Fleiri Hitamet en Kuldamet segja sína Sögu

 HitametÞið kannist öll við tilfinninguna.  Tvö skref áfram og svo rennur þú eitt skref til baka þegar þú gengur upp bratta skriðu.   Er það svona með hægfara loftslagsbreytingar?   Þótt það hlýni, þá eru alltaf kuldaköst öðru hvoru.  En ef til vill er hægt að sjá heildarferilinn ef maður lítur á hitametin í lángri röð af veðurfarsgögnum.  Veðurfræðingurinn sem flytur veðurfréttirnar í sjónvarpinu bendir alltaf á ný hitamet: “Hitinn í gær, 24. júlí, setti nýtt met á þessari veðurstöð.”  Eða: “Dagurinn í gær, 12. janúar, mældist kaldari hér en nokkru sinni fyrr.”  Nú hefur verið gerð samantekt á öllum hita- og kuldametum í Bandaríkjunum fyrir allar veðurstöðvar þar í landi sem hafa verið reknar síðan 1950 (utan Alaska).  Gerald Meehl og félagar birtu grein nýlega í ritinu Geophysical Research Letters um þetta efni, sem eru byggðar á athugunum frá um 1800 veðurathuganastöðvum í Bandaríkjunum síðan 1950.  Niðurstöðurnar eru nokkuð fróðlegar.  Frá árinu 2000 til þessa árs sýna þær  alls 291237 hitamet en aðeins 142420 kuldamet.  Ef hitafar eða loftslag væri stöðugt, þá væru auðvitað jafn mörg hitamet og kuldamet í skránni, en svo er ekki, og telja höfundarnir það góða vísbendingu um hýjun jarðar, a.m.k. í Bandaríkjunum.  Myndin sem fylgir sýnir hlutfallið á hita- og kuldametum í Bandaríkjunum fyrir áratugina frá 1950 til 2009.  Það er greinilegt að hitametin eru fleiri á seinni áratugum, og fer munurinn vaxandi. Hlutfallið síðasta áratuginn sýnir að hitamet eru meir en tvisvar sinnum fleiri en kuldamet. 

Það væri auðvitað fróðlegt nú að sjá hver hlutföllin milli hita- og kuldameta hafa verið á Íslandi.  Hjá Veðurstofu Íslands er til tafla á vefnum yfir hæsta hita á öllum veðurstöðvum á Íslandi, en því miður ekki fyrir lægsta hita, og er því ekki hægt að gera samanburð við þessa fróðlegu greiningu í Bandaríkjunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Já þetta segir sitthvað, þó svo það sé nokkuð massívur áróður í hina áttina í BNA þessa stundina vegna þess að veturinn virðist vera nokkuð harður á köflum, sjá t.d. mýtu af Loftslag.is, Það er kalt á Klonke Dinke og því er engin hnattræn hlýnun

Sveinn Atli Gunnarsson, 12.3.2010 kl. 21:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband