Liang Bua og Hobbitarnir á Flores
9.12.2009 | 19:33
Ég var ákveðinn í því að komast alla leið austur til eyjarinnar Flores á ferð minni um Indónesíu í nóvember 2009. Hvað er svona spennandi við Flores? Eyjan er um 375 km á lengd, hálend, og full af eldfjöllum. Eini vegurinn sem nær eftir eynni endilangri er ótrúlega krókóttur, holóttur og seinfarinn, en samt þurfti ég að fara austur til Flores. Jú, þar bjuggu hobbitarnir áður fyrr. Ég skal skýra þetta frekar. Þangað til í september árið 2003 var það álit vísindamanna að mannkynið, þ.e. fólk eins og við, Homo sapiens, hefðum verið ein í heiminum síðan Neanderthal maðurinn (Homo neanderthalensis) varð útdauður fyrir um 30 þúsund árum. Í september 2003 breyttist allt þetta, þegar leifar af áður óþekktum mannverum fundust í hellinum Liang Bua á Flores. Hellirinn var fyrst rannsakaður í kringum 1955 af hollenskum kaþólskum presti sem bjó lengi á Flores, Theodor Verhoeven að nafni. Hellirinn er í kalksteini frá Tertíera tímanum, en hann er um 14 km fyrir norðan bæinn Ruteng, þar sem ég fékk ágæta næturgistingu hjá nunnum í kaþólska klaustrinu. Það eru um 25 km frá hellinum og til strandar fyrir norðan Flores. Frá hellisopinu er litið yfir fagran dal, sem er þakinn hrísökrum, og yfir Wae Racang ána, í um 500 metra hæð yfir sjó. Hellirinn er um 30 m á breidd, 25 m á hæð og 40 m langur. Það er um 12 metra þykkt lag af sandi, leir og mannvistarleifum í hellisgólfinu í Liang Bua og enn er aðeins lítill hluti þess kannaður. Beinagrindin sem fannst árið 2003 er af konu, sem var rétt um einn meter á hæð, en síðan hafa fundist leifar af alls 14 einstaklingum í hellisgólfinu. Yngstu beinin eru um 17 þúsund ára gömul, og ofan á þeim hvílir ljóst lag af eldfjallsösku. Fornleifafræðingarnir hafa gizkað á, að útdauði hobbitanna hafi ef til vill orsakast af áhrifum frá þessu eldgosi. Einnig fundust steinaldar tól af ýmsu tagi við uppgröftinn, sem flest voru unnin úr tinnu eða hraunsteini. Það er ljóst að hobbitarnir voru gáfaðir og hagir og bjuggu til og notuðu verkfæri, og nýttu sér einnig eldinn til matreiðslu. Þeir voru því greinilega þróaður kynþáttur. Samt var heilabú þeirra mjög smátt, eða aðeins um 400 rúmsentimetrar. Til samanburðar er heilinn hjá okkur Homo sapiens í kringum 1100 rúmsentimetrar. Ferðalagið var strembið. Fyrst tók það okkur tvo daga að komast til bæjarins Ruteng, eftir krókóttum vegum. Síðan var ekið norður um hálendi, og þá niður í fagran dal þar sem hellirinn er. Það er áhrifarík stund þegar maður kemur inn í Liang Bua hellinn. Hvelfingin yfir höði manns virðist risastór, en niður úr henni hanga hundruðir af leirsteinskertum, sem gefa hellinum skrautlegt útlit. Gólfið er nokkuð slétt, en góð birta fellur inn í hellinn innum stóra opið. Afmarkaðir reitir á gólfinu sýna hvar fornleifafræðingar hafa grafið, og svæðin eru ferhyrnd, um 2 til 4 metrar á kannt. Að loknum uppgreftri er mokað ofaní aftur. Það er ljóst að mikið svæði er enn ókannað, og er spennandi að bíða frekari uppgötvana hér. Aðgangur var greiður, og ekkert eftirlit var haft með því hvort við værum að grúska, grafa eða bara taka myndir. En samt er byrjað að undirbúa Liang Bua sem ferðamannasvæði og er líklegt að fjöldi fólks leggi leið sína hingað í framtíðinni. Ferðin er vel þess virði, ekki bara fyrir landslagið og dalinn fagra. Íbúar Flores eyjar hafa þjóðsögur og sögusagnir um lítið fólk sem býr í frumskógum eyjarinnar. Umsjónarmaður Liang Bua sagði mér að hann gæti farið með mig heim til lifandi fólks í þorpinu sem væri alveg eins og hobbitarnir, og aðeins rúmlega meter á hæð. Þegar ég sýndi málinu áhuga, þá tjáði hann mér að það myndi kosta mig $20 að sjá konuna og $30 manninn. Ég áttaði mið þá á að ferðaiðnaðurinn er kominn vel af stað í Liang Bua, og hætt við að hér verði kominn sirkus eftir nokkur ár. Ég afþakkaði boðið.Í fyrstu var deilt mikið um eðli og uppruna hobbitanna meðal mannfræðinga og fornleifafræðinga. Sumir héldu því fram að þeir væru bara dvergvaxnir menn, Homo sapiens, og ekki ný tegund. Þeir sem voru á þessari skoðun bentu á að dvergvaxið fólk og dýr kunna að þróast á eyjum þar sem framboð fæðu er takmarkað og þar sem litlir einstaklingar komast betur af en stórt fólk - þeir þurfa minna í matinn. Nú virðast langflestir vera hins vegar á þeirri skoðun að hobbitarnir séu ný og óþekkt tegund, Homo floresiensis, sem á engan sinn líka. Það er því fróðlegt að skoða hobbitana í samhengi við Homo sapiens og aðra fjarskylda ættingja okkar manna, eins og myndin fyrir neðan sýnir: 1: Homo habilis (verkamaðurinn), var uppi fyrir 1.6 til 2.4 miljón árum.2: Homo sapiens (nútímamaðurinn), hefur ríkt á jörðu sl. 200 þúsund ár.3: Homo floresiensis (hobbitinn), var uppi frða um 95 þúsund til 13 þúsund árum.4: Homo erectus (uppréttur maður), var uppi fyrir 1.8 miljón til 100 þúsund árum.5: Paranthopus boisei (hnetubrjóturinn), var uppi fyrir 2.3 til 1.4 miljón árum.6: Homo heidelbergensis (Golíat), var uppi fyrir 700 til 300 þúsund árum.7: Homo neanderthalensis (Neanderthal), var uppi frá um 250 þúsund til 30 þúsund árum.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Ferðalög, Mannfræði, Menning og listir | Breytt 21.3.2010 kl. 14:49 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.