Færsluflokkur: Loftsteinar

Járnsteinninn frá Thule

Qaanaaq járnsteinnHér hef ég áður fjallað um kjarna jarðarinnar, og bent á að hann er að mestu gerður úr járni. Við getum aldrei haldið á steini sem er kominn úr kjarna jarðar okkar. Hins vegar getum við skoðað og greint steina sem hafa komið úr kjarna fjarlægra pláneta, sem hafa sundrast og borist til jarðar. Það er sú tegund af loftsteinum, sem við nefnum járnsteina. Nyrsta þorpið á Grænlandi er Qaanaaq, en þar rakst ég á merkan loftstein nýlega, sem fyrsta myndin sýnir. Hér gafst mér þá loks tækifæri til að halda á járnsteini, en hann var þungur, þessi. Qaanaaq er fyrir norðan Thule, en þorpið er tiltölulega nýtt. Það var árið 1953 að danir gáfu bandaríkjamönnum leyfi til að reisa einn stærsta herflugvöll á norðurslóðum á Thulesvæðinu. Savigsvik kortTil að gera þetta kleift voru íbúar svæðisins þvingaðir til að flytja mun norðar, á auða og yfirgefna klettaströnd, þar sem nú er þorpið Qaanaaq í dag. Járnsteinninn í litla Thulesafninu í Qaanaaq er eitt lítið brot af risastórum járnsteini, sem barst utan úr geimnum og til jarðar fyrir um tíu þúsund árum. Á leið sinni í gegnum lofthjúp jarðar var viðnámið svo mikið að yfirborð járnsteinsins varð glóandi heitt. Yfirborðið bráðnaði og tapaði um 2 mm á sekúndu þar til steinninn skall til jarðar. Hann splundraðist í þúsund mola í andrúmsloftinu fyrir ofan Thulesvæðið. Hér dreifðust brotin yfir stórt svæði og eru enn að finnast ný. Sagan um hvernig brotin úr þessum risasteini hafa fundist er merkileg og hefur þetta járn haft mikil áhrif á þróun og líf Inuit íbuanna á Thulesvæðinu. Járnsteinninn, sem splundraðist yfir norður Grænlandi dreifði stykkjum yfir stórt sæði í grennd við Yorkhöfða (Cape York) og einkum þar sem þorpið Savissivik eða Savigsvik stendur nú. Kortið til hliðar sýnir fundarstað sex stærstu breotanna af járnsteininum. Stærsta stykkið heitir Ahnighito og er um 31 tonn á þyngd. Það fanns á eynni sem nú kallast Meteoritöen eða Loftsteinseyja, Annað stórt stykki er Agpalilik (20 tonn, nú á safni í Kaupmannahöfn) og svo mörg minni, þar á meðal stykkið sem ég skoðaði í þorpinu Qaanaaq, nyrst á Grænlandi. Evrópubúar fengu fyrst vitnesku um járnsteinana þegar bretinn John Ross kom á þessar slóðir á leið sinni í leit að norðvestur siglingaleiðinni árið 1818. Þá kom fyrst í ljós, að Inuitar hafa fengið sér járn úr þessum steinum í alda raðir og búið til frábæra járnodda á hvalskutla sína og einnig beitta hnífa. Þannig voru Inuítar á Thulesvæðinu komnir inn á járnöldina, þegar allir aðrir Inuítar á Grænlandsslóðum voru enn á steinöld. Það er engin tilviljun að Savissivik þýðir staðurinn þar sem maður finnur járn á máli Inuíta. Hingað hafa þeir leitað í aldaraðir til að sækja hinn verðmæta málm í vopn sín og verkfæri. Peary og stóri járnsteinninnJohn Ross fann aldrei járnstreinan, enda vildu Inuítar ekki sýna neinum vestrænum mönnum þessar gersemar, sem þeir kölluðu járnfjallið. Árið 1897 kom bandaríski sjóliðsforinginn og landkönnuðurinn Robert E. Peary til Thule og fékk Inuíta til að sýna sér járnsteinana og síðan eignar Peary sér þá stærstu. Næsta mynd sýnir þegar Peary og hanns menn komu stærsta járnsteininum, 31 tonna Ahnighito, um borð í skip þeirra, sem var mikið afrek. Síðan var siglt með járnsteinana til New York, og þar eru þeir stærstu nú til sýnis í náttúrugripasafni borgarinnar. þessi risasteinn er einn allra stærsti loftsteinn sem fundist hefur og þurfti safnið í New York að útbúa sérstakar undirstöður, sem ná niður í gegnum gólfið og alveg niður í fornan og traustan berggrunn Manhattan eyjar.

Ferðin til Mars

Gale gígurEftir 6. ágúst 2012 munu berast til jarðar alveg nýjar upplýsingar um plánetuna Mars – ef allt gengur vel. Þann dag fer fram einhver djarfasta og ef til vill hættulegasta geimferð sem gerð hefur verið. Þá mun NASA geimfarið Curiosity, eða sá forvitni, lenda á rauðu plánetunni. Lendingin er flókin og stórkostlegt verkfræðilegt afrek - ef vel fer. Geimfarið kemur inn í lofthjúp Mars á ofsa hraða, sem er um 20 þúsund km á klukkustund. Vandi verkfræðinganna er að draga algjörlega úr hraðanum á aðeins sjö mínútum þannig að geimfarið fái mjúka lendinu þegar sex hjólin snerta yfirborð plánetunnar.  Mons Olympus  Síðan ekur Curiosity af stað um yfirborðið á Mars, eins og meðalstór jeppi, sem er útbúinn miklum fjöla af mælitækjum og hefur reyndar um borð heila rannsóknastofu til könnunar á hugsanlegu lífríki á yfirborði Mars. Það er frábært myndband um lendinguna á Youtube hér http://www.youtube.com/watch?v=YiA0VE8La5ECuriosity lendir inni í Gale loftsteinsgígnum, en hann er engin smásmíði. Gale gígur er um 154 km í þvermál og í honum miðjum er tindurinn Mount Sharp, sem er 5, 5 km á hæð. Myndin til hliðar sýnir Gale. Á Mars eru einnig margir gígar af þeirri tegund sem myndast við eldgos og sumir þeirra eru risastórir. Stærstu eldfjöll í sólkerfinu eru á Mars. Eitt það stærsta er fjallið Olympus Mons, sem er 550 km í þvermál og 21 km á hæð. Þessi mikli risi meðal eldfjallanna, sýndur á myndinni til hægri, er því svipaður ummáls og allt Ísland, og tíu sinnum hærri. Við bíðum því öll spennt eftir fréttum frá Curiosity.

Tungl

NASAtunglBandaríska geimrannsóknastofnunin NASA var rétt í þessu að gefa út nýtt kort af tunglinu. Myndin fyrir ofan sýnir kortið af hinni hliðinni af tunglinu, eða þeirri hlið, sem alltaf vísar frá okkur og við sjáum aldrei með berum augum eða með sjónaukum frá jörðu. Takið eftir metrakvarðanum til hægri við kortið. Hann sýnir, að hæstu fjöll tunglsins eru 10,7 km á hæð (rauð og hvít) og að dýpstu dalir eru um 9,1 km (bláir og fjólubláir). Heildar hæðarmunur á tunglinu er því um 19,91 km. Það er ótrúlega líkt og hér á jörðu, þar sem Everst er 8,84 km og Marianas dýpið er um 11 km, eða heildar hæðarmunur á jörðinni um 19,84 km. Það er sennilega hrein tilviljun að breiddin í hæðarbreytingum er svo lík, því að það eru gjörólíkir þættir, sem stjórna hæðum jarðmyndana á jörðu og tungli. Á jörðu eru það fyrst of fremst flekahreyfingar, en á tunglinu eru það árekstrar loftsteina, sem mynda landslagið. Kortið er það nákvæmasta sem til er af tunglinu, og er um 100 metrar á milli mælipunkta í því.

Smástirnið 2005 YU55

2005YU55 brautNæsta þriðjudag, 8. nóvember, fer smástirnið 2005 YU55 nærri jörðu. Þetta er stór og hnöttóttur steinn, um 400 metrar í þvermál, og hann skutlar sér á milli jarðar og tunglsins á hraða sem er um 13,72 kílómetrar á sekúndu. Hvíta strikið á myndinni fyrir ofan sýnir brautir jarðar og tunglsins, en hvíta strikið er braut smástirnisins á þriðjudag, þegar það smýgur milli jarðar og tungls. Þá er það næst jörðu, í um 324627 km fjarlægð frá okkur. Engin hætta er talin stafa frá smástirninu í þetta sinn, en í framtíðinni kann braut þess verða nær jörðu. Það heimsækir jörðu aftur árið 2041, og verður þá ef til vill á braut enn nær okkur. Hins vegar gefst nú tækifæri til að rannsaka yfirborð þess nánar, og verður spennandi að fylgjast með fréttum af þeim rannsóknum á næstunni. Smástirnið er nær svart á lit og er talið að það innihaldi því mikið magn af kolefni. Myndin fyrir neðan er tekin með radar, og sýnir að 2005 YU55 er alveg hnöttótt. astroid_1

Fyrsta myndin af loftsteininum á leið til jarðar í dag

 Loftsteinn 2011 MDÁstralski stjörnuáhugamaðurinn Peter Lake  tók í gær fyrstu myndina af loftseininum 2011 MD, sem er á hraðferð til jarðar.  Hann verður næst jörðu í dag, og þá í um 12 þúsund km fjarlægð.  Myndin var tekin í gegnum stjörnusjónauka í Nýju Mexíkó, og var ljósop opið í 120 sekúndur. Af þeim sökum birtist loftsteinninn sem strik á myndinni. 

Loftsteinn á leiðinni til jarðar!

Braut loftsteinsins 2011 MDSíðastliðinn miðvikudag, hinn 22. júní 2011,  var uppgötvað að það er loftsteinn á hraðferð til jarðar.  Þetta er loftsteinninn 2011 MD.  Fyrsta myndin sýnir braut loftsteinsins 2011 MD, og nálægð hans við jörðu.  Hann er um 10 metrar í þvermál, og mun koma næst jörðu á mánudag, 27. júní, en þá verður loftsteinninn í aðeins 12 þúsund km fjarlægð. Hann er á braut sem er næstum því alveg eins og braut jarðar, og veldur það nokkrum áhyggjum, en hins vegar er loftsteinninn svo lítill, að hann mundi brenna upp í lofthjúp jarðar og ekki valda teljandi árekstri.  Hins vegar má benda á, að hann mun fara fyrir INNAN  brautir allra þeirra GPS gervihnatta sem svífa umhverfis jörðu, og gæti hugsanlega rekist á eða truflað GPS kerfið. Það eru enn engar myndir til af loftsteininum 2011 MD, en ég læt fylgja hér með mynd af smástirninu 25143 Itokawa, sem er 600 x 200 m á stærð.  ItokawaHlutir sem svífa um í geimnum og eru 50 m og minni eru oftast nefndir loftsteinar, en smástirni ef þeir eru stærri.  Fylgist með smástirnum og loftsteinum nærri jörðu hér á vefnum:  http://www.jpl.nasa.gov/asteroidwatch/download.cfm

Hvernig ég drap risaeðlurnar

Bani risaeðlannaNæsti fyrirlestur Haraldar Sigurðssonar í Eldfjallasafni í Stykkishólmi er laugardaginn 36. febrúar kl. 13. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis.  Erindið ber titilinn:  Hvernig ég drap risaeðlurnar.  Hér fjallar Haraldur um uppgötvun sína á tektítum eða glerperlum á eynni Haítí í Karíbahafi. Þessi uppgötvun hafði mikil áhrif á að sanna loftsteinsárekstur og skýra útdauða lífríkis á jörðu fyrir 65 milljón árum og þar á meðal útdauða risaeðlanna.

Iðunn er orðin Heit! - Eldfjöll á Venusi

 

VenusNú þegar verulega er að draga úr eldvirkni á Fimmvörðuhálsi er kominn tími til að líta í kringum sig og veita öðrum eldfjöllum athygli.  Í þetta sinn eru það eldfjöllin á plánetunni Venusi, en nýlega kom í ljós að þau eru sennilega virk.   Þótt Venus sé lík jörðu á margan hátt, þá er þetta mjög skrítinn og óhollur staður.  Hér er yfirborðshitinn  hvorki meira né minna en 450 stig (nóg til að bræða blý), og lofthjúpurinn er svo þungur og þykkur að loftþrýstingur á yfirborði er eins og að vera í kafi í sjónum á jörðu á 1000 metra dýpi.  Loftið er um 97% koltvíoxíð, en auk þess eru ský sem eru samansett af örsmáum úða af brennisteinssýru.  Lofthjúpurinn er svo þykkur að yfirborð pláneturnar hefur ekki sést, nema í radar.  Venus hefur þvermál sem er aðeins 330 km minna en þvermál jarðar, en samt virðast jarðkraftarnir vera allt aðrir. Hér eru ekki flekahreyfingar áberandi, en í staðinn er mjög mikið af stökum og stórum eldfjöllum, og eru mörg þeirra miklir risar sem eru 100 til 300 km í þvermál.  Alls eru þekkt um 1740 eldfjöll á Venusi. Mörg eru dyngjur, en sum eru eins og stjörnur í laginu, með fjölda geisla sem stafa út frá frá miðjunni.  Þessi eldfjöll eru nefnd arachnoids, vegna þess að þau líkjast könguló með margar lappir. Pönnukökuhraun

Yfirborðið er frekar ungt, ef dæma má út frá þeirri staðreynd að ekki finnast margir gígar eftir loftsteinsárekstra á Venusi. Enn höfum við ekki orðið vitni af eldgosum á Venusi, en nýjustu athuganir sýna að sum eldfjöllin eru heit og því sennilega virk.   Myndin sem fylgir er af fjallinu Idunn Mons (Idunn er auðvitað Iðunn)

Geimfarið Venus Express hefur gert mælingar sem sýna ung hraun í hlíðum Iðunnar og má fræðast um það ferðalag frekar hér.

Eldfjallið IðunnÞað er algengt að vísindamenn sem stunda geimrannsóknir gefa fjöllum nafn sem er tengt goðafræði ýmissa landa á jörðu. Þannig eru öll goðin og guðirnir í norrænu goðafræðinni komin út í geiminn. Allir íslendingar muna sjálfsagt að í norrænu goðafræðinni er Iðunn  gyðja endurnýjunar, yngingar, hreinsunar, látleysis, breytinga, eftirvæntingar og barna.

 


Er Himininn að Hrynja? Apophis á Ferðinni

Apophis á RadarVið þekkjum öll gömlu barnasöguna um Litlu Gulu Hænuna. Í enskumælandi löndum er svipuð barnasaga sem nefnist Chicken Little, og er í stuttu máli þannig: Hneta dettur úr tré og lendir á hausnum á litlu hænunni. Hún fer til kóngsins og segir honum að himininn sé að hrynja. Allt fer í uppnám í konungsríkinu, en ekki rætist spáin. Boðskapurinn er sá, að trúa ekki öllu sem manni er sagt. Nú segja rússar að himininn sé virkilega að hrynja á næstunni. Nýlega var haldinn leynilegur fundur helstu sérfræðinga rússa í geimvísindum í Moskvu, og aðal erindið var að skipulegga aðgerðir til að bægja smástirninu 99942 Apophis frá jörðu til að forðast hættulegan árekstur. Rússarnir telja að Apophis muni fara nærri jörðu eftir tvo áratugi og nú sé rétti tíminn til að byggja geimfar til að senda á móti Apophis og breyta braut þess. Anatoly N. Perminov, forstöðumaður Roscosmos, geimrannsóknastöðvar Rússlands, segir: “Ég held að Apophis gæti rekist á jörðina í kringum 2032. Við erum að tala um mörg mannslíf hérna. Það er betra að eyða nokkrum miljónum dollara til að koma upp varnarkerfi, frekar en að bíða aðgerðarlaus, en þá gætu hundruðir þúsunda farist.” Er málið svona alvarlegt, eða eru rússneskir verkfræðingar bara að haga sér eins og Chicken Little, til að skapa fjármagn í nýtt verkefni? Hér fyrir ofan er mynd af Apophis, tekin með radar á Arecibo rannsóknastöðinni í Puerto Rico í janúar 2005. Smástirnið er litli ljósi bletturinn á miðri mynd hér fyrir ofan, og var þá um 29 miljón kílómetra frá jörðu þegar myndin var tekin.Itokawa smástirnið  Apophis fer hratt í gegnum geiminn, eða á 31 km á sekúndu, en smástirnið er um 270 til 300 metrar í þvermál. Litróf Apophis sýnir að hér er chondrít eða grjóthnullungur á ferðinni, en ekki snjóbolti, eins og halastjörnur. Hér til hægri fylgir með mynd af smástirninu Itokawa, sem japanska geimfarið Hayabusa tok í haust. Itokawa er sviðuð og Apophis, um 535 metrar á lengd og 210 á breidd. Apophis er á braut sem sendir smástirnið mjög nærri jörðu árið 2029, en þá verður það í um 29451 km fjarlægð, og svo aftur 13. apríl árið 2036 og 2068. En NASA er ekki sammála rússum. NASA segir að síðan Apophis var uppgötvuð árið 2004 þá hafi hættan á árekstri minnkað, vegna þess að braut þess hefur verið reiknuð út með meiri nákvæmni. Apophis er aðeins um 300 metrar, og upphaflega héldu sérfræðingar að það væri 2.7% líkur á árekstri á jörðu sem yrði árið 2029. En nú segja þeir að smástirnið fari framhjá jörðu í um 29500 kílómetra fjarlægð. Þegar Apophis verður aftur á ferðinni í grennd við jörðu árin 2036 og 2068, þá verður hún enn fjær, segir NASA.  Beltið af smástirnumÞað er von að rússar séu taugaóstyrkir þegar kemur að smástirnum. Árið 1908 skall Tunguska smástirnið niður í Síberíu og gerði mikinn usla. Til allara hamingju varð áreksturinn í óbyggðum og engan sakaði. Það eru ýmsar hugmyndir um hvernig hægt er að breyta rás smástirna til að forða árekstri við jörðu. Ein sú vinsælasta er hugmyndin um “gravity tractors” eða dráttarbáta, sem eru staðsettir í grennd við smástirnið og nota þyngdaraflið til að breyta braut þess. Í Bandaríkjunum er B612 stofnunin, sem vinnur að rannsóknum um aðferðir til að breyta brautum hættulegra smástirna. Þeir telja að engin hætta stafi frá Apophis eins og er, en eru á móti því að fikta við eða breyta braut smástirnisins. Ef eitthvað mistekst, þá verður hættan meiri og árekstur gæti orðið. Þeir benda á að það eru miljón önnur smástirni þarna úti í geimnum sem hægt er að gera fyrstu tilraunirnar á. Það er enginn vafi að slíkar tilraunir eru eitt af stóru verkum framtíðarinnar.  Dráttarbáturinn í geimnumÞeir sem hafa áhuga á að fylgjast daglega með þeim smástirnum sem eru nærri jörðu, þá er bent á “Asteroid widget” fyrir tölvur, en það má finna hér:http://www.jpl.nasa.gov/asteroidwatch/download.cfm  Það sýnir til dæmis að hinn 21. janúar fer 34 metra stór loftsteinn fram hjá jörðu í um 895 þúsund km fjarlægð.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband