Eldfjöllin í Indónesíu kalla

Map1

 Á mánudag 12. oktober flýg ég frá Bandaríkjunum til Indónesíu. Það eru orðnar æði margar ferðir mínar í þetta fjarlæga land síðustu 23 árin, en alltaf bíð ég þess með spenningi að komast til Austur Indía. Íslendingar og flestir vestrænir menn vita nær ekkert um Indónesíu, þótt þetta sé fjórða stærsta þjóð í heimi, með yfir 240 miljón íbúa. Indónesíu má með sönnu kalla eyland, en hér eru 6000 eyjar í byggð, sem þekja um tvær miljónir ferkílómetra á miðbaug. Einnig er athyglisvert að hér búa fleiri múslimar en í nokkru öðru landi jarðar. Við heyrum nær daglega fréttir af eldgosum og jarðskjálftum í Indónesíu, enda er þetta mesta eldfjallaland jarðar og stórir jarðskjálftar eru tíðir. Indónesía markar flekamót, eins og myndin fyrir ofan sýnir. Að sunnan er það Indó-Ástralíuflekinn sem skríður stöðugt til norðurs, á um 9 sm hraða á ári. Hann sígur niður undir meginlandsskorpu Asíuflekans, og markar sigbeltið flekamótin. Hér er röð af eldfjöllum, sem eru eins og perlur á streng, um þrjú þúsund km á lengd. Í vestri er Krakatau, sem er fræg af endemum af gosinu mikla 1883, og í austri er Tambora, fræg af stærsta eldgosi jarðar, árið 1815. Ég hef starfað á báðum þessum vígstöðvum og heimsæki þær nú rétt einusinni í viðbót. Það hefur töluvert verið birt á vefnum varðandi rannsóknir mínar á gosinu mikla í Tambora árið 1815 og hér eru nokkur dæmi:http://www.npr.org/templates/story/story.php?storyId=15448607http://www.uri.edu/news/tambora/http://www.npr.org/templates/transcript/transcript.php?storyId=15448607

TamboraTanguy1989

Gosið í Tambora árið 1815 er merkilegt á margan hátt. Það er stærsta gosið, en upp kom um eitt hundrað rúmkílómetrar af kviku. Gjóskuflóð og önnur áhrif frá gosinu drápu um 117 þúsund manns í Indónesíu, sem er mesta dauðsfall í einu gosi. Svo mikið efni barst upp í heiðhvolf jarðar að loftslag breyttist um alla jörðina í þrjú ár, eða mikil kólnun. Við gosið fór um 1.5 km af toppnum og ný askja, 9 km í þvermál og um 1400 metra djúp myndaðist. Myndin til vinstri er eftir franska jarðfræðinginn Jean-Claude Tanguy, tekin árið 1989 úr lofti yfir öskjunni á Tambora.  Myndin til hægri fyrir ofan er úr gervihneti og sýnir öskjuna. Það var vitað að fjöldi fólks bjó í hlíðum fjallsins, og þar var bær eða þorp með um tíu þúsund manns. Það hvarf algjörlega í gosinu 1815, og enginn komst af. Árið 2004 fann ég þorpið loks aftur, en það er undir um 3 til 4 m af vikri og ösku. Myndin fyrir neðan sýnir störf okkar við uppgröft 2004.

Excavation

Nú hefur uppgröftur hafist á þessum merku minjum, og munum við halda því áfram í haust með fornleifafræðingum frá Bali.Árið 1883 gaus Krakatau eyja, sem er í sundinu milli eyjanna Súmötru og Jövu. Þetta mikla sprengigos myndaði flóðbylgju sem dreifðist í allar áttir. Þegar bylgjan gekk á land á Jövu í austri þá var hún um 30 metrum hærri en venjuleg sjávarstaða. Alls fórust um 36 þúsund manns í flóðbylgjunni. Nær allt gosefnið frá Krakatau er á hafsbotni og á árunum 1990 til 1992 starfaði ég við rannsóknir á hafsbotninum til að fá betri skilning á þessu merka gosi. Við beittum margskonar tækni, og köfuðum á um 65 stöðum til að kanna hafsbotninn og taka sýni. 

KrakatauBathymetry

Kortin tvö hér til hliðar sýna hafsbotninn fyrir (til vinstri) og eftir gos (til hægri), og hefur landslag hafsbotnsins greinilega breytst mikið við gosið. Þar sem áður var stór eyja, er nú djúp askja á hafsbotni. Krakatau hrundi algjörlega 1883, en nýtt eldfjall, Anak Krakatau, hfur vaxið frá borttni öskjunnar og myndar nú nýja eyju. Anak er mjög virk eins og stendur, og ég hlakka til að fylgjast með nýja gosinu þar.Þessi leiðangur verður um tveir mánuðir, og víða komið við. 

Krakatau

Vonandi get ég bloggað öðru hvoru, en ég verð meiri hluta tímans í tjaldbúðum og fjarri netsambandi. Aðalmiðstöð mín í leiðangrinum verður á eynni Bali, þar sem hollenskur vinur minn Rik Stoetman býr með fjölskyldu sinni í þorpinu Ubud. Á Bali eru einnig nokkur eldfjöll, og er Agung frægast þeirra, enda dýrkað mjög af íbúum, sem eru nær allir hindútrúar á Bali. Gosið í Agung árið 1963 var með stærri gosum á sínum tíma. 

Girl

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ótrúlega gaman að lesa pistlana þína !

Klara Stephensen (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband