Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Rostungstennur voru Fílabein Norðursins

 

RostungurÍ fyrrasumar fór eg í gönguferð út á Hítarnes á Mýrum og gekk alla leið suður að Akraósi. Þetta er falleg og skemmtileg gönguleið.  En erindi mitt var mjög markvisst: ég var að leita að rostungstönnum.  Ekki fann ég nú annað merkilegt í fjörunni en myndarlegt hvalbein, en ástæðan fyrir ferð minni á þessar slóðir var lýsing á skipsbroti í Kongungsannál frá árinu 1266.  Þar segir svo: 1266 IV. Konungsannáll: Þá braut Grænlandsfar á Hítarnesi, xli menn létust.”  Ég geri ráð fyrir að þetta séu 41 menn, sem fórust.  Aðrar heimildir telja að hér hafi verið biskupsskip á ferð, hlaðið dýrmætum farmi frá Grænlandi og að lengi á eftir hafi fundist rostungstennur í fjörunni í grennd við Hítarnes.   

Rostungstennur frá Grænlandi urðu snemma dýr og eftirsótt verslunarvara, en þær voru taldar gersemar á miðöldum. Þá er sýna átti erlendum þjóðhöfðingjum og höfðingjum mikla sæmd voru þeim færðar rostungstennur að gjöf. Bæði Hákon konungur gamli og Magnús lagabætir sendu til dæmis Englakonungi slíkar gjafir.  Hrafn Sveinbjarnarson færði hinum heilaga Tómasi Becket  í Kantaraborg á Englandi rostungstönn að gjöf á ferð sinni til suðurlanda í byrjun þrettándu aldar.   Rostungstennur eru einnig nefndar sem útflutningsvörur í réttarbót Hákonar konungs frá árinu 1316.  Verðið var talið um hálf mörk silfurs hver rostungstönn.  Mörk silfurs er talin um 214 grömm, en til samanburðar má geta þess að árslaun vinnumanns voru 1 mörk silfurs. Auk rostungstanna voru auðvitað ýmsar aðrar dýmætar vörur frá Grænlandi, sem verslað var með á miðöldum. Þar á meðal feldir hvítabjarndýra, fálkar og tennur náhvela, sem sumir Evrópumenn töldu vera horn einhyrninga. 

Á Grænlandi munu norrænir menn hafa fangað rostung fyrst og fremst í Norðursetu, sem er svæðið umhverfis og fyrir norðan Diskóeyju.  Þessi frægi veiðistaður er allangt fyrir norðan Vestribyggð, en þar fengu þeir rostung eða romshval, nærri ísröndinni.  Hér munu norrænir menn hafa stundað veiðar í grennd við inúíta eða eskimóa, sem veiddu hér sel á ísröndinni. 

Rostungar koma fyrir við strendur Íslands, en rostungalátur hafa ekki verið mikilvæg hér við land. Síðast kom rostungur inn í Rifshöfn á Snæfellsnesi árið 1983.  Þá finnast tennur öðru hvoru hér, einkum á ströndum Snæfellsness.  Þrjár rostungstennur fundust við fornminjauppgröft í skálanum í Aðalstræti 14-16  í Reykjavík og sennilega voru þær verslunarvara. Brimill

Romshvalur eða rostungur var greinilega mjög mikilvægur fyrir norræna menn á Grænlandi og sennilega hafa sumir þeirra safnað auði vegna verslunar með þetta fílabein norðursins. Þar voru veglegar og vandaðar steinkirkjur reistar, eins og til dæmis dómkirkjan að Görðum og Hvalseyjarkirkja.  Engar slíkar kirkjur voru reistar á Íslandi á miðöldum. Tíundin fyrir kristna menn á Grænlandi var greidd í Páfagarð í rostungstönnum, selskinnum og húðum. Árið 1327 veitir til dæmis páfalegur legáti móttöku 260 rostungstönnum úr Garðabiskupsdæmi.

Á fyrri hluta miðalda kom rostungstönnin í stað hins eiginlega fílabeins.  Fílabein hefur verið í miklum metum meðal hástéttarinnar alla tíð frá Egyptum til forna og sennilega enn lengra aftur í tímann. En efnið sem við köllum ivoire, ivory eða fílabein er tannvara, sem kom ekki eingöngu frá fílum. Tennur náhvela, rostunga, flóðhesta og jafnvel svína voru einnig seldar sem fílabein. Einnig tennur háhyrninga og búrhvela. Besta fílabeinið er talið koma úr flóðhestatönnum. 

Í Kína er saga fílabeinsins enn lengri, eða aftur til um 5000 f.Kr.  og einnig á Indlandi.  Til forna voru það Fönikíumenn sem fluttu fílabein frá Indlandi til Evrópu. Eftir fall Rómarveldis lagðist þessi verslun af og í nokkur hundruð ár var erfitt að fá fílabein í Evrópu.  Á þessu tímabili kom rostungstönnin þá í stað fílabeins og naut strax mikilla vinsælda allar miðaldirnar.  Þetta kunna að hafa verið uppgripatímar fyrir norræna menn á Grænlandi í nokkur hundruð ár. Þeir gátu komist yfir mjög dýrmæta vöru, sem þeir versluðu með suður í Evrópu.

Það var ekki fyrr en á fimmtándu öld að Feneyjakaupmenn hófu viðskifti við þjóðflokka í austur Afríku og í löndum sunnan Sahara. Þá dró úr eftirspurn eftir rostungstönnum, enda samband við Grænland orðið mjög slitrótt vegna loftslagsbreytinga á norðurslóðum: litla ísöldin var gengin í garð. Á sautjándu öldinni hófst svo verslun Evrópumanna í vestur Afríku, á Fílabeinsströndinni.  Á nítjándu öldinni var fílabein orðið mikilvægt hráefni fyrir vissan iðnað.  Aðal eftirspurnin fyrir fílabein var sem hráefni til að framleiða billiardkúlur, hvíta píanólykla, hnappa, hnífsköft og hárkamba og greiður.  Þetta var fyrir daga plastíksins og eftirspurnin eftir fílabein var nú gífurleg. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband