Var búið að múlbinda Ítalska skjálftafræðinga?
25.8.2016 | 20:39
Hvað segja Ítalskir jarðvísindamenn um stóra skjálftann, sem nýlega reið yfir borgina Amatrice? Mig grunar að þeir segi ekki neitt af ótta við að verða dregnir fyrir dómarann. Skýringin er sú, að ítalskir jarðvísindamenn voru múlbundnir í réttarhöldum varðandi jarðskjálftann í LAquila árið 2009.
Hinn 6. apríl árið 2009 reið stór jarðskjálfti, af stærðinni 6,3 yfir fornu borgina LAquila á Ítalíu. Um 300 manns fórust. Nokkrum mánuðum áður fór að bera á tíðum smáskjálftum undir borginni. Almenningur varð órór, einkum eftir að amatör skjálftafræðingur spáði því að stór skjálfti væri yfirvofandi. Hans spádómur var byggður á vaxandi útstreymi af radon gasi úr jörðu, og sennilega var það rétt hjá honum. Hinn 31. mars 2009 hélt nefnd sérfræðinga opinn fund, til að fara yfir gögn frá jarðskjálftamælum á svæðinu og til að veita yfirvöldum góð ráð. Á fundi með fjölmiðlum á eftir, þar sem jarðvísindamennirnir Franco Barberi og Bernardo De Bernardinis mættu, lýstu þeir því yfir að það væru engar líkur á stórum skjálfta. De Bernardinis lýsti því einnig yfir að vísindamenn telji að það sé engin hætta vegna þess, að nú eru öflin í jarðskorpunni að eyðast í smáskjálftum. Þannig gerðu vísindamenn lítið úr hættunni, til að róa fólkið og til að eyða spádómum um stóra skjálftann. Af þessum sökum kusu flestir íbúar LAquila að vera um kyrrt innanhúss, í það þess að fara út á götu, eins og þau voru vön í jarðskjálfta. Þess vegna dó svo mikill fjöldi íbúa í húsum sínum í jarðskjálftanum einni viku eftir að vísindanefndin hafði fundað.
Réttarhöld voru haldin yfir vísindamönnunum sjö, og allir voru þeir sekir fundnir um manndráp í október árið 2012, eftir þrettán mánaða réttarhöld, sem dáleiddu vísindasamfélagið um heim allan. Myndin sýnir þá félagana sjö.
Skjálftakortið af Ítalíu
25.8.2016 | 16:50
Hér er gott kort af skjálftasvæðinu á Ítalíu, um 100 km fyrir norðaustan höfuðborgina Róm. Staðsetning stóru skjálftanna árin 1997 (Annifo, stærð 6,1 á Richter), 2009 (L'Aquila 6,3) og 2016 (Amatrice, 6,2) er sýnd með rauðum blettum. Aðrir minni skjálftar með gulum og brúnum merkjum. Allir skjálftarnir raða sér upp á línu, sem markar stefnu misgengja í jarðskorpunni efitr endilöngum hrygg Appennine fjallgarðsins. Þá er þessi hluti misgengjanna búinn að rifna. Næst rifnar skorpan væntanlega fyrir norðvestan eða suðaustan þessa svæðis. Skjálftin var á um 10 km dýpi, en slíkir grunnir skjálftar valda oftast meira tjóni.
Í óstjórnuðu landi hrynja húsin
25.8.2016 | 12:26
Þorpin Amatrice, Accumoli og Pescara del Tronto eru rústir einar og 247 eru látnir af völdum jarðskjálftans. En hvað er framundan? Eitt stærsta vandamál Ítalíu er, að lögum og reglum er ekki fylgt. Það er til dæmis búið að koma á mjög góðum reglum á ítalíu varðandi það að reisa húsbyggingar með tilliti til tíðra jarðskjálfta og einnig veitt mikið fé til að styrkja hin mörgu og fögru eldri hús landsins. En ekkert er gert, reglum ekki fylgt og menn yppa bara öxlum, með stæl. Peningarnir hverfa í vasa spilltra stjórnmálamanna eða verktaka tengdum mafíunni.
Af þeim sökum er hver einasti jarðskjálfti einn nýr harmleikur, sem ekkert er lært af. Og um leið hverfur af sögusviðinu merkileg forn byggð og dýrmætar minjar um forna frægð. Milljónir efra höfðu til dæmis verið veittar til að styrkja og verja sjúkrahúsið í Amatrice gegn jarðskjálfaskemmdum, en ekkert var gert og peningarnir horfnir. Nú er sjúkrahúsið rústir einar. Forna borgin Aquila er enn í rústum eftir jarðskjálftann árið 2009 (6,3 af stærð) og ekkert aðhafst þátt fyrir milljóna fjárveitingar. Spilling, skipulagðar glæpahreyfingar, ríkið og Páfagarður: þetta er ótrúleg blanda, sem kemur engu í framkvæmd nema illa fengnum auð í fáa einkavasa. Ég syrgi hina fögru Ítalíu, en ber um leið takmarkaða virðingu fyrir fólkinu, sem reynir ekki að hrista af sér þetta gjörspillta pólitíska kerfi. Myndin er frá Amatrice þorpi úr lofti.