Færsluflokkur: Vísindi og fræði
Eru aðeins um 8 km niður á möttul undir Reykjanesi?
17.11.2023 | 15:00
Fjöldi spurninga vakna í sambandi við umbrotin undir Reykjanesi. Það eitt er stórmerkilegt að allir jarðsjálftarnir sem nú koma fram við Grindavík eru grunnir, eins og myndin sýnir. Það eru nær engir jarðskjálftar mældir á meira dýpi en 7 til 8 km undir Reykjanesi. Jarðskorpan undir Reykjanesi virðist því vera frekar þunn, eins og úthafsskorpa.
Hvaða upplýsingar höfum við um þykkt skorpunnar og hita undir henni á Reykjanesi ? Við vitum til dæmis út frá jarðborunum að það hitnar mjög rækilega í neðri hluta jarðskorpunnar á utanverðu Reykjanesi. Þegar djúpa Reykjanes borholan var komin niður í um 4.5 km dýpi árið 2017 var hitinn kominn upp í um 535 oC og var hratt vaxandi þegar borun var hætt. Bergfræðirannsóknir sýna að hiti hafi jafnvel náð upp í 650 oC nærri botninum, en berg þarf að fara vel yfir 1000 oC til að byrja að bráðna.
Flest eðliseinkenni bergs breytast þegar hitinn hækkar og vísindin fjalla mikið um breytingu á eiginleikum bergs þegar það hitnar og breytist úr hörðu og föstu bergi í heitt og lint eða mjúkt berg. Þetta nefna vísindamenn brittle to ductile transition. Sumir segja að breytingin hefjist við um 550 oC, en aðrir telja að berg verði mjúkt fyrst við um 700 til 800°C, sem er líklegra. Um leið og berg hitnar að þessu marki og verður mjúkt, þá hættir bergið alveg að bera jarðskjálftabylgjur. Þær deyja út og hverfa í þessum hita og dýpi.
Snúum okkur þá aftur að jarðskorpubrotinu og sigdalnum við Grindavík. Hvers vegna koma engir skjálftar fram á meira dýpi? Það getur stafað af tvennu. Við vitum að undir jarðskorpunni tekur möttullinn við og hann er of heitur til að brotna og valda jarðskjálftum. Undir skorpunni, á meir en 8 km dýpi, er því allt annar heimur, sem er heimur möttulsins, sem nær um 2900 kílómetra niður í jörðina, eða allt niður að yfirborði kjarnans. Hinn möguleikinn er sá að undir 8 km skorpu sé lag af basalt kviku, en allir skjálftar kafna í slíku lagi.
Það er eiginlega sláandi, finnst mér, að allir skjálftar deyja út þegar komið er niður á um 8 km dýpi. Mörkin milli jarðskorpu og möttuls eru ótvíræð undir Reykjanesi, sem minnir okkur rækilega á að höfuðpaurinn í öllum þessum látum hlýtur að vera möttullinn og hann er of heitur til að brotna eins og venjulegt berg. Það er jú hreyfing og þrýstingur í jarðskorpunni, sem veldur því að skorpan brotnar og sendir frá sér jarðskjálfta. Möttullinn er hins vegar partbráðinn, sem þýðir að hann er blautur af heitri kviku. Það er ef til vill ekki mjög góð samlíking, en það má hugsa sér möttulinn eins og blautan sand í flæðarmáli í fjörunni, þar sem örþunn himna af sjó liggur milli sandkornanna. Á sama hátt er möttullinn blautur, en það er örþunn himna af hraunkviku sem smýgur á milli sandkornanna eða kristallanna í partbráðnum möttlinum. Þar verður hraunkvikan til.
Sprungukort og sigdalur
17.11.2023 | 13:13
Allir fagna því að Veðurstofan hefur birt gott kort sem sýnir dreifingu á jarðsprungum umhverfis Grindavík. Einnig birtir Veðurstofan nú línurit sem sýnir hvernig botn sigdalsins norðan bæjarins er að síga niður, um 25 cm á fimm dögum. Veðurstofan, eins og allar opinberar stofnanir, veit vel að almenningur þarf að hafa greiðan aðgang að mikilvægum gögnum, sérstaklega þegar mikið er í húfi.
Átök undir Grindavík
16.11.2023 | 15:26
Það kemur manni eiginlega alveg á óvart að skjaldarmerki Grindavíkur er útlendur geithafur. Af hendi náttúrunnar er flest auðæfi hér að sækja til hafsins, en ekki til hins hrjóstuga lands og svo hefur verið alla tíð. Manni skilst að hér hafi menn þurft að reita lyng og rífa hrís sér og sínum skepnum til viðurværis til forna. Björgin kom öll úr hafinu. Eðlilegra hefði nú verið að setja grindhvalinn eða marsvín á skjaldarmerkið, því heitið Grindavík er tvímælalaust tilvísun til smáhvala sem kunna að hafa hlaupið hér upp í fjöru. Manni dettur einmitt í hug að grindhvalir hafi gengið upp á þessar breiðu og víðtæku fjörur sem liggja suðvestan bæjarins, þar sem eru Malarendar, Litlabót og Stórabót.
Á þessu svæði, í grennd við Gerðavelli, er ein mikil sprunga í jarðveginum, sem hefur SV stefnu og er tvímælalaust framhald til suðurs af sprungum og sigdal sem fjallað hefur verið um í norðvestur hluta Grindavíkurbæjar (sjá fyrri myndina). Þetta kemur vel fram á þeirri ljósmynd sem prýðir forsíðu Grindavíkur á netinu. Um 500 m vestar er önnur samhliða sprunga, sem liggur á haf út þar sem er Bergsendi og Klaufir (sjá seinni myndina).
Sá sem þetta ritar hefur ekki aðgang að þessu bannsvæði til könnunar, eins og flest venjulegt fólk, en vonandi komast aðrir vísindamenn með leyfi yfirvalda inn á þessar slóðir til að kanna syðstu merki um sigdal og sprungukerfi Grindavíkur. Það er einmitt hér sem mestar líkur eru á að kvika renni út úr ganginum og til sjávar.
Hvaða kraftar eru í gangi undir Grindavík?
16.11.2023 | 13:12
Jörð skelfur en það kemur ekkert gos.
Jarðskjálftar og eldgos. Þessi vofeiflegu fyrirbæri skella öðru hvoru yfir þjóðina og valda miklum ótta, spjöllum og jafnvel dauða. En hvað veldur þessum ósköpum? Flestir landsmenn hafa reið svör þegar rætt er um upptök slíkra hamfara: Ísland er jú staðsett á miðjum Norður Atlantshafshryggnum og auk þess er heitur reitur í möttlinum undir miðju landinu. Þetta er nú nokkuð gott svo langt sem það nær, en hin raunverulega skýring er auðvitað miklu flóknara mál, sem er þó á allra færi að skilja.
Okkur virðist oft að það blandist allt saman, flekahreyfingar (og jarðskjálftar) annars vegar, og eldgos hins vegar. Að vísu geta þessir þættir verið samtíma, en það er nauðsynlegt að fjalla um hraunkvikumyndun og eldgos sér, og fjalla síðan um jarðskjálfta og sprungumyndun og hreyfingu jarðskorpunnar í öðru lagi.
Það er oft talað um eldgos og jarðskjálfta (eða flekahreyfingar) í sömu andránni, en það er villandi og reyndar ekki rétt. Þetta eru oft vel aðskilin fyrirbæri og best er að fjalla um þau sér í lagi. Við skiljum það betur þegar við fjöllum um grunnkraftana í jörðinni, sem stýra flekahreyfingum annars vegar og valda eldgosum hins vegar. Að mínu áliti eru það flekahreyfingar sem ráða ferðinni og skipta mestu máli, en eldgos er oft passiv afleðing slíkra hreyfinga jarðskorpunnar. Á Íslandi höfum við fjölda dæma um mikil umbrot í jarðskorpunni, flekahreyfingar og jarðskjálfta, án þess að nokkuð gjósi á yfirborði.
Kraftar og flekahreyfingar
Jarðvísindin voru á frekar lágu plani þar til eftir seinni heimsstyrjöldina. Það stafaði af því að yfir 70% af yfirborði jarðar var algjörlega ókannaður hafsbotn. Menn byrjuðu loks að kanna hafsbotninn kerfisbundið í seinni heimsstyrjöldinni. Stórveldin áttuðu sig strax á miklu hernaðarlegu gildi vopnaðra kafbáta, en til að beita kafbátum í hernaði þarft þú að þekkja hafsbotninn. Bandaríkjamenn ruku til, og settu strax á laggirnar nokkrar hafrannsóknastofnanir til að kortleggja hafsbotninn og kanna öll einkenni allra hafa heimsins. Allt í einu höfðu vísindamenn við slíkar hafrannsóknastofnanir ný og vel búin skip, og mikið fjármagn til leiðangra um öll heimsins höf. Herinn fékk stöðugan straum af nýjum kortum og öðrum upplýsingum um allan hafsbotninn. Ég þekki þetta vel, þar sem ég hef starfað við slíka stofnun í Rhode Island nú í 50 ár.
Vísindahópar voru fljótir að færa herjum stórveldanna allar þær helstu upplýsingar sem þurfti til hernaðar í dýpinu. Það voru fyrst og fremst góð landakort af botni allra heimshafanna. En þá kom í ljós að hafsbotninn um alla jörðu er ótrúlega flott og merkilegt fyrirbæri, þar sem risastórir úthafshryggir teygja sig eftir botni allra heimshafanna. Hvernig í ósköpunum á að túlka og skilja allar þessu nýju upplýsingar? Á sama tíma var sett upp net af jarðskjálftamælum um allan heim, en netið var fyrst og fremst hannað til að fylgjast með tilraunum sem stórveldin voru að gera með kjarnorkusprengjur í kalda stríðinu. Þarna kom annað dæmi um, hvernig hernaðarbrölt stórvelda getur varpað nýju ljósi á stór vísindavandamál. Þá kom fljótt í ljós að það er samfellt jarðskjálftabelti sem þræðir sig eftir öllum úthafshryggjum jarðar, og hryggirnir eru allir að gliðna í sundur.
Framhaldið af þessari sögu er efni í margar bækur, en þessi mikla bylting í skilningi okkar á hegðun jarðar og flekakenningunni er ein mesta sigurför vísindanna. Hér vil ég aðeins snúa mér að einu mikilvægu atriði, sem snertir Ísland beint, og færir okkur aftur út á Reykjanes. Það er vísindakenningin um þá krafta í jörðu, sem brjóta upp og færa til jarðskorpufleka og valda jarðskjálftum. Þetta eru kraftarnir sem mynda útlit jarðar og stjórna staðsetningu og dreifingu meginlandanna á heimskringlunni.
Slab pull - flekatog. Árið 1975 uppgötvuðu þeir jarðeðlisfræðingarnir Donald Forsyth og Seiya Uyeda aflið eða kraftinn sem þeir nefndu slab pull, eða flekatog. Þessi uppgötvun er einn merkasti hornsteinn flekakenningarinnar og jarðvísindanna almennt. Donald er prófessor í jarðeðlisfræði við Brown Háskóla í Rhode Island og við vorum nágrannar og kynntumst vel eftir að ég var settur prófessor við Rhode Island Háskóla árið 1974. Lykillinn að flekatoginu er að átta sig á, að allir flekar eru ungir, heitir og léttir í annan endann, en gamlir, kaldir og þungir á hinum endanum. Flekinn myndast á úthafshryggnum, eins og til dæmis á Reykjaneshrygg, þar er hann ungur, heitur og léttur. Með tímanum rekur flekinn frá hryggnum, kólnar og þyngist. Þegar elsti hluti flekans er búinn að reka langt frá hryggnum og orðinn 100 til 140 miljón ára gamall, þá er eðlisþyngd hans orðin jöfn eða jafnvel meiri en eðlisþyngd möttulsins fyrir neðan flekann. Gamli endinn á flekanum byrjar því að sökkva niður í möttulinn fyrir neðan og myndar sigbelti. Þegar hann sekkur þá togar hann í allan flekann og dregur flekann frá úthafshryggnum, togar í hann eins og blautt teppi togast niður á gólf ofan af stofuborðinu. Þetta er krafturinn sem nefnist slab pull, eða flekatog. Hann stýrist fyrst og fremst af breytingu á eðlisþyngd flekans með tímanum.
Sumir skorpuflekar eru á fleygiferð í dag og mynda hafsbotn sem hreyfist á 15 til 20 cm hraða á ári. Þetta á við sérstaklega í sambandi við flekana í suður hluta Kyrrahafsins. Forsyth og Uyeda bentu einfaldlega á, að hraði á hreyfingu fleka er í beinu hlutfalli við hvað mikið af flekanum er tengt við sigbelti. Slab pull eða flekatog er mikilvægasti krafturinn í flekahreyfingum jarðar.
En bíddu nú við, - sumir flekar eru ekki tengdir við neitt sigbelti, en eru samt á hreyfingu! Og það á einmitt við um Ísland. Það eru tveir stórir jarðskorpuflekar sem mætast undir Islandi. Að austan er það hinn risastóri EvrAsíufleki, en á honum hvílir öll Evrópa, Rússland og öll Asía, Síbería og allt land til Kyrrahafsstrandar. Þessi tröllvaxni fleki virðist vera alveg kyrr og rólegur, enda er hann ekki tengdur neinu sigbelti. Hinn flekinn sem skiptir okkur miklu máli er Norður-Ameríku flekinn. Hann er einnig stór, með allan vestur helming Norður Atlantshafsins, og alla Norður og Mið-Ameríku. En Norður-Ameríku flekinn er á hægri hreyfingu til vesturs, aðeins um 1 til 2 cm á ári. Hvers vegna er Norður-Ameríku flekinn á hreyfingu yfir leitt? Reyndar er eitt frekar lítið sigbelti tengt þessum fleka í Vestur Indíum, en það skýrir alls ekki hreyfingu Norður-Ameríku flekans. Þetta skiptir okkur miklu máli, vegna þess að öll flekahreyfing á Íslandi er tengd hreyfingu Norður-Ameríku flekans til vesturs.
Jæja, þeir Forsyth og Uyeda koma hér til hjálpar, en þeir sýndu fram á að það er annar mjög mikilvægur kraftur sem virkar á jörðu og hann er krafturinn sem skiftir okkur mestu máli á Fróni.
Ridge push - hryggjarþrýstingur.
Úthafshryggirnir, eins og Mið-Atlantshafshryggurinn, eru fjallgarðar á hafsbotni. Þeir eru ekki brattir, en þeir rísa samt upp 1 til 2 km yfir hafsbotninn umhverfis. Úthafshryggurinn myndast og rís upp fyrst og fremst vegna þess, að þegar tveir flekar gliðna eða færast í sundur, þá myndast rúm fyrir efri hluta möttuls að mjaka sér upp í bilið. Möttullinn sem rís upp í bilið kemur af meira dýpi í jörðinni og er því heitari en umhverfið. Vegna hitans hefur hann aðeins lægri eðlisþyngd. Þessi fleygur af heitara og léttara efni milli flekanna veldur kraftinum sem nefnist ridge push, eða hryggjarþrýstingur. Þetta er að öllum líkindum krafturinn sem mjakar Norður Ameríkuflekanum til vesturs, og veldur skorpuhreyfingunum á Reykjanesi. Takið eftir að krafturinn ridge push eða hryggjarþrýstingur fer í gang vegna þess að heitari og léttari möttull rís upp milli flekanna, sem ýtast í sundur. Það er því þyngdarlögmálið sem stýrir þeim krafti.
Ridge push eða hryggjarþrýstingur er krafturinn sem á sökina á öllum hamförunum á Reykjanesi í dag.
Hvað skal nýja eyjan heita?
11.11.2023 | 14:20
Skorpuhreyfingarnar á Reykjanesi þessa dagana eru meðal merkustu atburða í jarðsögu Íslands. Veðurstofa Íslands hefur unnið frábært verk með því að skrá jarðskorpuhreyfingar og dreifingu jarðskjálfta á Reykjanesinu og koma þeim upplýsingum fram til almennings. Ólíkt fyrri umbrotum á Reykjanesi, sem voru fjærri byggð, þá er miklu meira í húfi í þetta sinn, því skorpuhreyfingarnar og hugsanlegar hreyfingar á hraunkviku og gos geta verið bein ógn við Grindavíkurbæ, virkjunina á Svartsengi og Bláa Lónið.
Skorpan sem myndar Reykjanes er að rifna í sundur fyrir augum okkar. Þessar stórbrotnu flekahreyfingar fletta ofan af heita reitnum í möttli jarðar undir Íslandi. Þar er hiti í möttlinum undir sorpunni um 1400oC og þessi svampkenndi möttull er gegnsósa af basaltkviku sem er meir en 1250oC. Einn sterkasti atburðurinn til þessa varð í gær, þegar löng og mjó röð af jarðskjálftum teiknuðu upp mynd af jarðskorpubroti frá norðaustri til suðvesturs. Fyrstu skjálftarnir voru norðan við, en virknin færðist beint til suðvesturs, beint undir Grindavík og síðan út á haf, eða öllu heldur suður í jarðskorpuna í botni landgrunnsins.
Einfaldasta túlkunin er sú, að kvikugangur hafi myndast sem klauf jarðskorpuna til suðvesturs, alla leð út á landgrunn. Til allrar hamingju streymdi kvikan innan skorpunnar og hefur ekki enn komið upp á yfirborð. Ef meiri kvika streymir inn í ganginn eru allar líkur á því að hann haldi áfram að vaxa til suðvesturs. Þá er hætt við að gangurinn komi fram á landgrunninu fyrir sunnan höfnina í Grindavík, myndi þar gos á hafsbotni og ef tl vill nýja eldey, ef næg kvika er fyrir hendi. Þetta gæti þá gerst á 150 til 200 m dýpi, en slíkt gos væri þá af sömu gerð og Surtseyjargos.
Nú er varðskipið Þór statt í Grindavík og upplagt að nýta þau tæki sem þar eru um borð til að kanna hafsbotninn á þessum slóðum.
Blesi merkir gönguleiðina
25.7.2023 | 14:12
Þegar ég var í sveit, þá kynntist maður nokkrum sinnum hestum, sem báru nafnið Blesi. Þeir voru alltaf með langa ljósa eða hvíta rák frá enni og niður undir snoppu.
Síðar á ævinni, í ferðum mínum í skóglendi í ýmsum löndum, hef ég aftur rekist á orð sem ég tel náskylt blesanafninu, eð það er orðið eða sögnin to blaze. Á ensku er talað um to blaze a trail í skóginum, en það þýðir að merkja gönguleiðina með því að höggva langa og lóðrétta ræmu af berkinum til að merkja leiðina til baka, eða fyrir þá sem eftir koma. Það þarf ekki nema eitt högg með góðri sveðju til að fletta berkinum af og gera blesa sem er 30 til 50 sm langur.
Í einni ferð minni í Indonesiu þurfti ég að fara í gegnum mjög þéttan og illfæran frumskóg til að komast upp á Tambora eldfjall. Það var tveggja daga ganga í gegnum frumskóginn og enginn slóði fyrir. Ég var með átta burðarmenn og einn vanan leiðsögumann. Við vorum búnir að höggva okkur leið allan daginn og mér leist ekkert á blikuna. Þá tek ég eftir nýjum blaze eða blesa á tré sem ég hafði höggvið og áttaði mig á því að við vorum búnir að ganga í hring. Eftir það tók ég forrustua og við komumst að lokum upp í fjallið næsta dag. Síðan hef ég alltaf haft það fyrir sið að blesa leiðina eða blaze the trail.
Síðar, þegar ég bjó í Paris í tvö ár, lærði ég meiri frönsku, og þá vaknaði áhugi minn á sögninni blaisser, sem þýðir að særa eða sár. Þegar við höggvum okkur leið erum við að særa skóginn, veljum tré sem við blesum eða særum til að merkja leiðina. Hestaheitið á honum Blesa gamla er svo sennilega síðan dregið af því. Það eru fjöldamörg orð sem eru náskyld blesa, bæði á Íslandi og í öðrum löndum Norður Evrópu, eins og blossi, blása, blys og svo til dæmis blas í þýsku.
Á minni ævi
10.1.2023 | 17:30
Íslenski kötturinn og Ameríkuferðir hans
6.12.2022 | 23:10
Okkur skortir ekki sannanir um ferðir Íslendinga og Grænlendinga til Vínlands, eða norðaustur strandar Norður Ameríku. Það höfum við í Grænlendingasögu og Sögu Eiríks rauða, og einnig uppgreftri rústa á Nýfundnalandi vð austurströnd Kanada. En spurninin er, hvað komust þeir langt suður?
Árið 1957 fannst silfurpeningur í fornum ruslahaug indíána nærri sjávarsíðunni í Maine fylki í Bandaríkjunum. Rannsóknir sýna að peningurinn var sleginn í tíð Ólafs kyrra, sem var við völd í Noregi frá 1067 til 1093. Aldursgreiningar sýna að öskuhaugurinn var mestu leyti í brúki frá um 1180 til 1235. Í hálfa öld var þessi fundur talin blekking eða svindl, einkum að stuðningsmönnum Kólumbusar, sem vildu ekki viðurkenna komu norrænna manna til Ameríku á undan Kólumbusi, en nú er fundurinn búinn að fá fullt gildi. Þessi fundur sýnir ótvírætt að norrænir menn fóru miklu sunnar en áður var haldið, og að ferðir þeirra til Vínlands náðu yfir miklu lengra tímabil en gefið er í skyn í Vínlandssögunum. En það er annar þáttur sem gefur miklu sterkari vitneskju um siglingar norrænna manna á suður slóðir, og það er tengt erfðaefni í Amerískum köttum og skyldleika þeirra og íslenska kattarins.
Í kringum 1975 átti ég kött sem kom frá Boston og var af Maine Coon kyni. Hann var risastór, kafloðinn og hélt sig mest utan húss. Hann var ótrúlega fimur og kraftmikill og gat auðveldlega stokkið meir en eina mannshæð til að krækja sér í smáfugla úr loftinu. Hann hét Wild Thing, eftir hinu fræga rokklagi þeirra Troggs og Jimmy Hendrix. Ég uppgötvaði ekki fyrr en nýlega að Wild Thing, eins og allir Maine Coon kettir, hefur verið af norrænum eða jafnvel íslenskum ættum. Sennilega hefur hann átt ættir að rekja alla leið aftur til skipskatta norrænna manna, sem sigldu til norðaustur strandar Norður Ameríku í kringum árið 1000 og síðar.
Þannig er mál með vexti að engir innfæddir kettir voru fyrir hendi í Norður Ameríku þegar norrænir menn komu fyrst til þessa mikla meginlands. Hér voru fyrir úlfar, fjallaljón og hundar, sem frumbyggjar eða indíánar höfðu náð góðum tengslum við, en engir kettir. Reyndar er hér að finna bobcat eða Lynx rufus, sem er mjög stór, skottlaus en óskyldur venjulegum húsköttum.
Ég held að fyrstu rannsóknir á erfðamengi og uppruna íslenska kattarins hafi verið gerðar af Neil B. Todd og félögum árið 1975, en þær birtust í vísindaritinu Heredity. Þeir rannsökuðu erfðamengi Reykjvíkurkatta og einnig sveitakatta á Íslandi. Þeir sýndu fram á að íslenski kötturinn hefur sérstöðu og er ólíkur Evrópskum köttum, hvað snertir erfðamengi, sérstaklega þó sveitakettir á Íslandi. En það er fróðlegt að sjá, að Todd bendir á skyldleika íslenska kattarins og katta í Norður Ameríku, hvað snertir erfðamengi. Hann stakk uppá að Amerískir kettir hefðu borist til Íslands með herskipum í Seinni Heimsstyrjöldinni, en eins kemur fram hér neðar voru ferðir íslenska kattarins alveg í þveröfuga átt.
Árið 1983 kemur út fræðigrein eftir Stefán Aðalsteinsson erfðafræðing og Amerikumanninn Ben Blumenberg, birt í þýska vísindaritinu Zeitschrift fur Tierzuchtung Zuchtungsbiologie. Titill greinarinnar var algjör sprengja; Possible norse origin for two Northeastern United States cat populations, eða Hugsanlegur norrænn uppruni tveggja kattategunda í norðaustur hluta Bandaríkjanna.
Ég hafði kynnst Stefáni nokkuð á stúdentsárum mínum, en þá starfaði ég á stofnun sem bar heitið Atvinnudeild Háskólans. Þar var að finna ótrúlega fjölbreytt samansafn íslenskra vísindamanna, einn af hverju tagi, eins og í örkinni hans Nóa. Þetta var fyrir þann tíma þegar sérhæfar vísindastofnanir voru settar á laggirnar. Á fyrstu hæð var skrifstofa Rannsóknarráðs Ríkisins, þar sem Steingrímur Hermannsson réð ríkjum, en sú stofnun myndaði fjárhagsleg tengsl vísindanna við Alþingi. Það merkasta við Atvinnudeild Háskólans var reyndar kaffistofan. Hér söfnuðust saman tvisvar á dag margir fremstu vísindamenn Íslands og drukku kaffi saman og ræddu um allt milli himins og jarðar. Stefán Aðalsteinsson var oft í heimsókn, til að spjalla við Sturlu Friðriksson og Sigurður Þórarinsson var tíður gestur.
En snúum nú aftur að köttum og grein Stefáns og Blumenberg árið 1983. Þeir söfnuðu miklum gögnum um erfðamengi katta allt umhverfis Norður Atlantshaf og einnig austurströnd Norður Ameríku, einkum með tilliti til svæða þar sem norrænir menn eða víkingar höfðu dvalið. Þar kemur fram að erfðamengi katta frá Íslandi og sumum svæðum norðaustur strandar Norður Ameríku, einkum á Boston svæðinu og nágrenni, er sláandi líkt. Manni dettur strax í hug að skipskettir um borð í knörrum á vestur leið frá Grænlandi eða Íslandi hafi verið orðnir leiðir á vistinni og vosbúð í marga mánuði og stokkið í land við fyrsta tækifæri þegar strönd Ameríku nálgaðist. Þar blómguðust þeir og mynduðu stofninn sem nú nefnist Maine Coon kettir. Að mínu áliti hefur mikilvægi kattanna í sambandi við Vínlandsfundinn ekki enn fengið verðskuldaða athygli. Í merkri bók sinni Vínlandsgátan (1997) fjallar Páll Bergþórsson stuttlega um málið í síðasta kafla verksins.
Síðustu Inuitarnir á norðaustur Grænlandi
25.11.2022 | 22:47
Í ágúst 2014 var ég á siglingu um Scoresbysund á norðaustur Grænlandi, ásamt félaga mínum Ragnari Axelssyni, ljósmyndara. Einn daginn, hinn 31.
ágúst, vörpum við akkerum í Rypefjord, eða Rjúpufirði, sem er mjög innarlega í Scoresbysundi. Hér er vinalegt umhverfi, og dálítill gróður upp brattar hlíðar. Skammt frá sjáum við sauðnaut á beit. Við göngum í land rétt við árósa, og rekum strax augun í grjóthleðslu á árbakkanum, sem er einhverskonar mannvirki, en er nú vafið runnum og grasi. Áin er að naga í brún hleðslunnar og senn verða þessar fornu menningarleifar horfnar. Þetta eru greinilega rústir af vetrarhúsi, þar sem Inuítar dvöldu í yfir kaldasta tíma ársins, en annars dvöldu þeir í tjöldum nærri veiðistað í mynni Scoresbysunds, við ísilagða strönd Atlantshafsins. Húsrústin er hringlaga, með upphækkuðum palli úr steinhleðslu sem tekur um helming rýmisins. Á pallinum hefur fjölskyldan dvalið og sofið, sitið þétt til að halda á sér hita. Hleðsla af stórum steinhellum myndar nokkurra metra löng göng, þar sem hægt er að skríða inn í byrgið. Við forðumst að hreyfa neitt og vildum ekki róta í þessari rúst. Það munu fornleifingar væntanlega gera síðar.
Rétt vestan við húsið, um hálfan meter frá steinhleðslunni, sjáum við að bein stendur upp úr moldinni. Það er rifbein, sem hefur verið tálgað til einhvers brúks. Í grennd er töluvert af öðrum beinum, en þau eru öll brot af leggjum, sem hafa verið vel mergsogin, sennilega bein af sauðnautum. Ég kippi rifbeininu upp og þá kemur í ljós að hinn endinn er einnig tilskorinn. Mér virðist líklegast að þetta sé rif úr kajak, en Inúítar notuðu bein í stað trjáviðar til að setja saman kajakgrindur og strekktu svo skinni utanum. Sennilega var hér kajak uppi á þaki á vetrarhúsinu, en með tímanum hefur skinnið fúnað og kajakinn dottið í sundur.
Ég fór síðar með rifbeinið í aldursgreiningu í Woods Hole í Bandaríkjunum. Bein inniheldur mikið kolefni. Kolefni af gerðinni C-14 er geislavirkt og geislakol klofnar með tímanum og myndar köfnunarefni. Á því byggist aldursgreining efna sem eru rík af kolefni, eins og bein. Hlutfall geislakola í efninu gefur því aldur þess. En eins og myndin sýnir eru lykkjur á kvörðunarferlinum fyrir C-14 aldur og almanaksaldur. Ef C-14 sem mælist fellur í slíka lykkju, þá getur almanaksaldur gefið tvær mögulegar niðurstöður. Þannig er því miður með rifbeinið frá Rypefiord. Það er annað hvort frá því um 1670 e.Kr. eða það er frá um 1790 e.Kr. Eg hallast fremur að yngri tölunni, frá um 1790 e.Kr. en hef engin sterk rök til að styðja það.
Víðtækar rannsóknir sýna að Inuítar námu fyrst land á norðaustur Grænlandi um 1400 e.Kr. en búseta þeirra var fremur stutt á þessum slóðum vegna loftslagsbreytinga. Síðustu Inuítarnir sáust á þessu svæði í ágúst árið 1823, þegar breski vísindamaðurinn Douglas Clavering rakst á tólf Ínúíta á lítilli eyju sem nú ber hans nafn, skammt fyrir norðan Scoresbysund. Síðan hvarf þessi ættbálkur Ínúíta algjörlega frá norðaustur Grænlandi, sennilega vegna harðinda og kólnandi veðurfars. Ekki er ljóst hvort þeir dóu út í grennd við Scoresbysund eða fluttust suður á bóginn, í átt að Kulusuk. Mér þykir líklegt að veturseta Inúíta hafi haldist við Rypefiord til hins síðasta, eða alt að aldamótunum 1800 e.Kr. þar sem sveitin hér er hlýlegri, grösugri og veðurfar betra en utar í Scoresbysundi. Þess vegna hallast ég að C-14 1790 e.Kr. fyrir rifbeinið góða.
Sjávarborð hækkar hraðar
19.11.2020 | 10:43