Enn eitt hitametið í viðbót!
22.1.2010 | 19:16
Á hverju ári heyrum við fréttir af nýju hitameti í veðurfari á jörðu. Það er enginn vafi að loftslag jarðar er að hlýna. Hins vegar er deilt um orsakirnar, en hnattræn hlýnun er staðreynd. Ég ætla ekki í þessum pistli að fara inn á það hættulega svið að ræða orsakirnar fyrir hnattrænni hlýnun, en það er nú orðið mjög pólitískt mál þar sem spekingar á við Al Gore, forseta Íslands og fleiri koma fram. Ég mun fjalla um það síðar, en einbeita mér að staðreyndunum í þetta sinn. Í gær birti NASA nýjustu niðurstöður. Þar kemur fram að síðasti áratugurinn (2000-2009) er sá hlýjasti síðan mælingar hófust um heim allan árið 1880, og 2009 er næsthlýjasta árið. Línuritið hér fyrir ofan sýnir niðurstöðurnar, bæði fyrir land og hafið, en annars er merkilegt að hlýnun hefur verið töluvert meiri á norður hveli jarðar. Það er vegna þess að það er meir en helmingi meira landsvæði á norður hveli jarðar, en á suður hveli. Norður hveli jarðar er því ríkjandi í magni lífrænna efna á yfirborði landsins og í framleiðslu og hringrás koldíoxíðs. Auðvitað eru sveiflur ár frá ári, en það sem skiftir máli er langtíma breytingin síðan 1880, en meðalhiti hefur stigið um 0,8oC á þeim tíma. Ég er jarðfræðingur, og hef því áhuga á því að athuga enn lengri tímaskala, og bera saman hitasveifluna á síðustu öld við hitasveiflur í jarðsögunni. Við getum til dæmis skoðað gögn frá ísborholunni GISP2 á miðjum Grænlandsjökli. Línuritið fyrir ofan sýnir hitaferil frá 1400 til 2000 á Grænlandi, samkvæmt mælingum á efnasamsætum í ísnum. Magn af efnasamsætum breytist í beinu hlutfalli við hitann þegar úrkoman verður, sem myndar ísinn. Hlýnun frá um 1850, eða síðan iðnbyltingin hófst, kemur vel fram á þessari mynd. Fyrir neðan er línuritið frá sömu borholu á Grænlandi sem nær yfir tímabilið 800 til 2000. Takið eftir hvað loftslag var miklu mildara á Landnámsöld, þegar forfeður okkar festu búsetu á Grænlandi, og hvað loftslagi hrakaði mikið á miðöldum, eins og við þekkjum vel úr Íslandssögunni. Það er því ljóst að stórar sveiflur eiga sér stað, og að miklar sveiflur hafa einnig orðið fyrir iðnbyltinguna. Boranir í þykkari og eldri ísinn á Suðurheimsskautinu hafa gert kleift að fara enn lengra aftur í jarðsöguna, eins og kemur fram á síðustu myndinni, sem er frá EPICA borholunni, en hún nær um 750 þúsund ár aftur í tímann. Það er strax ljóst að Grænland og Suðurheimskautið haga sér eins, hvað varðar loftslagssveiflur. Það er samsætan af þungu vetni eða deuteríum D sem er notuð hér sem hitamælir í ísnum. Tímabilin með lágt deuteríum eru jökulskeiðin á ísöld, en stuttu tímabilin með hátt deuteríum (og hærri hitastig) eru hýskeiðin, eins og það hlýskeið sem við nú búum við.Auk hitabreytinga gefa ísboranir okkur miklar upplýsingar um koldíoxíð í fornu lofti á fyrri árþúsundum. Ég mun blogga um það spennandi efni síðar. Það hefur MIKIÐ verið fjallað um loftslagsbreytingar og orsakir þeirra í blogginu á Íslandi, og vil ég þar nefna til dæmis miklar uplýsingar og skoðanir hjá Loftslag.is, agbjarn.blog.is, og esv.blog.is.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:19 | Facebook
Athugasemdir
Fyrir forvitna þá eru tenglar hér:
Sveinn Atli Gunnarsson, 22.1.2010 kl. 19:34
Mig langaði að benda á villu hér að ofan, myndirnar 2 sem eiga að sýna hitastigið frá 800-2000 og 1400-2000, ná ekki nema til ca. 1900 ef vel er að gáð. Allavega get ég ekki betur séð.
Þessu tengt má kannski benda á umfjöllun Loftslag.is á fyrri loftslagsbreytingum, Orsakir fyrri loftslagsbreytinga.
Sveinn Atli Gunnarsson, 23.1.2010 kl. 16:47
Leiðrétting móttekin. Auðvitað höfum við önnur gögn en ískjarna til að sýna hitann eftir 1900, og hefur hann verið á uppleið síðan. Oft er því þannig varið, að efsti hluti íssins (síðustu árin) í borkjörnum er ekki vel varðveittur, þar sem hann er lausari í sér.
haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 23.1.2010 kl. 17:45
En er öruggt, Haraldur, að kjarninn hafi allur varðveist vel þar sem hann hlýtur öll árin fljótlega eftir að hann myndaðist verið efst á jöklinum....?
Ómar Bjarki Smárason, 24.1.2010 kl. 18:46
Yfirleitt er bráðnun á sumrum mjög lítil á hájöklum Grænlands og Suðurskautsins, og úrkoman virðist varðveitast vel sem snjór sem breytist hratt í ís. Aldursgreiningar eru að hluta til tengdar öskulögum og brennisteins lögum sem finnast í jöklunum, og svo einfaldlega talningu á íslögunum niður kjarnann. Það virðist ekki vera nein deila lengur um aldursmælingar í jöklunum. Hins vegar má deila um túlkun lofthita út frá samsætumælingum á D eða deuteríum í ísnum. Eins og minnst er hér fyrir ofan, þá er allraefsti hluti kjarnans oft ekki vel varðveitur, þar sem holan byrjar. En úr þvi hefur oft verið bætt með greftri á djúpum snjógryfjum.
haraldur sigurdsson (IP-tala skráð) 25.1.2010 kl. 13:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.