýtishraunum og gosið hlóð upp eldfjallinu sem við nefnum Vatnafell (345 m). Grágrýtið í Vatnafelli er mjög sérkennilegt, en það inniheldur stærstu steindir eða kristalla af biksvörtu pyroxen sem ég hef séð á Íslandi, allt að 5 sm í þvermál. Hið nýja eldfjall myndaði mikla stíflu í dalinn og þar á bak við safnaðist fyrir stöðuvatnið Baulárvallavatn, sem í dag er um 47 metra djúpt og um 193 metrar yfir sjávarborð. Á síðasta jökulskeiði gaus aftur í dalnum, en nú norðar. Þetta gos hófst undir jökli og ég giska á að það hafi orðið fyrir um fimmtíu þúsund árum. Fjöldi sprenginga varð vegna samspils heitrar kviku og vatns í jöklinum, og móbergsfjallið Horn (406 m) hlóðst upp. Það myndaði enn aðra stíflu í dalnum, og bak við það safnaðist Hraunsfjarðarvatn, um 84 metra djúpt og 207 metrar yfir sjó. Þegar ísöld lauk fyrir um tíu þúsund árum var mjög grunnt sund eða vogur milli Bjararhafnarfjalls og lands fyrir sunnan. Hér opnaðist sprunga með vest-norðvestur stefnu í vestasta hluta goskerfisins sem við kennum við Ljósufjöll. Gos hófst á sprungunni fyrir um fjögur þúsund árum, og hér rann Berserkjahraun. Gígarnir voru margir, en stærstir þeirra, frá austri til vesturs, eru Rauðakúla, Gráakúla, Smáhraunskúla og Kothraunskúla vestast. Gjallgígarnir og hraunið myndaði eina stífluna enn, og þar á bakvið er Selvallavatn, sem hét Svínavatn á landnámsöld. Þð er örgrunnt og aðeins 62 metrar yfir sjó. Þannig hefur rof og eldvirkni mótað þetta fagra svæði, skapað veiðivötnin og sérstæða náttúru. En því miður voru mestu náttúruspjöll sem gerst hafa á Snæfellsnesi framin hér þegar Múlavirkjun var reist. Þá voru gerðir tveir stíflugarðar, annar í Vatnsána á milli Hraunsfjarðarvatns og Baulárvallavatns og hinn við ósinn á Baulárvallavatni. Garðarnir eru allt að 5 metrum hærri en fyrra vatnsborð og hækkuðu vötnin sem því nemur. Af þeim sökum hefur orðið mikið bakkarof og hrygningarstöðvar urriðans í vötnunum skemmdar. Aku þess varð mikið rask á svæðinu vegna vegagerðar og annara framkvæmda. Af einhverjum undarlegum ásæðum var ekki látið fara fram mat á umhverfisáhrifum áður en þessar framkvæmdir hófust.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Snæfellsnes | Facebook
Athugasemdir
Þakkir fyrir þennan fróðleik. Þetta er svæði sem ég farið mikið um, en ekki haft hugmynd um tilurðina. Náttúruspjöllin eru ömurleg og enn eitt dæmið um andlega fátækt manna en mikla þörf fyrir meira gull í vasa. Menn lofuðu öllu fögru og sviku það áður en orðin þögnuðu og véluðu við sjálfan sig.
Kveðja, Gunnar.
Gunnar Gunnarsson (IP-tala skráð) 18.3.2010 kl. 23:59
Bestu þakkir fyrir fróðlegan pistil um einstakt svæði. Ef ég má gefa ráð, notaðu oftar greinaskil. Það fer betur á því og greinin verður auðlesnari, jafnvel millifyrirsagni.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.3.2010 kl. 09:14
Takk fyrir þetta. Ég hef sleppt greinaskilum til þessa til að spara pláss, en sé nú að það er óþarfi.
kv
Haraldur
Haraldur Sigurðsson, 19.3.2010 kl. 09:16
Takk fyrir frábæra umfjöllun um ýmislegt efni tengt jarðfræði. Þar er svo sannarlega kjöt á beinunum, burséð frá öllum greinaskilum;-)
Það er, því miður, mikið umhugsunarefni að hinar svokölluðu smærri virkjanir skuli vera undanþegnar umhverfismati. Svona fer þetta þegar menn kunna ekki að umgangast það frelsi sem þeim er veitt.
Múlavirkjun er dæmi um þetta, og einnig virkjanir í Djúpadalsá í Eyjafirði. Þar varð stíflurof með tilheyrandi flóði, og munaði engu að manntjón yrði.
Norðurorka á Akureyri hefur verið kærð vegna tilraunar til tryggingarsvika vegna málsins.
einsi (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 22:59
Fróðlegur pistill. Takk!
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.3.2010 kl. 06:06
Takk fyrir mjög fróðlegan pistil, ég fer amk. einu sinni á hverju sumri um þetta svæði og er nú margs vísari!!
Jón Ingi Kr. (IP-tala skráð) 29.3.2010 kl. 09:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.