Færsluflokkur: Endalok vaxtar
Annus Horribilis
29.12.2023 | 23:10
Árið er senn á enda og því tími kominn til að líta yfir farinn veg. Margt hefur gengið á, jarðskorpuhreyfingar og eldgos í næsta nágrenni, en það eru hnattrænar loftslagsbreytingar sem eru mér langefst í hug og í því sambandi er 2023 einstakt ár. Í síðust viku var sjávarhiti umhverfis Florida kominn upp í 38 oC. Þar sem ég dvel, í Massachussets í norðaustur hluta Bandaríkjanna, er hitinn í dag 10 oC. Hér hefur ekki enn komið frost, laukar spretta í görðum og grasið er grænt. Almeningur er á skyrtunni úti að ganga og fagnar góðviðrinu, en ég er mjög áhyggjufullur. Hnattræn hlýnun er stærsta ógnin sem blasir við mannkyninu. En eins og ég kem að síðar, þá er von um betra ástand í framtíðinni vegna samdráttar í fjölgun mannkyns.
Árð sem er að enda er hlýjasta árið síðan mælingar hófust, og einnig sennilega hlýjasta árið síðastliðin 125 þúsund ár. Þá var hlýskeið sem nefnist Eemian, hið síðasta fyrir ísöldina, sem lauk fyrir um tíu þúsund árum. Myndin sem fylgir fyrir ofan sýnir hvernig árið 2023 sker sig frá hinu venjulega ferli sem meðalhiti á jörðu sýnir hvert ár. Margir veðurfræðingar telja að með þessu sé að hefjast nýtt tímabil í veðurfari jarðar.
Þessi hnattræna hlýnun á loftslagi jarðar ógnar lífríki, gróðurfari, efnahag og afkomu alls mannkyns. Orsökin er fyrst og fremst útlosun af koldíoxíði, metan og öðrum gastegundum frá iðnaði og brennslu jarðefna, sem valda breytingum á lofthjúp jarðar og hlýnun.
Ein stærsta orsök sívaxandi útlosunar af skemmandi gastegundum og þar með hnattrænnar hlýnunar er offjölgun mannkynsins. Besti mælikvarðinn á offjölgun mannkyns á jörðinni er frjósemi kvenna. Hvað ber meðal kona í hverju landi mörg börn á ævinni? Á Íslandi er talan 1,6 árið 2022, sem er í meðallagi fyrir Evrópuland. En lítum til Afríku til að sjá offjölgun á fullri ferð. Heimsmetið á Niger í mið Afríku, með 6,8 börn á hverja konu að meðaltali árið 2021. Í Afríku allri er tíðnin um 4,3 börn.
Hagfræðingar segja okkur að þjóðir með háa fæðingatíðni verði aldrei ríkar, og stjórnendur í löndum ´´þriðja heimsins´´ keppast við að reyna að ná tíðninni niður sem fyrst. En í mörgum löndum, sérstaklega meðal múslima þar sem konur fá engu ráðið, er það talið aðalsmerki hvers karlmanns að eiga stóran barnahóp. Ekki bætir úr skák að fjölkvæni er stundað í um helming af Afríkuríkjum. Afganistan er eina landið í Asíu þar sem fæðingatíðni er mjög há (4,4) og má sjálfsagt kenna Taliban og múslimatrú þar um, enda er konum þar neitað um menntun.
Risarnir á landakortinu varðandi mannfjölda eru auðvitað Kína og Indland, en þessi lönd hafa náð fæðingatíðni langt niður, með frjósemi sem er nú um 1,28 í Kína og 2,05 á Indlandi. Kína þarf að passa sig á að fara ekki neðar, því það þarf frjósemi á 2,1 til að halda við mannfjölda, annars verður hröð fækkun. Á jörðu í heild hefur frjósemi hrapað frá 5,3 árið 1963, niður í um 2,3 í dag. Þetta er mikið átak og er þar sjálfsagt fyrst og fremst að þakka menntun kvenna. Þegar litið er á þessa þróun á jörðu í heild, þá er áætlað að mannfjöldi muni ná hámarki (10.9 milljarðar manna, sjá mynd til vinstri) í lok aldarinnar, árið 2100, eins og línuritið sýnir. Síðan mun mannkyni fækka. En þá verða fimm af tíu stærstu löndum jarðar í Afríku (Nígería, Kongo, Eþíópía, Tanzanía og Egyptaland).
Í upphafi þessa spjalls gaf ég von um að þróun mannfjöldans á jörðu kynni að hjálpa til með að stemma við hnattrænni hlýnun. Ef útblástur skaðlegra gastegunda minnkar að sama skapi og frjósemi staðnar og síðan lækkar (eftir 2100), þá má búast við að hnattræn hlýnun staðni að sama skapi. Það er því einhver von, en mannkynið þarf að bíða í eina öld áður en hlýnunin byrjar að snúa við.
Endalok vaxtar | Breytt 30.12.2023 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fólksfjölgun er enn stærsta vandamálið
21.4.2015 | 15:27
Lengi hefur það verið almennt haldið að draga myndi fljótlega úr hinum hraða vexti á fólksfjölda á jörðu. Nú reynist það rangt. Spár Sameinuðu Þjóðanna hafa alltaf reynst rangar. Fólksfjölgun er enn mjög mikil og hefur það bein áhrif á loftslagsbreytingar. Mannfjöldinn á jörðu tvöfaldast nú á aðeins um 40 árum. Þannig fjölgaði okkur frá 3 milljörðum árið 1960 til 6 milljarða árið 2000. Línuritið í fyrstu mynd sýnir þróunina og það er ljóst að lítið hægir á fjölguninni. Takið eftir að lóðrétti ásinn er logri eða logariþmi, í milljörðum. Við bætum við um 82 milljónum á hverju ári, sem er eins og eitt Þýskaland bætist við mannfólkið á jörðu á hverju ári. En fjölgun mannkyns dreifist nú öðruvísi en áður var. Viss lönd, einkum Kína, hafa náð góðri stjórn á fólksfjölda með ástundun og mikilli hörku, en í mörgum öðrum löndum, einkum í Afríku, er fjölgunin enn mjög mikil. Fjölgun á jörðu skapar mörg vandamál. Eitt er að fæða allt þetta fólk, en hitt gleymist oft að fólksfjölgun hefur bein áhrif á hnattræna hlýnun. Við brennum og borðum auðvitað í réttu hlutfalli við fólksfjöldann. Með fólksfjölgun fylgir vaxandi losun lofttegunda, sem valda vaxandi gróðurhúsaáhrifum. Um þetta hefur Stephen G. Warren fjallað nýlega í vísindaritinu Earth´s Future. Stóra málið á bak við fjölgun mannkyns er frjósemi kvenna, eða fjöldi barna sem hver kona ber. Í Asíu hefur frjósemi minnkað úr 5,9 börnum á hverja konu árið 1950, niður í 2,2 börn árið 2013. Í Afríku stendur frjósemin hins vegar í stað, um 4,8 börn á hverja móður. Í Evrópu og Norður Ameríku er hún aðeins 1,6 og 1,9 börn á hverja móður. Frjósemi á Íslandi hefur breyst mjög hratt á síðustu öld. Frjósemi á Íslandi var hærri en annars staðar í Evrópu á fyrri árum. Eins og línuritið sýnir, þá var frjósemi kvenna hér á landi um 4,0 í kringum 1950 til 1960, en hefur svo lækkað um helming, niður í um tvö börn á hverja konu.
Vöxtur eða fjölgun allra tegunda í lífríkinu heldur áfram þar til einhver utanað komandi áhrif stöðva hann. Það geta verið takmarkanir eins og fæðuskortur, sjúkdómar, styrjöld, eða umhverfistruflun (loftslagsbreytingar ofl.). Páskaeyja í Kyrrahafi er eitt lítið dæmi. Þessi einangraða eldfjallsey var uppgötvuð í kringum 600 e.Kr. og aðeins 20 til 30 Polynesar komu hingað í smábátum. Þeim fjölgaði og árið 1600 voru þeir orðnir um 6000 að tölu. Þá var mannþröng svo mikil á eynni að allir skógar voru höggnir, hungursneyð ríkti, styrjöld og mannaát tók við. Mannfræðin sýnir okkur að þessi offjölgun á Páskaeyju varð vegna þess að frjósemin var um eða yfir 2,3. Það þarf ekki mikið til að koma kerfinu í algjört öngþveiti.
Kína er alveg sérstakt tilfelli, sem vísar okkur veginn í stjórn fólksfjölgunar á jörðu. Í Kína var frjósemi lengi um sex börn allt til 1970, eins og línuritið sýnir. Þá innleiddi stjórn landsins harða stefnu um eitt barn, og síðan hefur frjósemi fallið niður í 1,8. Það er magt sem hefur áhrif á frjósemi kvenna yfir leitt. Til dæmis er frjósemi í öfugu hlutfalli við menntun. Annað mikilvægt atriði er að getnaðarvarnir séu fyrir hendi í þjóðfélaginu. Ef til vill er mikilvægasta atriðið samt einfaldlega frelsi kvenna til að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Frjósemi er há á svæðum þar sem trúarofstæki er ríkjandi, eins og til dæmis meðal mormóna í Utah í Bandaríkjunum og í Ísrael. Sínasta línuritið sýnir svo frjósemina í Kína.
Kjarnorkuvetur eftir stríð milli Indlands og Pakistan
8.1.2015 | 08:59
Kjarnorkustyrjöld milli stórveldanna væri svo hryllileg tilhugsun, að hún virðist óhugsandi. En styrjöld milli tveggja ríkja, sem hafa yfir einhverjum kjarnavopnum að ráða, er alls ekki svo fjarstætt dæmi. Ísrael og Íran? Jú, þeir hata hvorn annan, múslimar öðru megin og gyðingar hinu megin. Ísrael hefur átt kjarnorkusprengjur í meir en 20 ár. En Íran ekki ennþá. Indland og Pakistan? Hér er stóra vandamálið. Þar er hatrið ekki síðra, hindú trú öðrumegin og múslimar hinumegin og fullt af sprengjum þegar fyrir hendi á báða bóga. Á meðan Ameríkanar hafa reynt að koma í veg fyrir að Íran komi sér upp kjarnavopnum, þá hefur Pakistan haldið stöðugt áfram að bæta við vopnabúr sitt. Nú er talið að Pakistan hafi á milli 100 og 120 kjarnorkusprengjur, en Indland, nágranninn fyrir sunnan, hefur um 90 til 110 kjarnavopn. Sérfræðingar telja því að langlíklegasta kjarnorkustyrjöldin í framtíðinni sé á milli Pakistan og Indlands. Pakistan hefur fremur lélegan her, og hugsar sér því að vinna slaginn strax með stórum sprengjum, sem að sjálfsögðu leggja bæði löndin í algjöra auðn. Michael J. Mills og félagar (2014) hafa nýlega birt merkilega grein í vísindaritinu Earth´s Future um áhrif slíkrar styrjaldar á loftslag á jörðu. Hér er loksins komið fram það vísindarit, sem margir hafa beið eftir, helgað því að beita vísindunum til að spá fyrir um framtíðina hugsanlega, raunverulega eða ímyndaða framtíð. Í líkani þeirra byrja þeir með kjarnorkustyrjöld, þar sem hvor þjóð beitir 50 kjarnorkusprengjum og er hver sprengja jafn stór og sú sem grandaði borinni Hiroshima í Japan árið 1945, eða jafnt og 15 kílótonn af venjulegu sprengiefni. Eitt kílótonn er eitt þúsund tonn, og er ein Hiroshima kjarnsprengja því jafn kraftmikil og 15 þúsund tonn af venjulegu sprengiefni. Þetta er þá um eða undir helmingur af vopnabúrinu í hverri þjóð. Bruni borganna leiðir af sér sót ský, sem rís upp í heiðhvolf og reiknast magn sóts um 5 Tg eða 5 milljón tonn. Þegar stórborg brennur, þá er hitinn svo gífurlegur að jafnvel tjaran í malbiki gatnanna brennur líka. Sótið sem myndast dreifist jafnt um heiðhvolf umhverfis jörðu. Eins og sést á annari mynd, þá er magn af sóti í lofti mjög hátt fyrsta árið en varir allt að 13 ár um heim allan. Sót hefur þann hæfileika að það drekkur í sig og endurvarpar meira magni af sólargeislum en nokkuð annað efni. Það hleypir því mjög litlu af sólargeislum niður til jarðar. Þetta veldur því að heiðhvolf hitnar en jörðin kólnar að sama skapi. Eftir 13 ár hefur megnið af sóti fallið til jarðar og áhrifin dvína. Yfirborðshiti jarðar kólnar um 1,1 gráðu um heim allan fyrsta árið og heldur áfram að kólna í fimm ár, niður um 1,6 gráður. Þá byrjar jörðin aftur að hlýna. Úrkoma minnkar í meir en einn áratug um heim allan. Hafís breiðist hratt út fyrstu fimm árin á norðurslóðum, eins og önnur mynd sýnir (bláa línan), og enn meir og lengur á suðurskautinu (rauð lína) í um 20 ár. Heimshöfin kólna í allt að 20 ár niður á 300 metra dýpi.
Vegna þess að heiðhvolf hlýnar um allt að 30 stig, þá verður stórfelt tap af ósón frá lofthjúp jarðar. Af þeim sökum streyma útfjólubláir geislar sólarinnar óhindrað niður á jörðina árum saman og valda sjúkdómum, stökkbreytingum og krabbameini. Þannig mætti lengi telja, því Mills og félagar hafa gert líkan einnig af áhrifum á landbúnað og fleira. Hörmungarnar eru ótrúlegar, þótt aðeins sé um að ræða styrjöld með 100 kjarnavopn. Gleymum því ekki, að Rússar og Bandaríkjamenn eiga sennilega ennþá um 10 til 20 þúsund kjarnavopn í sínum vopnabúrum í dag. Samt sem áður trúi því að kjarnorkuver séu ein skynsamlegasta orkulind mannkyns í framtíðinni, en kjarnavopn geta líka bundið enda á okkar skammvinna skeið á jörðu.
Endalok vaxtar | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Kjarnorkuvetur og útdauði tegundanna
6.1.2015 | 04:12
Það var á tímum kalda stríðsins, um 1980, að vísindamenn fóru að rannsaka hvaða hnattræn áhrif gætu orðið af kjarnorkustríði milli heimsveldanna, aðallega þá Sovíetríkjanna og Bandaríkjanna. Á þeim tíma voru kjarnorkuvopnabirgðir stórveldanna gífurlegar, en hvort þeirr átti þá tugir þúsunda kjarnavopna í búrum sínum, eins og fyrsta myndin sýnir. Megin uppistaðan í hugmyndinni um kjarnorkuvetur er sú, að í kjarnorkustyrjöld myndi kvikna mikið eldhaf í stórborgum heimsveldanna. Lítil dæmi um slíkt gerðust í lok seinni heimsstyrjladar, árið 1945, þegar Hiroshima og Nakasaki brunnu. Magnið af eldsneyti í stórborg er gífurlegt og slíkt eldhaf, sem varir dögum og vikum saman, framleiðir mikið magn af fínu sóti, sem lyftist upp í heiðhvolf, fyrir ofan 10 til 15 km hæð. Það safnast sótið fyrir en sót hefur þann eiginleika að það endurkastar sólargeislum burt frá jörðu betur en nokkuð annað þekkt efni. Slíkt sót getur varið í heiðhvolfi árum saman og á meðan kælir það jörðina um margar gráður. Loftslagsáhrifin eru því miklu verri en áhrif geislavirkra efna í kjarnorkustríði og þessi áhrif eru hnattræn: þau eru jafn slæm fyrir sigurvegarann og hina sigruðu. Þessi uppgötvun hafði mjög mikið áróðursgildi á dögum kalda stríðsins og hjálpaði til að samfæra almenning og jafnvel suma leiðtoga um að kjarnorkustríð væri fáviska ein.
Nokkrar mikilvægar spurningar koma fram þegar rætt er um kjarnorkuvetur: 1) Hvað er magnið af vopnum, sem beitt er? 2) Hver verður kólnunin og hve lengi varir hún? Árið 1983 birtu þeir Richard Turco, Carl Sagan og félagar í Bandaríkjunum merka grein í tímaritinu Science, þar sem hugtakið nuclear winter eða kjarnorkuvetur kom fyrst fram. Líkön þeirra Turco og félaga sýna eftirfarandi: Í styrjöld með 5000 MT af kjarnorkuvopnum og bruna eitt þúsund borga mun myndast svart ský af sóti í heiðhvolfi að magni um einn milljarður tonna. Þá mun ekki sjást til sólar og myrkur mun ríkja. Kólnun væri 15 til 42 °C yfir 14 til 35 daga eftir styrjöldina. Vísindamenn bæði í austri og vestri voru sannfærðir um hættuna, kynntu niðurstöður sínar fyrir almenningi og reyndu að hafa áhrif á stjórnir stórveldanna. Ekki virtist það gera mikið gagn, en þó er talið að Mikail Gorbachev hafi áttað sig á hættunni, sem getur stafað af slíkum kjarnorkuvetri. Árið 1984 kom út bók eftir Carl Sagan og félaga: The Cold and the Dark, sem fjallaði um hættuna á mannamáli. Myndin er af forsíðu hennar. Reyndar var Carl Sagan aðal hugmyndafræðingur bak við málið um kjarnorkuvetur. Richard Turco og hinir voru flestir stúdentar, sem höfði lært hjá honum. Árið 1990 gerður Turco og félagar enn meira þróuð líkön, með svipuðum niðurstöðum. En svo kom styrjöldin í Kúvait árið 1991 og setti mikið strik í reikninginn hjá vísindamönnum. Olíulindir í Kúvait brunnu stjórnlaust dögum og vikum saman og sót barst út um allt nágrennið sem svartur reykur. Vísindamenn spáðu mikilli kólnun, en sótið náði lítt eða ekki til heiðhvolfs og áhrifin urðu því lítil eða engin. Að vísu voru olíueldarnir ekki alveg sambærilegir við kjarnorkustríð, en þetta hafði samt neikvæð áhrif á þróun hugmyndarinnar. Árið 2007 var önnur mikil rannsókn gerð á hugsanlegum áhrifum kjarnorkustyrjaldar, með raunsæjum vopnabirgðum. Þetta líkan sýndi að yfirborð jarðar myndi kólna að meðaltali um 7 °C til 8 °C og kólnun mundi vara í nokkur ár. Eftir tíu ár væri yfirborðshiti jarðar enn aðeins um4 °C samkvæmt þessu líkani. Áhrifin væru því lík og þegar ísöld gengi yfir jörðina. Þannig standa málin í dag, en eftir að þiðna tók í kalda stríðinu hefur dregið úr spennu varðandi kjarnorkuvetur. Hann er samt alvarlegur raunveruleiki, jafnvel í kjarnorkustyrjöld tveggja ríkja eins og Indlands og Pakistan. Ég held að í grundvallaratriðum séu fyrstu niðurstöðurnar nokkuð nærri lagi: kjarnorkustyrjöld stórveldanna getur orsakað kjarnorkuvetur, sem kann að vara árum saman og valda ótrúlegri truflun á lífríki. Nú í dag, þegar samskifti austurs og vesturs virðast aftur vera að versna, er ekki úr ráði að dusta rykið af gömlum kenningum og hugsa aftur um hið óhugsanlega: kjarnorkuvetur. Á síðastliðnu ári hafa Rússar framleitt marga nýja kjarnokuknúna kafbáta, sem eru vopnaðir langdrægum eldflaugum með kjarnorkusprengjur um borð. Ekki er útilokað að Bandarikjamenn fari nú aftur að hugsa til Keflavíkurflugvallar, sem lengi var aðal eftirlitsstöð þeirra varðandi ferðir rússneskra kafbáta inn í Atlantshafið úr norðri. Enn líklegra er kjarnorkustríð milli Indlands og Pakistan. Ég mun fjalla um hugsanleg áhrif þess á loftslag í seinni pistli.
Einn milljarður í viðbót
27.10.2011 | 12:40
Er heimurinn kominn yfir olíutoppinn?
15.6.2011 | 14:51
Flestar ef ekki allar auðlindir náttúrunnar ganga til þurrðar fyrr eða síðar. Svo er einnig með olíu, og nú ríkir deila um hvort jarðarbúar hafi náð olíutoppnum, peak oil, og að nú fari að draga úr olíframleiðslu í heiminum. Myndin sýnir tvær spár um olíubirgðir í heiminum. Sú efri er frá IEA, alþjóðaorkustofnuninni, en sú neðri er frá háskólanum í Uppsölum, Svíþjóð. Svíar telja að olíutoppurinn hafi gerst í kringum árið 2006, en IEA stofnunin er bjartsýn og telur að olíutoppnum verði ekki náð fyrr en um 2030. Munurinn á milli þessara spáa er fyrst og fremst í sambandi við olíulindir sem ekki eru enn uppgötvaðar (og eru ef til vill ekki til?) og einnig olíulindir sem ekki hafa enn verið þróaðar. IEA er The International Energy Agency, en það er að nafninu til sjálfstæð stofnun sem starfar fyrir 28 þjóðir. Tíminn mun skera úr um hvor hefur rétt fyrir sér, en alla vega erum við komin mjög nærri olíutoppnum.
Endalok Vaxtar
28.3.2011 | 17:15