Dr Atl – Eldfjallafræðingur, byltingarsinni og listmálari

 

DrAtlSketch

 

Einn vinur minn á litla málmstungu eftir Rembrandt. Hún er ekki stór, svona eins og eitt blað í bók, en myndin er samt mesti fjársjóður hans. Auðvitað eru málverk eftir Meistarann langt fyrir utan efnahag hans, en alla vega á hann sína Rembrandt mynd, þótt lítil sé. Ég á eina litla mynd sem er líka gömul og gulnuð, og hún er í álíka uppáhaldi hjá mér. Sú mynd er pennateikning eftir Dr Atl eða Gerardo Murillo frá Mexíkó. Myndin, sem er sýnd hér fyrir ofan, er nú í Eldfjallasafni í Stykkishólmi. Hún er frá því þegar Parícutin eldfjall gaus í Mexíkó árið 1943. Mig langar til að segja ykkur frá honum Dr Atl, en hann er meðal merkustu listamanna Mexíkó, og auk þess var hann eldfjallafræðingur! 

DrAtlLjósmynd

Mexíkó er land mikilla eldfjalla og landskjálfta, en skorpuhreyfingar þar orsakast af því að Cocos flekinn í Kyrrahafi mjakast til austurs, og sígur undir meginlandsskorpuna í Mexíkó á um 8 sm hraða á ári. Það er því fjöldi virkra eldfjalla í landinu, og sprengigos algeng, en hér verða líka oft sprengingar af öðru tagi, sem sagt af pólítískum uppruna. Dr Atl var sérfræðingur í fremstu röð á báðum þessum sviðum, eldfjallafræðingur og byltingasinni og einnig framúrskarandi málari. Þegar hann fæddist í Guadalajara árið 1875 þá hlaut hann nafnið Gerardo Murillo. Hann var flótt þjóðernissinni og dáði forna menningu innfæddra mexíkana, en hataði allt sem minnti á nýlendustjórn spánverja. Strax í æsku losaði hann sig því við spánska nafnið, og tók að kalla sig Dr Atl, en atl þýðir vatn í Nahuatl, sem er tungumál Aztec indíánanna í Mexíkó. Það var strax ljóst að hann hafði óvenju mikla hæfileika sem listamaður og árið 1896 var hann kominn til náms á Ítalíu. Árið 1904 snéri hann heim til að taka þátt í baráttunni gegn spillta einvaldinum Porfirio Diaz. Á þeim tíma stofnaði hann fyrstu akademíu listamanna í Mexíkó, Centro Artistico. Í akademíunni hélt hann fyrirlestra um listastefnur sem hann hafði fræðst um á Evrópuferð sinni, og hvatti nemendur sína til að fara út í náttúruna og mála, þar á meðal sjálfan Diego Rivera, e meðal annara nemenda hans voru margir fremstu listamenn Mexíkó, svo sem David Alfaro Siqueiros og José Clemente Orozco. En brátt varð Dr Atl að flæmast úr landi vegna stjórnmálaskoðanna sinna árið 1911 og hélt nú aftur til Ítalíu, í þetta sinn til að hefja nám í eldfjallafræði. Á ferðum sínum um heimalandið hafði Dr Atl orðið hugfanginn af eldfjöllunum í Mexíkó og ásetti sér að fræðast nú meir um eðli þeirra. En Ítalía var einmitt vagga eldfjallafræðinnar á þessum tíma. Hér var hann við nám í eldfjallafræði hjá Immannuel Friedlander og Frank A. Perret við háskólann í Napólí. Hann ferðaðist mikið um Evrópu á þessum tíma, hitti Vladimir Lenin, og gaf út blað sósíalista með Benito Mussolini. 

Atl Paricution 1948

Dr Atl var brautryðjandi og hinn sanni frumkvöðull mexíkanskar listar, sem var í senn innfædd og fjarlæg evrópskri hefð og árifum. Hann var ekki aðeins mjög virkur í stjórnmálabaráttunni, til að frelsa þjóð sína frá tengslum við einræðisstjórn og neikvæð áhrif nýlendustjórnarinnar, heldur vann hann að því að skapa nýja og einstaka mexíkanska list. Hann gekk svo langt, að hann bjó til nýja liti sem hentuðu betur litrofi og landslagi heimalandsins. Í fjallgöngum og á ferðum sínum um Mexíkó þótti Dr Atl oft óþjált að fást við venjulegan útbúnað landslagsmálarans, eins og trönur og olíuliti. Til að gera málið einfaldara þá fann hann upp nýja liti, sem hafa verið nefndir Atlcolors. Þeir eru stífir litir, sem hægt er að mála með beint á hvaða efni sem er, og gerðir úr blöndu af vaxi, benzíni, olíulit og kvoðu, en úr varð stykki eða stöng sem málað var með. Langflest verk Dr Atls eru gerð með þessum litum.Dr Atl skipulagði hóp nemenda sinna og annarra ungra listamanna til að hrinda af stað herferð í fjölmiðlum og í veggplakötum í þágu byltingarinnar. Þeir gáfu út tímarit, bæklinga og gerðu veggmálverk, sem deildu hart á einveldið og hvöttu almenning til átaka í þágu byltingarinnar. Skerfur þeirra var mikill við að koma á auknu lýðræði í Mexíkó á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar, en vegna mikillar spillingar meðal stjórnmálamanna hefur orðið afturför á þessu sviði hin síðari árin. 

Paricutin2

Á tímum byltingarinnar, á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar, má segja að eldgos hafi verið einskonar tákn byltingarinnar, einkum sem tákn stórkostlegra breytinga. Einn byltingarsinna sagði: “Ég elska byltinguna eins og ég elska eldgos; ég elska eldfjallið af því að það er eldfjall, og byltinguna af því að hún er bylting!”Það gerist öðru hvoru, að eldgos brýst út á auðu landi og nýtt eldfjall rís. Við þekkjum þetta fyrirbæri vel á Íslandi, en einnig eru ný eldfjöll nokkuð tíð í Mexíkó. Það var í febrúar 1943 að nýtt eldfjall varð til í Michoacan fylki í Mexíkó. Það var um fjögur leytið einn daginn að bóndinn Dionisio Pulido var að ljúka að plægja akur sinn, þegar hann tók eftir því að aska og reykur gusu upp úr plógfarinu og gjall fór að safnast fyrir í hrauk umhverfis sprunguna. Næsta dag var gígurinn orðinn 8 metra hár, og 60 m eftir þrjá daga. Síðan tók hraun að renna, en gjallkeilan hækkaði stöðugt þar til gosinu lauk árið 1952 en þá var eldfjallið 424 m á hæð yfir umhverfið. Undir hraunið fóru þorpin Paricutin (733 íbúar) og San Juan Parangaricutiro (1895 manns), og auðvitað allir maísakrarnir hans Dionisio Pulido, en enginn lét lífið. Dr Atl fór strax á staðinn og var mörg ár við Parícutín við rannsóknir og sköpun listaverka. Árangurinn var fjöldi listaverka og merkileg bók eftir hann, sem lýsir sköpun eldfjallsins: Como nace y crece un volcan? sem kom út árið 1950. Hann gerði alls 130 teikningar og 11 málverk af gosinu. 

Paricutin3

 Í bókinni setur Dr Atl fram hugmyndir sínar um uppruna eldgosa. Hann afskrifar úreltar hugmyndir um að hitinn í jörðinni stafi af efnahvörfum milli járns og brennisteins, sem Isaac Newton hafði set fram, eða vegna bruna eldfimar efna í jörðinni. Í staðinn legur hann til að eldvirkni séu leifar af upprunalegum hita jarðar, en við það bætist hiti frá geislavirkum efnum í iðrum jarðar. Hann hlynntist kenningu Alfred Wgeners um landarek og taldi að eldvirkni í Mexíkó væri afleiðing af hreyfingum mikilla skorpufleka. Þannig voru skoðanir hans mjög í stíl við það sem við vitum í dag.Á efri árum, þegar hetjan var orðin slitin og búinn að missa annan fótinn, þá tók Dr Atl upp þá aðferð að mála eldfjöllin sín úr lofti. Hann fékk lánaðar þyrlur hjá mexíkanska olíufélaginu PEMEX og málaði stórkostleg verk þar sem hann sveif yfir eldfjöllunum. Þessa nýjung kallaði hann aeropainting. Hann var kominn svo hátt að sjóndeildarhringurinn er boginn, og eldfjöllin koma fram sem vel aðgreind jarðfræðileg fyrirbæri. Sumar myndirnar voru gerðar að nóttu til og sýna jörðina sem hluta af himingeimnum og sólkerfinu. Um tíma átti Dr Atl í eldheitu ástarsambandi við fögru listakonuna Carmen Mondragon, og gaf henni innfædda nafnið Nahui Olin. Samband þeirra einkenndist af ofsalegum tilfinningum, ofbeldi og dramatískum atburðum, en í lokin kallaði Dr Atl hana græn-eygða snákinn. Dr Atl dó árið 1964. Nemandi hans, frægi málarinn Diego Rivera, sagði að hann hefði verið einn merkasti og sérkennilegasti maður sem fæðst hefði á meginlandi Ameríku. 

Dratl

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband