Lárétt kvikuinnskot og dýpi jarðskjálfta
31.12.2023 | 21:03
Myndun á bólu á jarðskorpunni eða ris lands sem er um 50 til 100 ferkílómetar að flatarmáli, fyrst í Fagradalsfjallseldstöðinni og síðar í grend við Þorbjörn, Svartsengi og Bláa Lónið eru sennilega ótvíræð merki um að hraunkvika er fyrir hendi sem lárétt kvikuinnskot neðarlega í jarðskorpunni. Ég sting uppá hér að neðri mörk á dýpi jarðskjálfta teikni út yfirborð þessa lárétta kvikuinnskots.
Dýpt jarðskjálfta á Reykjanesi sýnir merkilega breytingu eftir gosið 18. desember, sem gefur okkur nýja innsýn í hegðun kvikuinnskotsins undir svæðinu (smellið á mynd til að stækka). Fyrir gos voru langflestir skjálftar á 2 til 6 km dýpi, eins og myndin sýnir og mjög fáir dýpri skjálftar. Tveimur dögum eftir að gos hófst á sprungunni í Sundhnúkagígum hinn 18. desember s.l. varð mikil breyting á, og skjálftar náðu niður á 10 km dýpi. Ég sting uppá að þessi breyting hafi gerst vegna þess að lagið af kviku eða kvikuinnskotið undir Svartsengi hvarf að mestu í gosinu og skorpan lagðist saman, berg ofan á berg. Fyrst aðeins smá spjall um jarðskjálftabylgjur, en þær eru aðallega tvennskonar: (1) P-bylgjur, sem eru hraðar og berast bæði í gegnum berg og vökva eins og hraunkviku, (2) S-bylgjur, sem berast í gegnum berg en ekki vökva, eins og hraunkviku. Þar sem S-bylgjur berast ekki í gegnum kviku, þá koma þær ekki fram á jarðskjálftamælum ef kvika er fyrir hendi. Þá er talað um S-bylgju skugga. Upplýsingar um dýpri jarðskjálfta skila sér ekki upp á yfirborð ef kvika er fyrir ofan. Kvikan er þá sía eða ´´filter´´sem hleypir ekki dýpri skjálftabylgjum upp á yfirborð jarðar.
Eins og myndin sýnir byrja dýpri skjálftar að birtast hinn 20. desember. Þeir ná niður á 10 km dýpi og jafnvel neðar. S-bylgju skugginn er horfinn, vegna þess að lárétta kvikuinnskotið er orðið tómt og berg legst ofan á berg aftur.
Á Aðfangadag byrja djúpu skjálftarnir að grynnast og neðri mörk skjálftanna að færast ofar, nær því marki sem ríkti fyrir gos. Það getur verið vísbending um að lárétta kvikuinnskotið sé að myndast aftur á sama dýpi og fyrir gos (6-7 km), og byrji þar með að sía út dýpri skjálfta. En kvikuinnskotið á um 6-7 km dýpi virðist vera enn mjög þunnt, því nokkrar dýpri skjálftabylgjur virðast berast upp á yfirborð og mælast. Ef til vill er uppruni þeirra við neðri mörk kvikuinnskotsins.
Hvað gerist næst? Ef ný kvika bætist við inní kvikuinnskotið þá ætti skjálftalausa bilið á 6-7 km dýpi að breikka og skjálftar fyrir neðan ´´gatið´´ að hverfa. Þar með vaxa líkur á að kvika streymi í átt að yfirborði á Reykjanesi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Annus Horribilis
29.12.2023 | 23:10
Árið er senn á enda og því tími kominn til að líta yfir farinn veg. Margt hefur gengið á, jarðskorpuhreyfingar og eldgos í næsta nágrenni, en það eru hnattrænar loftslagsbreytingar sem eru mér langefst í hug og í því sambandi er 2023 einstakt ár. Í síðust viku var sjávarhiti umhverfis Florida kominn upp í 38 oC. Þar sem ég dvel, í Massachussets í norðaustur hluta Bandaríkjanna, er hitinn í dag 10 oC. Hér hefur ekki enn komið frost, laukar spretta í görðum og grasið er grænt. Almeningur er á skyrtunni úti að ganga og fagnar góðviðrinu, en ég er mjög áhyggjufullur. Hnattræn hlýnun er stærsta ógnin sem blasir við mannkyninu. En eins og ég kem að síðar, þá er von um betra ástand í framtíðinni vegna samdráttar í fjölgun mannkyns.
Árð sem er að enda er hlýjasta árið síðan mælingar hófust, og einnig sennilega hlýjasta árið síðastliðin 125 þúsund ár. Þá var hlýskeið sem nefnist Eemian, hið síðasta fyrir ísöldina, sem lauk fyrir um tíu þúsund árum. Myndin sem fylgir fyrir ofan sýnir hvernig árið 2023 sker sig frá hinu venjulega ferli sem meðalhiti á jörðu sýnir hvert ár. Margir veðurfræðingar telja að með þessu sé að hefjast nýtt tímabil í veðurfari jarðar.
Þessi hnattræna hlýnun á loftslagi jarðar ógnar lífríki, gróðurfari, efnahag og afkomu alls mannkyns. Orsökin er fyrst og fremst útlosun af koldíoxíði, metan og öðrum gastegundum frá iðnaði og brennslu jarðefna, sem valda breytingum á lofthjúp jarðar og hlýnun.
Ein stærsta orsök sívaxandi útlosunar af skemmandi gastegundum og þar með hnattrænnar hlýnunar er offjölgun mannkynsins. Besti mælikvarðinn á offjölgun mannkyns á jörðinni er frjósemi kvenna. Hvað ber meðal kona í hverju landi mörg börn á ævinni? Á Íslandi er talan 1,6 árið 2022, sem er í meðallagi fyrir Evrópuland. En lítum til Afríku til að sjá offjölgun á fullri ferð. Heimsmetið á Niger í mið Afríku, með 6,8 börn á hverja konu að meðaltali árið 2021. Í Afríku allri er tíðnin um 4,3 börn.
Hagfræðingar segja okkur að þjóðir með háa fæðingatíðni verði aldrei ríkar, og stjórnendur í löndum ´´þriðja heimsins´´ keppast við að reyna að ná tíðninni niður sem fyrst. En í mörgum löndum, sérstaklega meðal múslima þar sem konur fá engu ráðið, er það talið aðalsmerki hvers karlmanns að eiga stóran barnahóp. Ekki bætir úr skák að fjölkvæni er stundað í um helming af Afríkuríkjum. Afganistan er eina landið í Asíu þar sem fæðingatíðni er mjög há (4,4) og má sjálfsagt kenna Taliban og múslimatrú þar um, enda er konum þar neitað um menntun.
Risarnir á landakortinu varðandi mannfjölda eru auðvitað Kína og Indland, en þessi lönd hafa náð fæðingatíðni langt niður, með frjósemi sem er nú um 1,28 í Kína og 2,05 á Indlandi. Kína þarf að passa sig á að fara ekki neðar, því það þarf frjósemi á 2,1 til að halda við mannfjölda, annars verður hröð fækkun. Á jörðu í heild hefur frjósemi hrapað frá 5,3 árið 1963, niður í um 2,3 í dag. Þetta er mikið átak og er þar sjálfsagt fyrst og fremst að þakka menntun kvenna. Þegar litið er á þessa þróun á jörðu í heild, þá er áætlað að mannfjöldi muni ná hámarki (10.9 milljarðar manna, sjá mynd til vinstri) í lok aldarinnar, árið 2100, eins og línuritið sýnir. Síðan mun mannkyni fækka. En þá verða fimm af tíu stærstu löndum jarðar í Afríku (Nígería, Kongo, Eþíópía, Tanzanía og Egyptaland).
Í upphafi þessa spjalls gaf ég von um að þróun mannfjöldans á jörðu kynni að hjálpa til með að stemma við hnattrænni hlýnun. Ef útblástur skaðlegra gastegunda minnkar að sama skapi og frjósemi staðnar og síðan lækkar (eftir 2100), þá má búast við að hnattræn hlýnun staðni að sama skapi. Það er því einhver von, en mannkynið þarf að bíða í eina öld áður en hlýnunin byrjar að snúa við.
Vísindi og fræði | Breytt 30.12.2023 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hraunkæling mun ekki virka á svona hraun
22.12.2023 | 16:43
Strax og órói byrjaði á Reykjanesi í nóvember hófust bollaleggingar um hvort hraunkæling gæti virkað til að vernda byggð í Grindavík, ef hraunrennsli stefndi á bæinn. Almannavarnir ræddu um að kaupa stórar og kraftmiklar dælur á hraunið, ef til kæmi. Ég sýni fram á hér að hraunkæling mun sennilega ekki virka á þessa tegund af hrauni.
Hraunkæling er íslensk uppfynding og á eðlisfræðingurinn Þorbjörn Sigurgeirsson (1917-1988) allan heiður af því. Þegar eldgos hófst í Heimaey árið 1973 var strax ljóst að byggðin var í mikilli hættu. Slökkviliðsmenn byrjuðu að dæla sjó á hraun sem stefndi á bæinn seint í janúar 1973 en vatnsmagnið var alltof lítið. Þá var dæluskipinu Sandey siglt inn í höfnina en það gat dælt 400 lítrum á sekúndu og kom með stálrör sem voru 56 cm í þvermál. Þorbjörn tók mjög virkan þátt í að skipuleggja þessa vinnu en hann gerði sér ljóst að verkið hefði aðeins áhrif ef fleiri og stærri dælur væru fyrir hendi. Hann taldi að dæla þyrfti 1600 rúmmetrum af sjó á sekúndu til að hraunið breytti rennslinu. Nokkrar stórar dælur voru fengnar frá Bandaríska Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og svo loks 26. mars komu flugleiðis frá Bandaríkjunum 32 stórar dælur, sem dældu alls 800 til 1000 lítrum á sekúndu á hraunið.
Langar lagnir af plaströrum voru lagðar að hrauninu og jafnvel út á það, og hraunkælingin fór að hafa áhrif. Mörg hús fóru undir hraun, en það er enginn vafi að dælingin hafði mikil áhrif og myndaði kældan og stífan hraunkannt til varnar byggðinni og hraunið leitaði sér leiða í aðrar áttir.
Hraunið sem kom upp í Heimaey er ekki basalt, heldur bergtegund sem nefnist hawaiit. Það kemur upp á um 1060 stiga hita, en basalt er á bilinu 1150 til 1200 stig. Annar mjög mikilvægur þáttur er að hraunið í Heimaey er apalhraun, með mjög úfið og spungið yfirborð. Vatn eða sjór sem dælt var á heitt hraunið hafði því greiðan aðgang og gat runnið niður sprungur djúpt inní hraunið og valdið kælingu.
Sprungugosinu í Sundhnúkagígum, sem hófst hinn 18. desember er nú lokið. Það var að mestu fyrir norðan vatnaskil á Reykjanesi og var því ekki bein ógnun við byggð í Grindavík. Hraunið stöðvaðist um 3 km fyrir norðan bæinn. Ef hraunið hefði verið mikið stærra, eða þá að nýtt gos hefst sunnar á sprungunni, þá kemur vissulega til greina að beita hraunkælingu til að verja mannvirki.
En það eru vissir þættir í einkennum kvikunnar sem nú kom upp í Sundhnúkagígum, sem benda til að hraunkæling muni ekki virka vel hér. Í fyrsta lagi er greinilegt út frá hegðun gossins að kvikan er mjög ´´þunn´´eða hefur mjög lága seigju. Hraunið rann mjög hratt frá sprungunni, og kvikustrókar benda einnig á lága seigju. Enda er hraunið dæmigert helluhraun. Fyrstu fréttir af efnasamsetninu hraunsins sýna að það er basalt, mjög líkt ungum hraunum sem hafa runnið í nágrenninu, eins og Eldvarpahrauni vestar á Reykjanekaga, frá um 1226.
Ég hef áður fjallað hér um Eldvarpahraun og þá uppgötvun að það hefur runnið til sjávar og eftir hafsbotninum sunnan Reykjaness, sjá hér https://vulkan.blog.is/blog/vulkan/entry/2296527/ Myndin er byggð á fjölgeisla dýptarmælingum. Hraunið á sjávarbotni er 3,4 ferkílómetrar, eða svipað og nýja hraunið. Mér finnst myndin af hrauninu á hafsbotni svo merkileg að ég birti hana hér aftur, en myndin er frá ISOR. Þarna kemur fram að hraunið hefur runnið 2.7 km leið frá ströndinni og virðist mynda fremur þunnt lag, svipað og helluhraunið á landi. Ef hraunkæling hefði haft veruleg áhrif á hraunið, þá hefði það hrannast upp fast við ströndina. Svo er ekki, en í staðinn hafur hraunið runnið greiðlega eftir hafsbotninum. Jarðfræðingur ISOR telur að hraunið hafi runnið eftir hafsbotni sem bólstraberg og er ég sammála þeirri túlkun.
Þessi uppgötvun frá ISOR er mikilvæg því hún sýnir okkur að vatn eða sjór hefur mjög lítil áhrif á þunnfljótandi helluhraun, eins og Eldvarpahraun og sennilega einnig nýja hraunið frá Sundhnúkagígum. Þau renna sem þunn bólstrabergshraun eftir hafsbotni. Setjum þetta þá í samhengi við hugsanleg helluhraun sem kynnu að stefna á Grindavík í framtíðinni og tilraunir til hraunkælingar þar. Hvaða áhrif hefur sjór sem er dælt á helluhraunið uppi á landi? Við vitum nú að jafnvel allt Atlantshafið dugði ekki til að stoppa hraunrennsli eftir hafsbotni í gosinu sem myndaði Eldvörp árið 1226. Ég tel út frá því að hraunkæling virki lítið eða ekki á þessa hrauntegund í grennd við Grindavík.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fagurt sprungugos
19.12.2023 | 22:20
Einhver Grindvíkingur sagði um alla jarðskjálftavirknina undanfarnar vikur ´´Þetta hættir ekki fyrr en það kemur eldgos!´´ Við sjáum nú til með það, því þessu er alls ekki lokið enn. Gosið er stórkostlegt og kemur upp í óbyggðum, sennilega á besta stað hvað varðar byggð og mannvirki. Kvikustrókarnir í upphafi gossins eru sennilega þeir fegurstu sem hafa sést á Íslandi í mörg ár. Þeir sem flugu með þyrlunni yfir gosstöðvarnar um nóttina strax og gos hófst og á meðan það var í hámarki hafa orðið fyrir lífsreynslu sem mun hafa djúp áhrif alla ævi. Gosið virðist hafa verið mjög kröftugt í fyrstu, með rennsli á bilinu 100 til 200 rúmmetrar á sekúndu, og jafnvel náð upp í 300 rúmmetra á sekúndu. Þetta er mörgum sinnum meira rennsli en í ánni Thames í Lundúnum (65 rúmmetrar á sek.), en dálítið minna en rennsli árinnar Seine í París (560 rúmmetrar á sek.). En nú er strax byrjað að draga úr goskraftinum og gæti það bent til að gosið verði frekar stutt.
Hagstæð lega gossprungunnar í óbyggðum og mikil fjarlægð frá byggð bendir til að Grindavíkurbær sé ekki í hættu. Nú þegar búið er að tappa af kvikuþrónni með myndarlegu eldgosi í óbyggðum er enn minni hætta í Grindavík og engin ástæða að halda áfram lokun bæjarins.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er búið að opna glufu
18.12.2023 | 14:42
Bláa Lónið er opið. Grindavík er enn lokað. Hvaða dómgreind er það, að leyfa opnun á svæði sem er í miðju hættusvæðinu, en halda bænum lokuðum í útjaðri svæðissins? Það er peningadómgreind, að leyfa Bláa Lóninu raka inn erlendri mynt, en á meðan eru íbúar Grindavíkur enn á flótta. En þeir eru greinilega ósáttir við það, eins og kemur fram í Mbl. í dag. Ég vil bara opna mitt fyrirtæki segir Ólafur Benedikt Arnberg Þórðarson sem rekur Hótel Grindavík og veitingastaðinn Brúna þar í bænum en honum var hótað handtöku í gærkvöldi yfirgæfi hann bæinn ekki.´´
Jarðskjálftar eru enn í gangi við Grindavík, en þeir eru vægir og munu sennilega halda áfram í nokkra mánuði. Einnig jarðskorpuhreyfingar. Þetta er ástand sem vel má búa við. Ég spái því að allri lokun verði aflétt efti fund Almannavarna og sérfræðinganna næsta miðvikudag.
Eldfjallafræðingur með kímnigáfu
18.12.2023 | 02:33
Ég starfaði í tæp tvö ár við frönsku kjarnorkurannsóknastöðina í Saclay, rétt sunnan við Parísarborg (1990-1991). Þar starfa rúmlega sjö þúsund vísindamenn, en stofnunin var sett á laggirnar af þeim frægu hjónum Irène Joliot-Curie og eiginmanni hennar Frédéric Joliot-Curie. Foreldrar hennar voru enn frægari hjón, Pierre og Marie Curie, sem gerðu grundvallar uppgötvanir um geislavirkni frumefna eins og úraníum.
Þarna rakst ég á nokkra þekkta jarðvísindamenn eins og til dæmis Haroun Tazieff (1914-1998). Ég hafði reyndar hitt hann áður í heimsókn hans til Íslands til að skoða Surtseyjargosið 1964. Það var alltaf mikill völlur á Tazieff, enda var hann frægur boxari, valinn til að keppa fyrir Belga á Olympíuleikunum í Berlín 1936. Á ferli sinum vann hann 49 af þeim 53 hnefaleikum sem hann tók þátt í.
Einn af nemendum Tazieffs var Francois Le Guern, en hann hafði varið doktorsritgerð sína skömmu áður en við hittumst í París 1990. Hann færði mér hana að gjöf en ritgerðin fjallaði um eldfjallagas.
Þegar ég fór að blaða í bókinni rak ég mig á að þar var mikill fjöldi af teikningum, sem voru af eldfjallafræðingum við störf, og allar heldur skoplegar. Þær voru allar merktar P.B. og seinna komst ég að því að sá var Pierre Bichet (1922-2008), hægri hönd Tazieffs í öllum eldfjallaleiðöngrum hans og kvikmyndatökumaður. Bichet vann með Haroun Tazieff í tæp fjörutíu ár. Hann vann mikið við kvikmyndaupptöku með Tazieff, en fyrst gerðu þeir myndina Les Rendez-vous du diable (Fundur með djöflinum, 1959), og síðar Le Volcan interdit (Lokaða eldfjallið, 1966, um Niragongo í Afríku). Hér með í þessu spjalli hef ég dreift nokkrum sýnishornum af teikningum hans Pierre Bichet. Púkar eldfjallanna voru greinilega mikið hugðarefni hans.
En snúum okkur aftur að Haroun Tazieff. Það er hægt að skrifa margar bækur um þennan sérstaka mann. Hann var Tatar að uppruna, ættin komin frá Mongóliu, en fæddur í Rússlandi. Faðirinn fórst í fyrri heimstyrjöldinni, en Haroun og móðir hans settust að í Belgíu. Síðar settist hann að í París.
Árið 1976 kom upp órói í eldfjallinu Soufriere á Frönsku eyjunni Guadeloupe í Karíbahafi. Jarðhiti jókst mjög hratt á svæðinu og gufusprengingar í topp fjallsins. Þá bjuggu 73.600 manns á hættusvæðinu og menntamálaráðherra Frakklands gaf út skipun um almenna rýmingu og lokun svæðisins umhverfis eldfjallið, sem varði í marga mánuði. Ráðherrann var reyndar sjálfur Claude Allegre, fremsti jarðefnafræðingur Frakklands, fyrr og síðar. Brottflutningur fólks í burt frá La Soufriere eldfjalli er sennilega mesta röskun á byggð tengd eldfjallsvá.
Það kom nú upp hatrömm deila milli Tazieff og Allegre. Sá fyrri hélt því fram að þetta væru einungis gufusprengingar og engin kvika á ferðinni. Hann mælti með að opna svæðið strax og hleypa fólkinu heim. Allegre sat fastur við sinn keip og lýsti því yfir að það væru glerkorn í öskunni sem væri sönnun um að hraunkvika ætti þátt í gufusprengingunum. Allegre réði og lokunin hélt áfram.
Skömmu síðar komst ég að hinu sanna í þessu máli. Jarðfræðingur sem ég hafði starfað með í Vestur Indíum var einn af ráðgjöfum Allegre. Hann rannsakaði leirinn sem slettist upp í gufusprengingunum og lýsti því yfir að í honum væru glerkorn, og þar með sönnun um að kvika væri fyrir hendi. Þetta var sönnun þess að eldgos væri yfirvofandi og réttlætti lokun hans Allegre á byggðinni. Seinna komst ég yfir þær þunnsneiðar sem glerið átti að finnast í og athugaði þær undir smásjá. Ég rakst ekki á eitt einasta glerkorn, en aftur á móti var töluvert af kornum og kristöllum af steindinni epídót, sem er algeng í bergi sem hefur verið ummyndað af jarðhita við um 300 stig. Það er vægast sagt klaufalegt að ruglast á gleri og epídót kristöllum í smásjá, en fyrir þessi mistök voru yfir 73 þúsund íbúar fluttir frá heimilum sínum í tæpt eitt ár. Allegre var samt ekki af baki dottinn. Hann beitti valdi sínu sem ráðherra og lét reka Tazieff úr starfi í hefndarskyni.
Tazieff setti eldfjallafræðingum þrjár reglur til að vinna eftir í sambandi við hættu frá eldgosum. (A. McBirney, Nature. 392, 444, 1998). Hér notum við heitið eldfjallafræðingur í mjög breiðum skilningi fyrir vísindamenn, sem hafa sérhæft sig í myndun og þróun kviku og jarðskorpuhreyfingum í gosbeltum.
1, Fyrsta regla Tazieffs er að aðeins sérfræðingar séu færir um að meta vá eða áhættu sem gæti stafað af virkni eldfjalla. Slíkt sé utan verksviðs hins almenna jarðfræðings og auðvitað ekki á hæfi þeirra sem stýra bæjarfélagi eða lögreglu.
2. Fyrsta verk sérfræðingsins er ekki að spá fyrir um eldgos, heldur er það fyrst og fremst áhættumat varðandi umhverfið og mat á þeim skaðlegu áhrifum sem eldgos kynni að valda á menn og byggð.
3. Hlutverk sérfræðingsins er að vera ráðgjafi fyrir opinbera starfsmenn, sem þurfa að bregðast við og ráðast í framkvæmdir sem eru byggðar á hans ráðgjöf.
Gestablogg frá Árna B. Stefánssyni, augnlækni
17.12.2023 | 12:57
Gestablogg frá Árna B. Stefánssyni, augnlækni
Ráðuneytið gefur Veðurstofu Íslands grænt ljós á átta nýja sérfræðinga. Hvað er Veðurstofan að hugsa? Hvað er Norræna Eldfjallastöðin að hugsa. Hvað er Jarðvísindadeild HÍ að hugsa? Hvað bull er þetta? Af hverju taka þessar stofnanir sig ekki saman og/eða Umhverfis og Loftslagsráðuneyti og setja sama fagráð? Sem í sitja þrír, fimm eða sjö einstaklingar með akademískan bakgrunn, reynslu og þekkingu á Reykjanesskaga, reynslu og þekkingu á jarðskjálftum og reynslu og þekkingu af eldgosum, gráðu í stjórnun og ákvarðanatöku?
Það eru engir átta nýir sérfræðingar í því sem nú er að gerast á Reykjanesskaga á lausu. Þeir eru ekki til, ekki svona margir. Sjálfsagt hefur fjöldi ungs jarðvísindafólks hérlendis og erlendis áhuga, en það eru mörg ár í að það fólk verði raunverulegir sérfræðingar.
Í frétt að íbúafundi Grindavíkur 12.10. segir á forsíðu Mbl.
1. Ekki talið óhætt að halda jólin í Grindavík
2. Fyrirvari á eldgosi í nágrenni við Grindavík gæti orðið skammur
3. Veðurstofa Íslands treystir sér ekki til þess að sjá um öflugt eftirlit ásvæðinu að næturlagi.
4. Því er ekki talið óhætt að hleypa fólki inn í bæinn á þessu ári.
Þetta er slík og þvílík steypa að það er hreint ótrúlegt að enginn skuli hafa andmælt.
Það er engin hætta af eldgosi í Grindavík! Sú hætta er bara ekki til staðar. Það var heldur engin hætta á eldgosi þegar bærinn var rýmdur! Hugsanlega NA til á Sundahnúkareininni, eða við Svartsengi, en ekki í Grindavík.
Það var alla tíð skoðun mín að sá hluti íbúa sem þegar var farinn 10.11, hefði farið vegna jarðskjálftanna. Sem vissulega voru með því versta sem fólk hefur upplifað á Reykjanesskaga, enda fókusinn nánast beint undir bænum. Ef eldgos hefði
komið upp, hefði það komið upp norðaustan til á Sundahnúkareininni. Ekki í Grindavík. Það sama á við nú. Komi upp eldgos er nægur tími fyrir Grindvíkinga að forða sér. Það eru jarðskjálftarnir sem eru að ræna fólk svefni, það eru
jarðskjálftarnir sem hafa gert fólk hrætt og rænt það öryggiskennd.
Það er engin ástæða til að ganga frekar á öryggiskennd íbúa Grindavíkur með eilífu hjali og afar illa grunduðu, um yfirvofandi eldgos. Eldgos er ekki yfirvofandi í Grindavík. Sigdalurinn, fleyglaga í þverskurði, er tappi sem kvika kemst ekki upp í gegnum. Jarðskjáftarnir eru yfrið nóg. Íbúar Grindavíkur þurfa hughreystingu, ekk illa grundað eldgosahjal. Vissulega má halda því fram með rökum að hætta sé á eldgosi við Svartsengi, Bláa Lónið og þar austur eða vestur af. Hækkunin í Svartsengi nú, er sjötta hækkunin frá 2021. Af hverju gaus ekki í hinum fimm hækkununum? Það er engin hætta að kvikulinsan sem nú er undir Svartsengi finni sér leið upp í Grindavík. Það er bara útilokað. Hugsanlega gýs á Sundahrnúkareininni. Ef, þá langt norðaustan við bæinn. Spár um eldgos hljóta að byggjast á jarðvísindalegum gögnum, færni til að lesa úr þessum gögnum, færni til að túlka þau, yfirgripsmikilli þekkingu og dómgreind. Það er greinilegt að ekki er nægileg þekking, færni og reynsla til staðar á Veðurstofu Íslands til að lesa og túlka gögnin. Eldgosa- og jarðskjálftaspár byggja á gögnum, ekki trú. Það er þrennt aðfinnsluvert.
1. Það er eins og þeir jarðvísindamenn sem um eldgosin og jarðskjálftana á Reykjanesskaga hafa fjallað þekki ekki almennilega til eldgosa- eða jarðskjálftasögu Reykjanesskskaga. Eldgos og jarðskjálftar eiga sér nánast undantekningalaust uppruna á hálendi skagans. (Búrfell með Hafnarfjarðarhrauni er undantekning 5.5-6000 ára). Hrauntaumar hafa vissulega náð til sjávar. Harðir jarðskjálftar skóku Reykjavík á öldum áður og
rétt fyrir 1930 og 1968. Lítið skemmdist og enginn fórst. Jarðskjálftar og eldgos á Reykjanesskaga s.l. 4000 ár hafa hvergi nærri verið eins voðalegir atburðir og af er látið
2. Á þeim tæpu þrem árum sem goshrinan hefur staðið, hefur í tíma og ótíma verið talað um hættur. Í upphrópunum. Voði, skelfing. Hætta á að innviðir skemmist, hætta á loftmengun, hætta af jarðskjálftum, hætta af djúpum gjám, hætta á að Suðurstrandavegur fari undir hraun, hætta á að verða fyrir grjóthruni í fjallgöngum, hætta á að Vogar fari undir hraun. Spárnar hafa ekki staðist. Hætturnar eru ekki jafn miklar og af er látið. Fólk er raunverulega farið að trúa því að hætturnar séu skelfilegar og óyfirstíganlegar.
3. Almannavarnir eru meðvirkar. Spila með. Meðvirkni er eitruð
stjórnunaraðferð. Sá meðvirki gerir þann (almenning) sem stjórnað er háðan sér (Almannavörnum) án þess að skilja hvers vegna. Fær hann (Almannavarnir) út úr því heilmikinn auka (sekunder) ávinning. Hinum sem stjórnað er (almenningi) líður vel eða illa undir þeirri stjórn eftir atvikum, yfirleitt frekar ver, eða jafnvel illa.
Það þarf að setja saman ráðgjafanefnd, þriggja, fimm eða sjö einstaklinga, sem hafa næga þekkingu, reynslu og manndóm til að bera, til að taka jafn afdrifaríkar ákvarðanir og raun ber vitni og axla ábyrgðina. Sem um leið hafa nægilega þekkingu, reynslu og manndóm til að breyta ákvörðunum með skömmum
fyrirvara, taka nýjar og axla á þeim ábyrgð. Og persónustyrk og útgeislun til að telja fólki hughvarf. Tveir, fjórir, eða sex nefndarmanna séu jarðvísindamenn. Nefndarformaður sé stjórnmálamaður, eða valinkunnur einstaklingur úr stjórnsýslunni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvorir eru betri á Reykjanesið og Grindavík: Innfluttir ítalskir sérfræðingar eða vanir heimamenn?
15.12.2023 | 23:45
Nýlega barst út sú frétt í fjölmiðlum, að Almannavarnir stefni á að flytja til Íslands nokkra eldfjallafræðinga frá Ítalíu, sem ráðgjafa um atburði og eldgosahættu á Reykjanesi. Mig rak í rogastans yfir þessari frétt, fyrir ýmsar sakir. Í fyrsta lagi eru jarðskorpuhreyfingar allt aðrar á Ítalíu en á Íslandi. Í því fagra landi rekast jarðskorpuflekar saman, þvert á við gliðnun fleka á Íslandi. Þeir þekkja ekki gjár og sprungur og hafa enga reynslu í gosbelti sem er að togna í sundur. Bestu sérfræðingar á því sviði eru í Hawaíi, fyrir utan íslenska jarðvísindamenn.
Þá er ég kominn að spurningunni sem felst í titli þessa pistils: Hvar eru jarðvísindamennirnir, sem ekki starfa fyrir Almannavarnir en hafa mesta reynslu í rannsóknum á jarðfræði og jarðeðlisfræði á Reykjanesi?
Það er engin tilviljun að Reykjanesið er meira og betur rannsakað en nokkurt annað svæði á Íslandi, hvað varðar jarðfræði og jarðeðlisfræði. Það er ekki vegna nándar við Reykjavík, heldur stafar það af áhuga íslendinga á að virkja jarðorku, sem er fyrir hendi í miklu magni á Nesinu. Ríkisstofnanir eins og Orkustofnun og stofnanir eins og ISOR, HS Orka og fleiri hafa rannsakað jarðfræði og hugsanlegar orkulindir Reykjaness í áratugi. Þar hefur safnast saman mikill sjóður af fróðleik og þekkingu um alla þætti jarðvísinda Reykjaness. Ég tek hér saman fyrir neðan nokkur nöfn þeirra sem starfa á Nesinu en eru ekki beint tengdir liði Veðurstofu og Háskóla Íslands.
Brautryðjandi í jarðfræðirannsóknum á Reykjanesi er tvímælalaust Jón Jónsson (1910-2005), sem starfaði lengi við Orkustofnun. Eftir margra ára starf gaf Jón út hið fyrsta Jarðfræðikort af Reykjanesskaga árið 1978. Hann gerði sér fulla grein fyrir því að hér eru margar ungar eldstöðvar og árið 1964 skrifaði Jón grein í Vikuna undir fyrirsögninni: Það má búast við gosi á Reykjanesi. ´´Gosið gæti hvenær sem er á Reykjanesskaga´´ segir Jón í Morgunblaðinu árið 1965.
Kristján Sæmundsson er tvímælalaust sá jarðfræðingur sem þekkir Nesið best. Hann birti mjög nákvæmt Jarðfræðikort af Suðvesturlandi og Reykjanesi árið 2016. Það má vel minnast á, að Kristján er talinn meðal fremstu jarðfræðinga á jörðu á því sviði að gera jarðfræðikort og hefur verið verðlaunaður fyrir.
Gudmundur Ómar Friðleifsson stýrði jarðborun niður á 4.5 km dýpi á Nesinu (og í 550 stiga hita ) og hefur með því fært okkur nýja sýn á eðli neðri hluta jarðskorpunnar.
Haukur Jóhannesson og félagar birtu merk rit, Krísuvíkureldar 1, Jökull 1989 og Krísuvíkureldar 2. Jökull 1991.
Það er of langt mál að fara yfir störf hvers og eins, en ég nefni einnig þessa jarðvísindamenn, sem hafa starfað eða eru starfandi á Reykjanesi.
Magnús Á. Sigurgeirsson
Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur
Sigurjón Jónsson jarðeðlisfræðingur
Sigmundur Einarsson
Ragnar Stefánsson
Eftir lauslega könnun virðist svo að Almannavarnir hafi ekki leitað til þessara reyndu manna varðandi umbrotin á Reykjanesi.
Það er víst viss tegund af íslenskri minnimáttarkennd að útlendingar viti alltaf betur en heimamenn. Það er rétt í vissum tilfellum, vegna þess að þjóðin er lítil, en í jarðvísindum er það alls ekki svo. Á landinu búa allir þeir sem eru sérfræðingar á öllum hliðum jarðvísinda á Reykjanesi. En yfirvöld hafa sniðgengið þá kunnáttu.
En snúum okkur nú aftur að Ítölum. Það verður ekki af þeim skafið, að ítalir voru fyrstir manna til að gera tilraun til að breyta rennsli hrauns. Það gerðist árið 1669, þegar Etna á Sikiley gaus miklu hraungosi (sjá mynd). Hraunið var úfið apalhraun sem stefndi í átt að borginni Catania á austur strönd Sikileyjar. Það streymdi inn í suður hverfi borgarinnar og braut niður húsin.
Leiðtoginn don Diego Pappalardo safnaði liði. Hans menn klæddust vatnssósa nautahúðum til að verjast hitanum. Þeir gripu járnstangir, skóflur og járnkarla og réðust á jaðar hraunsins, til að reyna að valda rennsli til suðurs.
Þegar athafnir þeirra virtust bera árangur, þá kom vopnað lið frá næsta bæ (Paterno) og stöðvaði allar frekari aðgerðir. Úr þessari deilu varð mikið pólitískt mál, og þá varð það bannað með lögum að breyta rennslisstefnu hrauna á Italíu. Sú löggjöf var loks felld niður árið 1983.
Nú vitum við hvers vegna Grindavík er enn lokað
14.12.2023 | 18:42
Þetta kom fram á íbúafundi Grindvíkinga hinn 12. des. 2023, sem Morgunblaðið segir frá. ´´Það verða sennilega engin jól haldin í Grindavík þar sem ekki er talið óhætt fyrir Grindvíkinga að flytja aftur heim fyrir áramót. Stór ástæða fyrir því að er að Veðurstofa Íslands treystir sér ekki til þess að sjá um ásættanlegt eftirlit á svæðinu að næturlagi.´´
Veðurstofan treystir sér ekki til þess að halda úti öflugu eftirliti með svæðinu að næturlagi, sagði Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.´´ Og svo þetta ´´Til að halda úti ásættanlegu eftirliti, og þar með tryggja öryggi Grindvíkinga í bænum, þyrfti m.a. að fá nægan mannskap í verkið og viðeigandi tækjabúnað, þar sem fyrirvari eldgoss gæti orðið afar lítill.´´ [Það] virðist ekki óhætt í dag að hleypa fólki inn í Grindavík á þessu ári, sagði hann. Má túlka þetta þannig, að ef Veðurstofan sendir inn á völlin nægilegt lið til að halda vaktir dag og nótt, þá mætti opna bæinn?
Frá 11. desember 2023 hef ég birt um 20 þætti um jarðskorpuhreyfingar þær sem nú eru í gangi í grennd við Grindavík, í boggi mínu á https://vulkan.blog.is. Viðbrögð voru góð en flettingar á bloggsíðu minni hafa verið alls 1.283.927 til þessa. Einnig hafa skoðanir mínar komið fram í viðtölum við ýmsa fjölmiðla, innlenda og útlenda. Ég setti strax fram þá skoðun mína að þessir atburðir væru fyrst og fremst jarðskorpuhreyfingar, tengdar gliðnun Norður Ameríkuflekans til vesturs, frá Evrasíuflekanum í austri. Kvika væri vissulega fyrir hendi á svæðinu, eins og kom fram í þremur litlum gosum í grennd við Fagradalsfjall árin 2021, 2022 og 2023, en það væri ekki kvika sem ráði ferðinni hér, heldur flekahreyfingar.
Myndun á bólu eða risi lands um 50 til 100 ferkílómetar að flatarmáli, fyrst í Fagradaldfjallseldstöðinni og síðar í krinum Þorbjörn og Bláa Lónið eru sennilega ótvíræð merki um að hraunkvika er fyrir hendi neðst í eða undir jarðskorpunni. Þrátt fyrir mikla gliðnun og hugsanlega myndun kvikugangs norðan Grindavíkur, þá hefur kvikan ekki náð enn upp á yfirborð. Myndin sýnir bóluna (rautt) sem markar landris fyrir norðan Grindavík frá 19. nóvember 2023. Kvikuþrýstingur eða kvikumagn í bólunni nálægt botni jarðskorpunnar er ekki nægjanlegt til að valda eldgosi. Það er ekkert nýtt fyrirbæri á Íslandi, að jarðskorpan rifni og skjálfi, án þess að úr verði eldgos.
Það er ekkert sem bendir til að það sé að vænta breytinga á þessu ástandi á næstunni. Þrátt fyrir það hafa Almannavarnir lokað Grindavíkurbæ og flutt alla íbúa á brott. Allt bendir til að sú lokun standi fram á næsta ár. Það er erfitt að gera sér í hugarlund þau áhrif sem langtíma lokun og rýming bæjarins hefur á efnahag og enn fremur á hugarfar og sálarástand íbúanna sem nú eru í útlegð. Hver og einn getur reynt að seta sig í spor flóttafólksins. Að mínu áliti er lokunin og framlenging hennar ekki réttlætanleg frá sjónarhóli jarðfræðings sem hefur rannsakað eldfjöll í sextíu ár. En skrif mín á blogginu hafa verið eins og hróp í eyðimörkinni. Enginn heyrir, og þeir sem heyra taka ekki mark á skoðunum aðila sem fylgir ekki hinni opinberu línu.
Mér er reyndar óskiljanlegt hvers vegna Almannavarnir og Veðurstofan hafa haldið áfram lokun á Grindavík. Íslendingar hafa alltaf vitað að þeir búa á landi þar sem náttúrhamfarir eru óhjákvæmilegur þáttur lífsins. Það þarf seiglu til að búa á slíku landi og það er viss áhætta, en það er einmitt eitt af aðalsmerkjum Íslendinga.
Hvar eru hin eiginlegu flekamót?
6.12.2023 | 22:18
Síðan umbrotin miklu hófust á Reykjanesi hinn 9. nóvember 2023, þá hefur jarðskjálftavirkni verið nokkuð dreift yfir Reykjanesið og því erfitt eða ómögulegt að gera sér grein fyrir hvar hin eiginlegu flekamót eru milli Norður Ameríkuflekans fyrir norðan og Evrasíuflekans fyrir sunnan nesið. Það er mikilvægt að átta sig á því, vegna þess að sennilega streymir kvikan mest upp úr möttlinum á eða alveg í grennd við flekamótin.
Ég rakst á þessa mynd í dag á vef ISOR. Hún er merkileg á ýmsan hátt. Myndin sýnir gögnin fyrir eitt ár (2020) af skjálftum, sem gerðust fyrir umbrotin miklu í nóvember 2023. Myndin sýnir okkur ansi vel hvar flekamótin raunverulega eru, en þau eru á frekar mjóu og vel afmörkuðu svæði, sem er um 4 til 5 km á breidd. Því miður var engin virkni í austur hluta gosbeltisins þetta árið, svo flekamót eru ekki eins vel þekkt þar.
Flekamótin liggja ekki eftir nesinu miðju, heldur vel fyrir sunnan miðju Reykjaness. Það er merkileg asymmetría eða misskipting milli norður og suður helmings nessins, sitt hvoru megin við skjálftabeltið. Norður helmingurinn virðist stækka meira, sennilega af dyngjuhraunum. Renna dyngjuhraun sjaldan eða aldrei til suðurs, spyr ég. Eða er það bara miklu meira rof á sunnanverðu nesinu vegna ríkjandi vindáttar og sjávarrofs. Það þykir mér líklega skýringin.