Lárétt kvikuinnskot og dýpi jarðskjálfta (framhald)

Á Gamlársdag bloggaði ég um dreifingu á dýpi jarðskjálfta á Reykjanesi vestanverðu. Ég hafði rekið mig á að það virðist ekki vera jöfn dreifing á upptökum skjálfta eftir dýpi, og einkum fannst mér vera bil á 6 til 7 km dýpi, þar sem færri skjálftar eiga upptök sín. En mynd mín var mjög gróf þar sem ég gat ekki skoðað einstök lítil svæði, heldur varð ég að taka allt vestanvert Nesið, frá Fagradalsfjalli og vestur í haf. Mínar bollaleggingar voru í þá átt að bilið á 6 til 7 km dýpi kynni að vera vegna láréttra kvikuinnskota. Það bil væri þá S-skuggi, vegna þess að S-bylgjur berast ekki í gegnum kviku. 

Nú hefur Einar Hjörleifsson,  fiskifræðingur og fyrrum doktors-nemandi í mínum gamla skóla, Graduate School of Oceanography í University of Rhode Island, og náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, kannað dýpi á upptökum jarðskjálfta á vestanverðu Reykjanesi fyrir desember 2023, og sett það fram á landakorti til að kanna dreifingu og dýpi saman  — sjá fyrstu mynd.  Í staðinn fyrir eina vídd í fyrra bloggi mínu á Gamlársdag, þá erum við nú komnir með þriðju víddina á dreifingu jarðskjálfta í skorpunni á þessu svæði.  Kortið sem Einar bjó til er frábært en kemur manni reyndar töluvert á óvart, satt að segja.  En það er alltaf gaman að læra eitthvað nýtt um jörðina.  

Kort-dýpi

Einar gerði einnig histogram (seinni myndin) sem sýnir dreifingu á dýpi allra skjálfta í desember 2023 á þessum þremur svæðum.  Í fyrsta lagi kemur í ljós að dýpri skjálftar (>6 km) koma fram fyrst og fremst undir svæðinu umhverfis Fagradalsfjall, en lítið eða ekki undir hinum svæðunum tveimur, Krísuvík og Sundahnúksgígaröðinni.  

   Þetta kom mér á óvart í fyrstu, en það er reyndar alveg lógískt, ef við gerum ráð fyrir því að leifar af láréttu kvikuinnskoti séu enn fyrir hendi á >6 km dýpi undir Sundahnúksgígaröðinni og Krísuvík, en slíkt kvikuinnskot mun hindra bylgjum frá dýpri skjálftum að komast upp á yfirborð.  Hins vegar virðist kvikuinnskotið vera horfið undir svæðinu umhverfis Fagradalsfjall, og dýpri skjálftar ná því yfirborði þar. 

HistogramEf til vill er Fagradalsfjall alveg búið að tappa af kviku og lárétta innskotið horfið. Kvika undir hinum tveimur svæðunum virðist enn valda S-skugga og koma í veg fyrir að djúpar skjálftabylgjur komist upp á yfirborð.  En að öllum líkindum myndast einnig dýpri skjálftar undir svæðinu umhverfis Krísuvík og undir Sundahnúksgígaröðinni, en þeir gleypast í S-skugga sem lárétt kvikuinnskot veldur.

 

Austast á kortinu er svæðið umhverfis Krísuvík en það sýnir dreif af grunnum skjálftum og nokkrum dýpri, en engan greinilegan strúktúr eða sprungustefnur. Maður gæti haldið að það sé merki um lárétt kvikuinnskot. Ef svo er, þá er hér stórt lárett innskot af kviku, sem getur verið 50 til 100 ferkm.  Ef til vill eru líkurnar á gosi mestar hér. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband