Leyndardómar Búlandshöfða
21.2.2010 | 17:29
Sagan byrjar sumarið 1902. Dag einn reið í hlað í Mávahlíð á norðanverðu Snæfellsnesi ungur og efnilegur jarðfræðingur. Þetta var dr. Helgi Pjeturss (1872-1949), sem hlaut síðar doktorsgráðu í jarðfræði árið 1905, fyrstur íslendinga. Hann fær fjórtán ára pilt frá bænum í fylgd með sér, Helga Salómonsson, sem síðar varð landsfrægur upplesari í Ríkisútvarpinu og rithöfundur, en hann tók sér síðar nafnið Helgi Hjörvar (1888-1965). Sveitarpilturinn þekkti vel til í Fróðárhreppi og hann mun hafa bent jarðfræðingnum á forn jarðlög með steingerðum skeljum í fjallinu Búlandshöfða, rétt fyrir ofan Mávahlíð. Þeir byrjuðu að grúska í gilinu beint fyrir ofan bæinn Mávahlíð (sjá mynd) en síðar fóru þeir norður fyrir, upp í sjálfan Búlandshöfðann. Þar með hófst rannsókn Helga Pjeturss á Búlandshöfða og nærliggjandi fjöllum, en hér gerði hann eina af sínum merkustu uppgötvunum. Á bergbrún Búlandshöfða í um 130 til 150 m hæð fann Helgi Pjeturss jökulrispur á yfirborði blágrýtismyndunarinnar, og ofar fann hann steinrunna jökulurð, sem var vitnisburður um fyrsta jökulskeið hér. Enn ofar fann hann setslög með skeljaleifum, sem sýndu að sjávarstaða hafði verið miklu hærri. Þar ofaná kom grágrýtishraunlag sem var jökulsorfiða að ofan, og þar með vitneskja um annað jökulskeið. Síðari aldursgreiningar hafa sýnt framá að hraunið er um 1,1 miljón ára gamalt, en setlögun sem liggja undir eru allt að 1,8 miljón ára. Efst fann Helgi móbergsfjöllin eins og Höfðakúlur, sem hafa gosið á síðasta jökulskeiði. En skeljategundirnar í setinu gefa miklar upplýsingar um loftslag og hita sjávar á þessum tímum. Neðri hlutinn á sjávarsetinu inniheldur skeljategundir eins og skelina jökultoddu Portlandia arctica sem bendir til þess að sjór hafi verið mjög kaldur. Efri hluti setsins í Búlandshöfða er siltkennt, og inniheldur það nútímaskeljar eins og krækling, kúskel og nákuðung, sem hafa þrifist í heitari sjó. Í þessum sjávarsetlögum koma því vel fram miklar loftslagssveiflur á ísöld. Ári seinna, 1903, birti Helgi Pjeturss niðurstöður sínar varðandi Búlandshöfða: On a shelly boulderclay in the so-called Palagonite formation of Iceland. Greinin kom út í vel þekktu tímariti Jarðfræðafélags Bretlands, en Helgi var metnaðargjarn, og hafði snemma áttað sig á því að það var nauðsynlegt að kynna verk sín í hinum enskumælandi heimi. Fyrir hans daga höfðu flest jarðfræðirit um Ísland verið á dönsku eða þýsku. Helgi teiknaði tvö þversnið til að skýra jarðlagaskipan, annað í fjallinu fyrir ofan Mávahlíð, en hitt af Búlandshöfða, sem fylgir hér með. Í jarðlagasniðinu koma vel fram tvær mórenur eða jökulbergslög í gilinu fyrir ofan Mávahlíð.Doktor Helgi minnist sérstaklega á sveitapiltinn Helga Hjörvar neðanmáls í grein sinni í riti breska jarðfræðifélagssins árið 1903, og tekur fram að Helgi Salómonsson hafi fundið ýmsar skeljar, þar á meðal Portlandia arctica. Þess ber að geta að bræður Helga Hjörvar voru allir mjög sérstakir menn: grásleppubóndinn Pétur Hoffmann í Selsvör, Lárus Salómonsson, frægasta lögga allra tíma, og Gunnar Úrsus Salómonsson, sterkasti maður Íslands. Forspil rannsókna Helga í Búlandshöfða hefur sína sögu, sem er tengt þróun jarðfræðinnar. Á nítjándu öldinni uppgötvuðu jarðfræðingar ísöldina, aðallega vegna rannsókna svisslendingsins Louis Agassiz, og lengi var haldið að hún hefði verið eitt samfellt jökulskeið. Myndin vaf mjög einföld: það kólnaði, jökulskjöldur myndaðist yfir norður og suðurhveli jarðar, og varði í langan tíma, en svo hlýnaði og jökulbreiðan hopaði. En þessi mynd var greinilega of einföld. Í bók sinni The Great Ice Age (1874) taldi skoski jarðfræðingurinn James Geikie að ísöldin skiftist í fimm jökulskeið. Í miklu og útbreiddu riti, sem kom út í þremur bindum árin 1901 til 1909 (Die Alpen im Eiszeitsalter) sýndu þýsku jarðfræðingarnir Albrecht Penck and Eduard Brückner framá að ísöldin var ekki einn samfeldur fimbulvetur, heldur skiftist hún í hlýskeið og fjögur jökulskeið, sem þeir skírðu Günz. Mindel, Riss og Würm það yngsta. Við vitum ekki hvað Helgi Pjeturss var vel lesinn á þessu sviði eða hvort hann hafði greiðan aðgang að erlendum vísindaritum, en alla vega vitnar hann í rit eldfjallafræðingsins Archibald Geikie, sem var bróðir ísaldar-Geikie.
Í framtíðinni munu vonandi fara fram ítarlegar rannsóknir á sögu jarðvísindanna á Íslandi, og ég er fullviss um að þær munu sýna að Helgi Pjeturss var langt á undan sinni samtíð varðandi ísöldina. Umhætti dr. Helga í leiðangri á þessum tíma er fróðlegt að lesa nánar hér
http://www.heimaslod.is/index.php/Blik_1969/Sumardvöl_Dr._Helga_Péturss#
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Loftslag | Breytt 3.3.2010 kl. 18:31 | Facebook
Athugasemdir
Kærar þakkir fyrir þennan læsilega og vel framsetta pistil. Tek undir með greinarhöfundi með að full ástæða er til að minnast brautryðjandastarfs dr. Helga Pjeturss og halda nafni hans á lofti.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 21.2.2010 kl. 18:32
Takk fyrir þennan góða pistil Haraldur.
Mig langar til að geta þess hér til gamans, að ég er uppalinn í Mávahlíð hjá afa mínum og ömmu, og heyrði því oft talað um skeljalögin sem dr. Helgi rannsakaði. Þegar ég var strákpjakkur lék ég mér mikið í klettunum umhverfis Mávahlíðargil, en ég var óbetranlegt klifurdýr á þeim árum. Núorðið fæ ég í iljarnar af því einu að rifja þessar klifurferðir upp í huganum.
Jóhannes Ragnarsson, 21.2.2010 kl. 19:07
Sæll Haraldur.
Dr. Helgi Péturss. mun hafa verið frábærlega skarpskyggn vísindamaður þótt hann hafi ekki verið óskeikull, fremur en aðrir. Vanheilsa og féleysi ásamt skilningsleysi samtímamanna á hæfileikum hans mun hafa orðið til þess að hann kom ekki eins miklu í verk í rannsóknum í jarðfræði og efni stóðu til. Að loknu námi fór hann í mikla rannsóknarferð til Grænlands en veiktist í ferðinni og þjáðist af svefnleysi alla æfi síðan. Hann fékkst við rannsóknir og túlkanir á draumum og setti fram kenningu um lífsamband í alheimi, sem hann kallaði "Hið mikla samband". Hann ritaði líka um það sem hann kallaði lífstefnu og helstefnu og taldi mannkynið ótvírætt fylgja helstefnunni. Kenningar sínar setti hann fram í ritinu Nýal, sem kom út í nokkrum bindum. Helgi var afar vel ritfær og er gaman að lesa rit hans. Félag var stofnað um kenningar hans í heimsfræðum, Félag Nýalssinna, en ekki veit ég hvort það er til ennþá.
Minningu frumkvöðla í rannsóknum á jarðfræði Íslands, manna eins og Þorvaldar Thoroddsens Og Helga Péturss, er verðugt að halda á lofti og stendur það næst þeim sem standa á öxlum þessarra manna. Þá á ég við íslenska jarðvísindamenn og samtök þeirra.
Kveðja. Þorvaldur Ágústsson.
Þorvaldur Ágústsson (IP-tala skráð) 21.2.2010 kl. 22:38
Að mínu áliti er Helgi Pjeturss einn af stærstu risunum meðal jarðfræðinga Íslands. Það geislaði gáfan og hæfileikarnir út úr þessu andliti. Því miður var erfitt fyrir hann að stunda sínar rannsóknir, vegna fjárskorts. Mann grunar að þá hafi bara verið pláss fyrir einn jarðfræðing á Íslandi. Hann afkastaði mjög miklu á stuttum ferli, og hver veit hvað hann hefði getað gert ef honum hefði verið veittur sá stuðningur sem þurfti. Saga hans sem vísindamanns er enn óskráð.
Takk fyrir
Kveðja
Haraldur
haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 21.2.2010 kl. 23:43
Ég er með bók eina í höndunum sem ber titilinn "Dr. Helgi Pjeturs og jarðfræði Íslands." Undirtitill er "Baráttusaga jarðfræðings í upphafi 20. aldar."
Bókin sem er eftir Elsu G. Vilmundardóttur, Samúel D. Jónsson og Þorstein Þorsteinsson kom út árið 2003. Bókin er 247 bls.
hp (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 00:03
Ég hef séð bók þessa og blaðaði í henni skömmu eftir að hún kom út. Satt að segja varð ég fyrir miklum vonbrigðum varðandi stutta umfjöllun um feril Helga sem vísindamanns, og skilning höfunda á uppgötvunum og framlögum hans til íslenskra vísinda.
Kveðja
Haraldur
haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 27.2.2010 kl. 00:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.