Færsluflokkur: Rabaul
Þegar borgin Rabaul fór í eyði
18.6.2011 | 15:26


Strax í upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar réðust Ástralir inn í Kaiser-Wilhelmsland, og í stríðslok ráku þeir Þjóðverjana á brott, eftir mikið mannfall. Þá tók við landsstjórn Ástrala fram að síðari heimsstyrjöldinni. Í fyrstu gekk allt vel, en svo skullu hörmungarnar yfir á nýjan leik. Árið 1937 hófust tvö eldgos samtímis, bæði í Tavurvur og í Vulcan gígnum. Gosin árið 1937 voru mjög skaðleg, og 507 manns fórust í þorpum umhvefis Vulcan gíginn. Öskufall var gífurlegt í borginni, en hreinsun öskunnar var langt kominn þegar næstu ósköpin dundu yfir. Þegar Japanir hófu þátttöku í seinni heimsstyrjöldinni, þá var þeim ljóst að þeir þyrftu að ná yfirráðum í Rabaul, bestu höfninni í suður hluta Kyrrahafsins. Þeir gerðu því innrás árið 1941 og tóku Nýju Gíneu af Áströlum. Bandamenn voru mjög gramir yfir þessum óförum, og nú hófust stanzlausar loftárásir Bandarískra herflugvéla, sem vörpuðu miklu ógrynni af sprengjum á borgina. Brátt var Rabaul orðin eins og eyðimörk eftir sprengjuárasirnar, en Japanir grófu á meðan mikinn fjölda af jarðgöngum inn í fjöllin umhverfis, og komu sér fyrir neðan jarðar til að forðast sprengjurnar úr lofti. Enn í dag má jafnvel sjá kafbátabyrgi, sem eru inni í löngum göngum frá sjó. Eyðileggingin af völdum loftárása var algjör þegar stríðinu lauk árið 1945. Ástralir tóku við stjórn enn á ný, þar til nýja lýðveldið Papua Nýja Gínea var stofnað árið 1975. Rabaul reis af grunni aftur, og blómstraði fljótt í borg með meir en tuttugu þúsund íbúa. Fyrsta myndin hér fyrir ofan er tekin úr lofti og sýnir hvernig borin teygði sig umhvergis norður og austur hluta öskjunnar. Höfnin var ómissandi, einkum fyrir útflutning á kókoshnetuolíu og öðrum verðmætum frá plantekrum landsins.
Í september árið 1994 byrja báðir gígarnir, Vulcan og Tavurvur, aftur að gjósa samtímis. Ríkjandi vindátt bar öskuna beint yfir borgina. Innan skamms var komið eins meters þykkt öskulag yfir allan austur og suður hluta borgarinnar, þök féllu undan þunganum og hús hrundu. Neðri myndin sýnir eyðileggingu af völdum öskufallsins. Nær allar byggingar voru yfirgefnar og íbúarnir streymdu á brott. Alls lögðu 50 þúsund manns á flótta frá hættusvæðinu. Þeir settust að í nýrri borg fyrir sunnan öskjuna: Kokopo. Eina byggingin sem enn stóð er Rabaul Hotel, en eigandinn Susie McGrade neitar að gefast upp og heldur rekstri hótelsins áfram í gangi, úti í miðri auðninni. Framtíðin er ekki sérlega björt fyrir Rabaul, en höfnin góða er enn mjög mikilvæg og reyndar ómissandi fyrir þennan hluta Nýju Gíneu.
Rabaul | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eldstöðin Rabaul
17.6.2011 | 08:33

Rabaul | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)