Eldfjallið Ararat og Örkin hans Nóa
13.3.2010 | 14:43
Í Eldfjallasafni í Stykkishólmi sýnum við olíumálverk af eldfjallinu Ararat í Tyrklandi, eftir armeníumanninn H. Baghdasarian, frá 1922, en myndin er hér til hliðar. Ararat er eitt af hinum frægu fjöllum heims, vegna orðróms sem komst á kreik á fimmtu öld um að þar hefði örkin hans Nóa strandað þegar syndaflóðinu fjaraði út. Ég tel að ég geti sannað að þetta málverk er af eldfjallinu Ararat, sem er á landamærum Armeníu, Tyrklands of Íran. Berið málverkið saman við myndina fyrir neðan, en hún er af Ararat eldfjalli, eins og það kemur fyrir á Google Earth. Niðurstaðan er augljós. Ararat hefur reyndar tvo fjallstoppa. Annar, og sá hærri, nefnist Agri Dagi á tyrknesku, sem er 5165 metrar á hæð og þar með hæsta fjall Tyrklands, en hinn toppurinn er miklu reglulegra eldfjall eða keila, sem nefnist Kucuk Agri Dagi (Litla Ararat), og er 3925 metra hátt. Eftir forminu að dæma er Litla Ararat yngra og virkara eldfjall. Sögusagnir eru um að síðast hafi gosið hér árið 1840.
Baghdasarian virðist hafa málað aðra mynd af Ararat árið 1920, en hún er sýnd hér fyrir neðan. Hún var seld á uppboði hjá listaverkasalanum Christies í London árið 2003. Christies taldi myndina vera af Mexíkódalnum, og sýna eldfjöllin Ixtlahuacán og Popocatepetl. Það er því rangt, eins og sýnt er hér fyrir ofan. Við vitum öll að það er ekki alltaf hægt að treysta listaverkasölum.
Biblían segir að örkin hans Nóa hafi strandað í landinu Ararat eða í Armeníu. Ekki er þar minnst á fjallið Ararat. Þegar klerkurinn Philostorgius (ca. 364 425 e.Kr.) skráði sögu kristinnar kirkju í Konstantínópel, þá taldi hann að örkin hefði strandað á Ararat fjalli. Það er hinn eiginlegi uppruni sagnarinnar um Ararat. Mikill fjöldi leiðangra hefur verið gerður út til að finna leifar af örkinni á Ararat, og allar tilraunir eru árangurslausar til þessa.
Austur hluti Tyrklands er eitt af flóknustu svæðum jarðar hvað snertir flekahreyginar og jarðfræði, eins og kortið sýnir. Hér eru stórir jarðskjálftar tíðir, enda er jarðskorpunni skift í marga litla fleka, sem nuddast stöðugt saman eins og ísjakar á straumvatni. Arabíuflekinn sígur undir Evrasíuflekann og Íran til norðurs, og ein afleiðing þess er eldvirknin sem hefur myndað Ararat. Fyrir um 20 árum hafði einn af ritstjórum National Geographic tímaritsins samband við mig, og vildi fá álit mitt á ljósmynd sem var tekin í grennd við Ararat. Hún sýnir fyrirbæri sem er eins og bátur í laginu. Ég taldi að þetta væri jarðmyndun, þar sem hörðnuð setlög hafa myndað fellingu, eins og síðar kom í ljós. National Geographic ákvað að láta málið niður falla og birti ekki myndina í ritinu.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Eldfjallalist, Menning og listir | Breytt s.d. kl. 14:57 | Facebook
Athugasemdir
Þakka fyrir marga fróðlega pistla Haraldur. Bloggið þitt er með því albesta sem gerist á íslensku.
Ólafur Eiríksson, 13.3.2010 kl. 15:44
Takk fyrir þetta, Ólafur.
Kveðja
Haraldur
haraldur sigurðsson (IP-tala skráð) 13.3.2010 kl. 17:00
Takk fyrir allan þinn fróðleik. Les þig ávallt.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 13.3.2010 kl. 17:15
Takk fyrir áhugaverða pisla, það eru svona skrif sem fær mann til að gleyma argarþrasi hversdagsins sem er að gera alla vitlausa.
Sigurður Ólafsson (IP-tala skráð) 13.3.2010 kl. 23:10
Getur það verið Haraldur, að þú hafir átt þátt í að þagga niður einn merkilegasta fornleifafund veraldar, þegar Ron Wyatt fann Örkina hans Nóa?
Gæti hugsanlega verið hann þarna á myndinni:
Arnar, 15.3.2010 kl. 15:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.