Bromo - Eldfjall Guðanna

BromoÉg kleif Bromo eldfjall nýlega, en til að kunna að meta mikilvægi þess fjalls, þarf að hafa stuttan formála varðandi mannkynssöguna. Á miðöldum var mikið ríki á eynni Jövu í Indónensíu sem kallað var Majapait keisaraveldið. Áhrifa þess gætti um allar eyjarnar, en hornsteinn Majapait voru hindú trúarbrögðin. Senilega hefur Majapait ríkið átt uppruna sinn að rekja til Indlands, en trúin, siðir og hættir voru allir á indverska vísu. Hápúnktur Majapai veldisins var undir stjórn Hayam Wuruk, frá 1350 til 1389, en þá náði veldið yfir alla Indónesíu, Filipseyjar, Malaísíu, Singapore, og víðar. Á elleftu öld fóru kaupmenn frá Arabíu fyrst að verzla í Indónesíu og byrjuðu að setjast að í helstu hafnarborgum eyjanna. Með þeim barst múslimatrúin og breiddist ótrúlega hratt út.  Caldera 2Á sextándu öld voru áhrif múslima orðin svo mikil, að Majapait veldið hrundi. Aðallinn flúði til eyjarinnar Bali, en þar er hindú trúin og menning Majapait veldisins enn varðveitt meðal 95% eyjarskeggja. Á Jövu tóku múslimar öll völd, en lítill hópur frá gamla Majapait og hindú trúandi manna flúði til fjalla og setist að í grennd við eldfjallið Bromo og þar eru þeir enn. Þjóðsagan segir, að Majapait prinsessan Roro Anteng og maður hennar Joko Seger hafi stofnað þar lítið ríki undir nafninu Tengger, sem er samansett úr nöfnum þeirra hjóna, en hálenda svæðið Tengger er eitt stærsta eldfjall í Indónesíu. Veldi þeirra hjóna í Tengger var í miklum blóma en í fyrstu var þeim ekki barna auðið. Þau klifu þá eldfjallið Bromo og báðu guðina að veita þeim frjósemi. Guðirnir urðu við bæninni, en með því skilyrði að þau fórnuðu síðasta barninu í gíginn. Þau eignuðust 25 börn, og þegar hið síðasta fæddist, þá varð prinsessan ekki við skipan guðanna. Guðirnir hefndu sín með miklu eldgosi, sem varði þar til hún fórnaði barninu. SemeruSíðan færa Tengger búar árlega fórnir á barmi Brómo gígsins enn í dag, þar sem þeir varpa nautum, geitum og öðru góðgæti niður í hyldýpið. Enn búa afkomendur Tengger fólksins umhverfis Bromo og stunda aðallega akuryrkju og reka ferðaiðnað. Þeir leigja út hesta fyrir reiðtúra um öskjuna, og veita leiðsögn um fjöllin. Tengger askjan er 16 km í þvermál, en hún er óvenjuleg, þar sem hún er ekki hringlaga, eins og flestar öskjur, heldur eins og tígull í laginu. Sjá loftmynd og gervitunglsmynd sem hér fylgir. Askjan hefur myndast í kjölfar á miklu sprengigosi, og er talið að það hafi orðið fyrir um 2000 árum. Myndin til hliðar sýnir jarðlag á öskjubrúninni, sem er aska og vikur frá sprengingunni. Bromo er virkt eldfjall, og er stöðugt strókur af gufu og brennisteinsgasi uppúr gígnum. Bromo gýs með fárra ára millibili. Öðru hvoru verða stærri sprengingar, en sú síðasta varð í júní 2004. Þá fórust tveir sem voru á gígbrúninni og sjö aðrir særðust illa. Skammt fyrir sunnarn Tengger öskjuna er eldfjallið Semeru sem er hæsta fjall á Jövu, eða 3676 metrar.  BatokSemeru er einnig virkasta eldfjall Indónesíu og gýs með um 20 mínútna fresti. Semeru er mikilvægasta fjall í Indónesíu að áliti hindú trúarmanna. Hér er mynd sem sýnir hindú dýrkun í hlíðum Semeru, á meðan á gosi stendur. Oft farast prestarnir við þesskonar athöfn. Eldfjallið Agung á Bali er mikið dýrkað, en Smeru er talið vera faðir Agung, og því lang merkast. Það er ógleymanleg sjón að sjá sólina koma upp yfir Tengger öskjunni, en þa gerist um kl. 5 að morgni. Smátt og smátt breiðist birtan yfir gígana, hvern á eftir öðrum, fyrst Semeru, þá Batok, og síðan Bromo. Við hliðina á Bromo er útkulnað eldfjall sem nefnist Batok. Eins og sjá má á myndinni til hliðar er Batok óvenjulegt fjall, vegna rofs og veðrunar sem hefur myndað djúpar rákir og rennur í hlíðar fjallsins. Það stafar af því að Batok er myndað af eldfjallsösku, sem regn og vindar veðra og rífa niður á skipulegan hátt. Hér fyrir neðan er mynd af Bromo og Tengger öskjunni sem ég tók í nóvember, 2009. Það var ógleymanleg sjón að sjá sólaruppkomu yfir eldfjöllunum. Besta mynd sem ég hef séð af öskjunni var reyndar tekin af John Stanmeyer 2007, og má finna hana hér:http://ngm.typepad.com/our_shot/november-30-2007.html

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Mjög fróðlegt blogg og áhugavert.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 8.12.2009 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband